fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Villibarnið Genie þurfti að þola ólýsanlega misnotkun: Skelfilega saga telpunnar sem þjóðfélagið brást

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 19. mars 2022 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrstu 13 ár lífsins þurfti Genie Wiley að þola skelfilega vanrækslu af hendi ofbeldisfulls föður og hjálparvana móður. Líf villibarnsins Susan, betur þekktri sem Genie, er dimm og dapurleg saga brotinnar stúlku sem kerfið brást.

Fraus nýfædd í hel

Clark og Irene með John lítinn.

Saga Genie byrjar með föður hennar, Clark Wiley. Faðir hans lést þegar hann var barn og móðir hans rak vændishús og sýndi syni sínum lítinn áhuga. Clark ólst að mestu upp á munaðarleysingjarhælum milli þess sem móðir hans sótti hann, hafði hann hjá sér í vændishúsunum og skilaði honum aftur þegar hún fékk leið á honum. Hann þótti erfiður í skapi og einfari sem sýndi kvenfólki lítinn áhuga en var með allt að því óeðlilegan áhuga á móður sinni sem hann átti í sérkennilegu ástar/hatusambandi við. Á miðjum aldri kvæntist hann þó Irene Oglesby, sem var 20 árum yngri en hann, og bjuggu þau í bænum Arcadia í Kaliforníu. Clark stjórnaði Irene með harðri hendi, krafðist allt að algjörrar þagnar á heimilinu, og hataði börn.

Mynd sem tekin var af Genie um það leiti sem hún fannst.

En börnin komu samt. Fyrsta barnið, telpa, lést nokkra vikna gömul eftir að Clark setti hana út í ískaldan bílskúr þar sem hún fraus í hel fyrir það eitt að gráta. Næsta barn fæddist andvana. Þriðja barnið var drengur, John, og fimm árum síðar, árið 1957,  kom telpa, Genie.

Nakin í spennitreyju

Genie eyddi fyrstu 13 árum ævi sinnar hlekkjuð í dimmu herbergi á heimili fjölskyldunnar.

Þegar Genie var ungabarn lenti Irene í slysi sem olli miklu höfuðáverkum auk þess sem hún missti að mestu leyti sjónina. Vald Clark yfir heimilinu jókst enn frekar eftir áverka Irene. Clark hafði alltaf verið erfiður í skapi en þegar móðir hans fórst í bílslysi árið 1958 fór grimmd hans og illgirni algjörlega úr böndunum. Hann misþyrmdi John en það var Genie sem þurfti að þola mestu þjáningarnar, næstum örugglega út af því að hún var telpa. Clark læsti 20 mánaða dóttur sína í litlu herbergi þar sem hún var ýmist bundin við pott eða höfð í vírbúri, nakin í spennitreyju. Henni var bannað að gráta, tala eða láta frá sér nokkur hljóð ella barði faðir hana, ýmist með hnefunum eða spýtu. Það var talið að Genie hefði einnig þurft að þola kynferðislega misnotkun af hendi Clarks þar sem hegðun hennar í garð eldri karlmanna síðar í lífinu benti ótvírætt til þess.

Ráfaði um blind

Árin liðu og Genie sat ein, þögul og bundin í litla herberginu. Hún hitti aldrei neinn. Hún fékk enga hjálp frá móður sinni, næstum blindri sem hafði verið svo barin og brotin að hún hvorki þorði né gat stöðvað ofbeldi eiginmanns síns. John var of hræddur við föður þeirra til að fara inn í herbergið.

Irene Wiley

En að því kom að Irene gat ekki meira. Hún sótti Genie og flúði heimilið. Irene var stöðvuð þegar hún ráfaði inn í ranga byggingu, enda næstum alblind, í leit að félaglegri aðstoð. Hún var í fylgd með grútskítugu barni sem virtist ekki geta gengið, heldur ýmist skreið eða hoppaði í fylgd móður sinnar.

Aldrei séð verra tilfelli barnamisnotkunar

Lögregla og barnaverndayfirvöld voru þegar kölluð til. Telpan leit út fyrir að um 7 ára gömul, hún var aðeins 26 kíló og gat ekki talað né tjáð sig á neinn hátt. Hún átti erfitt með að borða og kyngja og vöðvarýrnun var slík að hún gat ekki gengið og varla lyft höndunum. Hún kunni ekki að nota salerni og þoldi enga snertingu. Hun brosti aldrei.  Barnaverndaryfirvöld höfðu aldrei séð annað eins og fengu áfall þegar þegar í ljós kom að stúlkan var 13 ára gömul.

Genie var þegar send á barnaspítala og sögðu læknar aldrei hafa séð verra tilfelli af barnamisnotkun.

Málið vakti gríðarlega athygli fjölmiðlar. Clark Riley skaut sig áður en til réttarhalda kom.

Clark og Irene voru bæði kærð fyrir vanrækslu en Clark skaut sig áður en til réttarhalda kom. Hann skildi eftir miða sem á var skrifað: ,,Þau munu aldrei skilja”. Allar kærur á hendur Irene voru felldar niður við frekar rannsókn á aðstæðum heimilisins.

Guðsgjöf fræðimanna

Genie var ,,guðsgjöf” hina ýmsu sérfræðinga sem álitu hana fullkomið ,,eintak” til að rannsaka þróun mannshugans í svo að segja algjörri einangrun. Genie var rannsökuð í öreindir. Var ástand hennar meðfætt vegna þroskaskerðingar eða var það afleiðing misnotkunar? Síðar kom í ljós að Genie hafði góða greind.

Genie gat lítið sem ekkert af sjálfsdáðum í byrjun.

Það voru teknar endalausar myndir af heila hennar, hún var látin taka ótal próf til að kanna greind og félaghæfni og kvikmyndatökur af Genie við tilraunir til hreyfinga skiptu tugum. Þó var áhuginn mestur á getu hennar til máls og stóðu málvísindamenn í röðum til að rannsaka aumingja Genie sem þurfti að þola endalausar upptökur þar sem hún var í sífellu látin reyna að endurtaka orð og setningar. Genie sýndi framfarir þótt hægt gengi, náði að mynda samband við einstaka fólk, lærði einfaldar setningar og gat sýnt tilfinningar sínar með teikningum.  En fjármagnið til rannsókna á Genie minnkaði og hvarf á endanum.

,,Pabbi berja“

Genie átti erfitt með gang eftir að hafa verið að mestu leiti bundin niður í 13 ár.

Genie var aftur sett í hendur móður sinna sem var engan vegin hæf til að sjá um hana sökum sjónleysisins. Við tók stofnun eftir stofnun sem sumar hverjar refsuðu Genie harkalega fyrir hluti sem hún hafði engan skilning á. Henni hrakaði snarlega. En það höfðu ekki allir gleymt Genie og var hún sett í fóstur og bjó hjá þremur fjölskyldum sálfræðinga og þroskasérfræðinga sem allar rifust um forræði hennar næstu árin. Hún tók framförum og gat aftur farið að mynda setningar. Einn sálfræðingur minntist síðar á að hann og kona hans hefðu tárast við að sjá og heyra Genie segja: ,,pabbi berja”, ,,Genie gráta”, ,,ekki hrækja”, ,,stór spýta sárt” og ,,pabbi reiður”. Hún lærði einnig að búa til einfaldar máltíðir, mannganginn í skák og undistöður í saumaskap. Hún naut einnig tónlistar. Genie lærði einnig töluvert í táknmáli sem stórjók hæfni hennar til samskipta. Samband hennar við móður sína jókst til muna eftir að Irene fór í augnaðgerði sem bætti sjón hennar.

Aldrei manneskja, alltaf tilfelli

Snemma árs 1978 fór Irene aftur fram á forræði yfir Genie og fékk það í gegn. Harðbannaði hún í kjölfarið allar frekari rannsóknir á dóttur sinni þrátt fyrir hávær mótmæli sérfræðinga.

Genie brosti aldrei fyrstu mánuðina en það breyttist smám saman.

Irene til varnar ber þó að nefna að Genie var alltaf meira rannsóknarefni en fjölskyldumeðlimur hjá ofangreindum ummönnunaraðilum. Það var víða afar vel séð um hana, jafnvel elskuð, og sýndi hún þá ást á móti sem hún var fær um. En Genie varð sjaldan sem aldrei alvöru fjölskyldumeðlimur. Genie var alltaf ,,tilfelli“;  efni í ótal vísindagreinar og viðtöl við umönnunaraðila sem hnakkrifust um hvernig taka skyldi á víðtækum vanda Genie og baknöguðu aðferðir hvors annars. Varð það til þess að Genie fékk aldrei þá heildrænu og langvarandi meðferð sem hún svo átakanlega þurfti á að halda.

Susan ,,Genie“ Wiley. Ekki er vitað hvað Genie var gömul þegar þessi mynd var tekin.

Hringrás stofnana og hæla

Irene var aftur á móti engan vegin hæf um að sjá um Genie sem enn þurfti gríðarlega ummönnun. Að örfáum vikum liðnum tók hið opinbera aftur við Genie og harðlæsti á allar upplýsingar um hana. Þó er vitað að frá 1978 og fram undir lok tíunda áratugarins var Genie send á milli hæla og stofnana sem mörg hver voru engan vegin hæf að sjá um hana. Af því bárust fregnir að á sumum staðanna hefði  henni jafnvel refsað með barsmíðum fyrir að hlýða ekki fyrirskipunum sem hún ekki skildi. Einum af hennar gömlu sálfræðingum tókst að grafa upp stofnunina sem hún var á árið 1984 og fór að hitta Genie á 27 ára afmælisdegi hennar. Honum var illa brugðið.

Ótímasett mynd af Genie á fullorðinsárum.

„Hún þjáist af offitu, starir út í loftið og sýnir engin viðbrögð. Hreinlæti er ábótavant og það er eins og hár hennar hafi verið skorið af með hníf í stað þess að vera klippt,” sagði hann síðar í viðtali.

John, bróðir Genie, viðurkenndi að hafa reynt að gleyma henni.

Árið 2000 hafði fréttastofan ABC eftir nafnlausum starfsmanni á lítilli stofnun fyrir þroskahamlaða að Genie byggi þar og liði vel, hún talaði að vísu ekki, en notaðist við einfalt táknmál. Hennar mesta gleði væru mánaðarlegar heimsóknir móður hennar, Irene lést aftur á móti 87 ára að aldri 2003.

„Ég vona að henni líði vel“

Síðast mynd sem vitað er til af Genie. Ekki er vitað hvaða ár né hvar hún var tekin.

Líf Johns, eldri bróðir Genie, batnaði lítið sem ekkert eftir þennan örlagaríka dag sem þær mæðgur fundust. Hann flakkaði á milli fósturheimila og leiddist snemma út í smáglæpi en komst þó á rétta braut með árunum, kvæntist og starfaði sem húsamálari. John missti snemma allt samband við Irene og var í litlu sem engu sambandi við Genie gegnum árin. Síðast hitti hann hana 1984. Hann sagði í viðtali árið 2008 hann hefði reynt að gleyma henni. ,,Ég skammast mín fyrir það í dag en það er of mikill tími liðinn. Ég vona að henni líði vel.” John lést árið 2011.

Saga Genie er ekki bara sorgarsaga skelfilegs ofbeldis, hún er einnig sorgarsaga fagfólks sem vildi vel en gleymdi að stórum hluta velferð Genie í baráttu sinni frægð og frama innan vísindaheimsins.

Síðast fréttist af Genie á enn einni stofnuninni í Kaliforníu árið 2016. Algjört bann er enn af fregnum af Genie en þó er talið nokkuð víst að hún sé enn á lífi, 64 ára gömul.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár