fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Kennedy ættin átti vel falið leyndarmál í áratugi – Falda dóttirin sem aldrei mátti ræða

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 16. mars 2022 21:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kennedy-ættin í Bandaríkjunum hefur lengi verið talin eins nálægt því að vera konungleg og unnt er í landi án konungsættar. Hún hefur yfir sér töfraljóma glæsileika og valda en einnig hefur saga ættarinnar verið lituð harmi og sorgum.

Og leyndarmálum.

Hin fullkomna fjölskylda

Fyrsta árið grunaði engan ástand Rosemary.

Joseph Patrick Kennedy var fæddur inn í efnaða írskættaða fjölskyldu í Boston árið 1888. Hann kvæntist Rose Elizabeth Fitzgerald árið 1914 en hún var  einnig af írskrættaðri auðmannastétt. Eignuðust þau níu börn. Joseph var ákveðinn í að koma sonum sínum til valda og ól þá með það það að markmiði að gera Kennedy fjölskylduna þá valdamestu í Bandaríkjunum. Joseph safnaði að sér gríðarmiklum auði og urðu þau hjón ríkjandi meðal efri stétta Boston. Kennedy nafnið var sveipað glamúr löngu fyrir forsetatíð John F. Kennedy. Lagði Joshep sig í líma við að halda uppi ímynd hinnar fullkomnu fjölskyldu þrátt fyrir ítrekuð framhjáhöld og vafasama viðskiptagjörninga.

En Kennedy hjónin bjuggu yfir leyndarmáli sem fjölskyldan eyddu áratugum í að fela. Leyndarmálið var gleymda Kennedy barnið sem var falið frá umheiminum.

Hún hét Rosemary og var þriðja barn Joseph og Rose, og þeirra elsta dóttir, fædd 1918.

Varanlegar heilaskemmdir

Rose Kennedy með dætrum sínum. Rosemary er lengst til vinstri.

Þegar Rose var komin að fæðingu Rosemary náðist ekki í fæðingalækninn sem átti að taka á móti barninu. Hjúkrunarkonan sem var Rose til aðstoðar í hríðunum vildi ekki taka sjálf á móti barninu og greip til þess ráðs klemma saman fætur Rose og setja höndina upp fæðingarveginn til að koma í veg fyrir fæðinguna. Þannig liðu tvær klukkustundir þar til læknirinn mætti og kom Rosemary litlu loksins í heiminn. Rosemary virtist heilbrigð í fyrstu en gjörðir hjúkrunarkonunnar höfðu gert það að verkum að Rosemary varð fyrir súrefnisskorti sem olli henni varanlegum heilaskemmdum.

Öðruvísi Kennedy barn

Rosemary var falleg eins og öll Kennedy börnin, stóreygð, með liðað brúnt hár. En hún var augljóslega öðruvísi en hin börnin og eftir á í þroska. Þegar Rosemary var tveggja ára átti hún erfitt með að sitja uppi, skreið um með erfiðleikum og gat ekki gengið fyrr en um fimm ára aldur. Við fyrstu sýn virist ekkert að þessari fríðu telpu sem í raun var afar þroskahömluð. Rosemary hafði ekki getu til að leika við systkini sín og fékk reglulega flog sem gátu staðið klukkutímum saman. Síðar kom í ljós að hún var með alvarlega flogaveiki.

Einagruð og ráðvillt

Rosemary var lífsglöð en vissi aldrei af hverju hún var útilokuð.

Á þessum árum voru miklir fordómar gegn fötluðum einstaklingum og Joseph var hræddur um að fréttir af ,,geðbilaðri“ dóttur í Kennedy fjölskyldunni myndu skaða ímynd fjölskyldunnar og þar með möguleika elstu sona hans til frama. Joseph og Rose gerðu allt sem þau gátu til að fela fötlun Rosemary, jafnvel fyrir systkinum hennar og henni sjálfri. En þögnin gerði illt verra því enginn útskýrði fyrir Rosemary af hverju hún var ekki eins og systkini sín, af hverju hún fékk ekki að ganga í skóla né leika við önnur börn. Hún var lokuð inni í herbergi sínu við gestakomur. Allt þetta varð til þess að Rosemary var einangruð og ráðvillt sem olli oft á tíðum miklum reiðiköstum.

Las bara Bangsímon

Kennedy fjölskyldan. Rosemary situr lengst til hægri.

Þegar Rosemary var 11 ára var hún send í heimavistarskóla fyrir fólk með þroskahömlun og systkinum hennar bannað að ræða hana utan heimilisins. Þegar orðrómur fór á kreik um dvöl Kennedy barnsins í skólanum var hún send í klausturskóla, þá 15 ára gömul. Þar var henni haldið frá öðrum nemendum en höfð í umsjón tveggja nunna og eins kennara sem veittu Rosemary aðeins lágmarkskennslu.  Joseph gaf skólanum væna fjárhæð fyrir að þegja um dvöl dóttur sinnar. Rosemary lærði þó undirstöðu í lestri, skrift og reikningi en náði aldrei tökum á námsefni fyrir börn eldri en 8 ára. Hún las aldrei neitt nema bækur um Bangsímon sem hún elskaði og gat lesið endalaust.

Gullöldin í Englandi

Árið 1938 var Joseph skipaður sendiherra í Englandi. Rosemary var 19 ára og fylgdi fjölskyldu sinni yfir hafið. Hún var gullfalleg, hafði náð meiri stjórn á skapi sínu og gat á stundum komið fram með þeirri reisn sem Kennedy nafnið krafðist. Rosemary var meira að segja kynnt fyrir konungshjónunum í Bretlandi og vakti mikla aðdáun fyrir glæsileika og framkomu.

Rosemary þegar hún bjó í Bretlandi og vakti aðdáun fyrir fegurð og þokka.

Rosemary blómstraði í Englandi. Hún var sett í kaþólskan stúlknaskóla sem hafði allt aðrar aðferðir við umönnun hennar en sá bandaríski. Henni var sýnd áður óþekkt þolinmæði og gæska með þeim afleiðingum að andleg heilsa hennar stórbatnaði. Kennsla hennar í Bretlandi var langtum meiri og betri en í Bandaríkjunum og Rosemary hóf meira að segja nám í því sem við köllum í dag skólaliða.

En með innrás Þjóverja í París árið 1940 varð Kennedy fjölskyldan að yfirgefa Bretland og snúa til Bandaríkjanna. Rosemary var aftur sett í klaustur og allri kennslu hætt. Rosemary kunni illa við sig í klaustrinu og saknaði áranna í Bretlandi. Ekki leið á löngu þar til nunnurnar kvörtuðu við Joseph að Rosemary læddist út á næturnar til að drekka áfengi og sofa hjá karlmönnum.

Aðgerðin skelfilega

Rosemary nokkrum vikum eða mánuðum fyrir aðgerðina örlagaríku.

Á þessu tímabili sá Joseph fram á bjarta tíma í pólitík sonum sínum til handa. Ekkert mátti sverta Kennedy nafnið og árið 1941, þegar Rosemary var 23, ára tók hann þá ákvörðun að láta hana ganga undir skurðaðgerð á heilablaði (lobotomy). Sú aðgerð er að langmestu leyti bönnuð í dag nema í einstaka neyðartilfellum. Jafnvel á þessum árum voru uppi háar raddir um hætturnar sem gætu fylgt aðgerðinni en Joshep neitaði að hlusta á þær. Hann trúði staðfastlega, eins og margir á þessum tíma, að aðgerðin myndi ,,róa“ Rosemary þar sem ,,bilaði partur heilans“  yrði fjarlægður. Enginn spurði Rosemary um hennar skoðun á aðgerðinni. Né þá móður hennar sem ávallt hafði hlýtt manni sínum í einu og öllu. Þess í stað var líf hennar eyðilagt til frambúðar.

Rosemary var vakandi á meðan tvær holur voru boraðar inn í heila hennar auk þess sem stórri nál var stungið í auga hennar. Nálin og tveir málmspaðar voru síðan notaðir til að rjúfa framheilann frá öðrum hluta heilans.

Horfin að eilífu

Rosemary dvaldi alla sína ævi á lokaðri stofnun eftir aðgerðina.

Kennedy fjölskyldan áttaði strax eftir aðgerðina að eitthvað hafði farið hræðilega úrskeiðis. Rosemary gat hvorki talað né hreyft sig. Hún var send á stofnun þar sem hún gekk undir viðamikla sjúkraþjálfun en hún náði aldrei nema afar takmarkaðri hreyfigetu en fékk aldrei aftur málið.

Hefði Rosemary aftur á móti fengið þá hjálp sem til boða er í dag eru allar líkur á að hún hefði átt hamingjuríkt líf og orðið nýtur þjóðfélagsþegn. Glæsilega, lífsglaða en barnalega unga konan var horfin að eilífu, orðin mállaus og lömuð og gjörsamlega hjálparvana af völdum skelfilegra heilaskemmda. Allt vegna gjörða föður hennar og tveggja lækna sem sagan hefur stimplað sem skottulækna og reyndar hálfgerða glæpamenn.

Tveggja áratuga einvera

Rosemary Kennedy var aldrei rædd innan fjölskyldunnar, hvað þá opinberlega, næstu áratugina. Fæstir mundu eftir elstu Kennedy dótturinni og hvorki systkini hennar né foreldrar heimsóttu hana á stofnunina sem hún bjó. Það var ekki fyrr en eftir að Rosemary hafði verið 20 ár á stofnuninni að móðir hana heimsótti hana í fyrsta skipti. Joseph hafði fengið slag og var ekki í aðstöðu lengur til að banna konu sinni að heimsækja elstu dóttur þeirra. Rosemary þekkti hana en mállaus gat hún lítið annað gert í reiði sinni en að ráðast á móður sína með sinni takmörkuðu getu.

Hulunni lyft

Rosemary ásamt ungum frænda sínum. Enginn af ættingjum hennar hafði samband við hana í ríflega 20 ár.

Viðbrögð Rosemary virðast hafa vakið upp sektarkennd hjá Kennedy fjölskyldunni. Hulunni var lyft, tilvera Rosemary var loksins rædd opinskátt eftir áratuga feluleik og hóf fjölskyldan að berjast fyrir réttindmálum þroskahamlaðra. John F. Kennedy skrifaði undir lög um réttindi þroskahamlaðra í sinni forsetatíð og Ted Kennedy hélt áfram sem öldungadeildarþingmaður á sömu braut eftir lát bróður síns. Ted fékk fjölda mála í þágu þroskahamlaðra í gegn. Systir Rosemary, Eunice Kenney Shriver, varð síðar hvatamaður að stofnun Ólympíuleika fatlaðra, með dyggum stuðningi systkina sinna árið 1962.

Rosemary tók fagnandi sambandi við systkini sín sem hún hafði ekki hitt í 20 ár, svo og frændsystkin sem hún hafði aldrei fengið að hitta. Meðlimir Kennedy fjölskyldunnar heimsóttu Rosemary reglulega allt til hún féll frá árið 2005.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár