fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Karl Spánarkonungur var einn innræktaðasti einstaklingur sögunnar – Slefaði og kafnaði næstum á eigin tungu

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 22. mars 2022 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Habsborgararættin er líklegasta sú innræktaðasta sem vitað er um í mannkynssögunni og dapurlegasta dæmið um áráttu ættarinnar að halda ,,hreinni blóðlínu“ er Karl II, Spánarkonungur.

Charles sem barn. Málverkið ku vera afar fegrað.

Karl fæddist í nóvember árið 1661 og tók við hinu gríðarstóra veldi Spánar við lát föður síns aðeins fjögurra ára að aldri. Karl var síðasti þjóðhöfðingi Habsborgarættarinnar sem hafði ráðið stærstum hluta Evrópu hátt í 400 ár. Ekki var til sú höll í Evrópu sem ekki var að finna meðlim ættarinnar. Habsborgararnir voru nefnilega ekki á því að hleypa öðrum til valda og giftust því meðlimir ættarinnar hverjir öðrum, kynslóð eftir kynslóð.

Móðirin systurdóttir föðursins

Karl II Spánarkonungur um það leiti sem hann tók við krúnunni.

Allir langafar og langömmur Karls voru afkomendur Filippus og Jóhönnu af Kastilíu sem höfðu gifst frændsystkinum sínum, sem aftur höfðu gifst frændsystkinum sínum. Og svo framvegis.  Og þegar að aumingja Karl kom í heiminn var hann innræktaðri en ef foreldrar hans hefðu verið systkini. Fjölskyldumynstur Karls var mjög í anda ættarinnar;  móðir hans Mariana var systurdóttir föður hans, Filippus IV Spánarkonungs. Hún var 30 árum yngri en eiginmaður/frændi hennar.

Margra áratuga innræktun hafði sett svip sinn á meðlimi Habsborgarættarinnar.  Frægastur var hinn svokallaði Habsborgarkjálki, framstæður kjálki, sem má sjá í mismiklum hlutföllum, á fjölda málverka af meðlimum ættarinnar í gegnum tíðina. Einnig þjáði ættina gríðarlega mikið þunglyndi, mismikið eftir einstaklingum.

Innræktunin nær hámarki

Þegar kom að fæðingu Karls II hafði innræktunin náð slíku hámarki að andleg og líkamleg fötlun hans var með ólíkindum. Reyndar höfðu foreldrar hans eignast dóttur áratug fyrr, Margarete Theresa, sem slapp betur en bróðir sinn, þrátt fyrir að berjast við fjölda sjúkdóma sem barn. Í anda Habsborgarinnar var Margaret Theresa gift Leopold I keisara þegar hún var 14 ára gömul. Hann var móðurbróðir hennar en vegna flækjustigs ættarinnar voru þau einnig systkinabörn. Hjónaband þeirra var ástríkt og eignaðist Margaret fjögur börn með eiginmanni sínum og frænda en gekk í gegnum tvö fósturlát. Aðeins eitt barna hennar lifði fram á fullorðinsár en sjálf lést Margaret af völdum lungabólgu, aðeins 21 árs að aldri og ólétt af sínu sjöunda barni.

Margaret Theresa var fyrra barn konungshjónanna sem dáðu dóttur sína.

Slefaði og gat vart borðað

En aftur að Karli kóngi. Vegna óróa í pólitík var lykilatriði að halda eina erfingja krúnunnar á lífi og það helst heilbrigðum. En vesalings litli kóngurinn fékk alla sjúkdóma sem unnt var að fá; mislinga, hlaupabólu, rauða hunda og bólusótt, svo fátt eitt sé nefnt. Kjálki hans var það framstæður að hann gat ekki lokað munninum, átti mjög erfitt með að borða og slefaði svo að segja stanslaust. Tunga hans var það stór að oft lá við að hann kafnaði á henni. Karl lærði ekki að tala fyrr en hann var fjögurra ára. Hann þjáðist af beinkröm sem olli því að hann að þurfti að vera með spelkur og náði ekki að almennilega að læra að ganga fyrr en um átta ára. Hann var afar lágvaxinn og óx varla hár á höfði og var ávallt með hárkollur.

Reyndar er makalaust að Karl hafi náð að lifa æskuna, sérstaklega með tilliti til barnadauða þessa tíma.

Svaf með líkum

Karl mun hafa verið fegraður mjög á málverkum.

Mariana móðir hans hélt um stjórntaumana í spænska veldinu á meðan að læknar voru kallaðir til í þeirri von um að koma Karli litla til heilsu. Meira að segja voru kallaðir til prestar í þeirri von um að særa úr honum ,,illa anda” sem munu hafa verið flogaveikisköst. Ekki nóg með það heldur var hann látinn sofa með beinagrindum löngu látinna einstaklinga sem álitnir höfðu hafa haft lækningamátt. Karl var meðvitaður um takmarkanir sínar og hafði tröllatrú á líkunum sem hann deildi rúmi með allt til dauðadags. Karl var meðhöndlaður sem ungabarn fram á unglingsár og fékk litla sem enga menntun enda var það talið fullkomlega gagnslaust.

Síðasti naglinn í kistuna

Karl tók formlega við stjórntaumunum á Spáni 1675, 14 ára gamall.

Ættartré Karls er með ólíkindum.

Heimildum ber ekki saman um hversu mikinn þátt Karl tók þátt í stjórn ríkis síns, sem var á barmi gjaldþrots og byltinga. Habsborgarveldið á Spáni var að hruni komið og krýning Karls var lítið annað en síðasti naglinn í kistu þessa fyrrum heimsveldis. Sumir vilja meina að Karl hafi verið of andlega skertur til að gera eitt eða neitt en aðrar heimildir sýna að hann hafi setið fundi og jafnvel lesið fyrir bréf. Sjálfur var hann ekki læs.  En í raun var Spánarveldi stýrt af móður hans, aðalsmönnum og embættismannakerfi sem sífellt börðust um völd í ríki sem var að hruni komið.

Fyrirleit eiginmanninn

Þar sem Karl var alltaf við dauðans dyr þótti nauðsynlegt að gifta hann sem fyrst til að framleiða nýjan Habsborgarerfingja.

Marie Louise fyrirleit eiginmann sinn og hataði veruna á Spáni.

Árið 1679 var því gert samkomulag að gifta hann 17 ára franskri prinsessu, Marie Louise, til að tryggja frið við Frakka. Ekki þarf að taka það fram að Marie Louise var frænka hans, þau voru tvímenningar.  Marie Louise var alfarið á móti hjónabandinu, mannsefnið olli henni viðbjóði. Karl var of veikur til að mæta í eigin brúðkaup, þess í stað var frændi hans sendur fyrir hans hönd, sem ekki var óalgengt á þessum tíma.

Engin snerting í áratug

Marie Louise hataði veruna við spænsku hirðina, en þó sérstaklega eiginmann sinn sem var afskræmdur í útliti, flogaveikur, þunglyndur, ruglaður og sköllóttur. Hann var einnig blessunarlega ófrjór og getulaus, svo engir komu afkomendurnir. Vegna tíðarandans var drottningunni aftur á móti alfarið kennt um barnleysið.

Marie Louise lést ung.

Marie Louise var döpur og einangruð á Spáni, án fjölskyldu og vina, gift manni sem hún fyrirleit. Auk þess bönnuðu hirðsiðir að drottning væri snert af nokkrum einstaklingi nema eiginmanni. Eftir 10 erfið og einmanaleg ár fékk Marie Louise magaverk eitt kvöldið og lést um nóttina. Sennilega mun drottningin unga hafa látist af botnlangabólgu.

Næsta hjónaband

Nokkrum vikum síðar var Karl skikkaður í annað hjónaband og auðvitað með enn öðrum Habsborgaranum, austurísku prinsessunni Marie-Anne af Neubourg. Aftur var kóngsi of veikur til að mæta í eigið brúðkaup. Fjölskylda Marie-Anne var heimsfræg fyrir frjósemi, enda var Marie-Anne tólfta barn foreldra sinna af hvorki meira né minna en tuttugu og þremur. Spænsku hirðinni létti. Nú hlyti að koma erfingi.

Hjónabandið var Marie-Anne jafn erfitt og forvera hennar.

En ekkert bólaði á barni og vesalings Marie-Anne þurfti að ganga í gegnum ótal sársaukafullar meðferðir til að lækna ,,ófrjósemi” hennar. Á endanum gengu aðfarirnar svo langt að henni var ekki hugað líf en eftir að vera látin deila rúmi með einni af heilögu beinagrindum eiginmanns síns, mun hún hafa náð sér.

Valdatíma lokið 

Karl dó árið 1700, algjörlega farinn á líkama á sál, 39 ára gamall. Barnleysi Karls varð til þess að valdatíma Habsborgarættarinnar lauk og við tók 12 ára barátta um veldi Spánar. Enn rennur þó blóð ættarinnar í flestum konungsfjölskyldum Evrópu.

Marie-Anne drottning tók andláti eiginmannsins fagnandi, flutti til Frakklands og giftist trésmið. Hún lést 77 ára gömul.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár