fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Kristín missti eiginmann sinn eftir margra ára baráttu við krabbamein: ,,Við förum öll í gegnum sorgina á mismunandi hátt“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 12. mars 2022 09:00

Kristín Snorradóttir Mynd: Valgarður Gíslason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín og Baldvin áttu dýrmætar stundir.

„Ég fer óhefðbundnar leiðir en ég er líka í svolítið öðruvísi sorgarferli en margir enda var ég búin að fylgja manninum mínum í gegnum krabbamein í 26 ár. Það var síðan fyrir fimm árum að við fengum þá greiningu að hann væri á fjórða stigi, krabbameinið væri ólæknandi. Sorgarferlið mitt hófst þá því ég komin með þá vitneskju að það séu allar líkur á að hann fari á undan mér og ég verði ekkja,“ segir Kristín Snorradóttir en hún missti mann sinn, Baldvin Viggósson þann 10. september í fyrra.

Alltaf lítil villistelpa 

„Baldvin var með sjaldgæft heilkenni sem ekki fannst fyrr en hann var kominn á fjórða stig. Það virkar þannig að líkama hans vantaði æxlishemjandi prótein svo hann myndaði krabbamein í hvert skipti sem hann kom nálægt krabbameinsvaldandi efnum.“ Baldvin var aðeins 34 ára gamall þegar hann veiktist og hélt hann áfram að fá nýjar og nýjar tegundir krabbameins. „Þegar hann dó var hann undirlagður, með fjóra virka krabbameinssjúkdóma sem vitað var af.“

„Ég hef alltaf verið mjög andleg, frá því ég var krakkakvikindi. Það var alltaf lítil villistelpa í mér sem var ofsalega tengd náttúrunni. En ég var ekki að vinna sérstaklega með það og fór ég að starfa í glerhörðum heimi með Vímulausri æsku þar sem ég vann með unglinga í neyslu og foreldra þeirra í mörg ár. Svo fór ég að vinna sjálfstætt með aðstandendum, sem er viðkvæmasti hópurinn að þjóna því það er svo mikil saga, erfiðleikar og sorg.“

Kristín hefður alltaf verið náttúrubarn.

Kristín hefur reynt að skipta um gír en segir það ekkert ganga. ,,Ég enda alltaf aftur í því að þjónusta fólk. Ef að ég sjálf hef upplifað eitthvað sem virkar fer ég og læri það. Ég vil eiga nóg af verkfærum. í töskunni til að allir geti notið.“  Sjálf lenti Kristín í áfallahrinu árið 2014, fór í kulnum og í endurhæfingu hjá Virk. Kristín var þá grein með illvíga vefjagigt. ,,Mér var sagt beint þá að ég myndi aldrei vinna aftur og það átti að setja mig á örörku. Ég sagðist hreint ekki ætla á örorku, ég væri kornung kona og ætlaði að vinna í sjálfri mér, rísa og ganga Esjuna. Læknirinn hristi bara höfuðið og sagðist aldrei hafa haft eins erfiðan sjúkling sem hvorki vildi lyf né hlusta.“

Hálfgerð Bjarnfreðarson

Um þetta leiti kynnist Kristín dáleiðslu. Hór fór í dáleiðslu við áfallastreitu og segir hana hafa bjargað lífi sínu. ,,Ég lærði dáleiðslu því ég á henni lífið að þakka. Ég hef séð stórkostlega hluti gerast í dáleiðslu, til dæmis með fólk sem er með áfallastreitu og margir búnir að gefast upp á. Ég er líka að fá afreksíþróttafólk til mín sem er svo þjakað af kvíða að það getur varla stundað íþróttina sína því það getur ekki sýnt veikleika. Með að blanda saman markþjálfun og dáleiðslu er unnt að fjarlægja kvíðann og það er geggjað að sjá fólk brillera.“

Þegar Baldvin greindist með fjórða stigið fór Kristín í jóga nitra tíma í Krabbameinsfélaginu. ,,Ég fann að það hafði sömu áhrifin og dáleiðslan 2014 og það bjargaði lífi mínu í þessu áfalli. Svo ég fór og lærði það er búin að mennta mig eins mikið í jóga nitra og hægt er. Fólk gerir grín að því að ég sé hálfgerð Bjarnfreðarson með gráðurnar mínar, þótt þetta séu ekki háskólagráður.“

Endalokin eru stóri slagurinn

Síðasti göngutúr Kristínar og Baldvins, tveimur vikum fyrir andlát hans.

Kristín er með hafsjó af reynslu og aðspurð um hvort hún hafi ráð til þeirra sem eiga aðstandendur sem eru mikið veikir segir hún ef hún væri að tala við aðstandanda, til dæmis krabbameinssjúklings á fjórða stigi, myndi hún segja viðkomandi að hugsa vel um sjálfa sig. ,,Sæktu þér þín aðstoð, gefðu þér þitt rými, passaðu upp á að þú vaxir og settu súrefnisgrímuna á sjálfan þig. Það er það besta sem þú gerir fyrir sjúklinginn þinn. Meðan að þú nærð að umvefja þig og vera heil manneskja, þá getur þú verið heil til staðar fyrir sjúklinginn. Og það er svo mikilvægt að eiga inni þegar þú kemur að endalokunum, því það er stóri slagurinn.“

Hún segir einnig mikilvægt að setja ekki alla í eins kassa. ,,Við þurfum öll að finna okkar leið. Sumir finna sína leið í sjálfshjálparhópum, aðrir hjá fagaðilum og svo eru einhverjir eins og ég sem fann mína leið með að fara lengra inn í jógafræðin. Maður sér oft eftir á hvernig hlutirnir raðast niður, maður er leiddur sína leið.

,,En sorg er náttúrulega sorgarferli og það er eitthvað sem við getum ekki skorist undan. Og við förum öll í gegnum sorgina á mismunandi hátt og sum okkar festast í sorg. Ég missti til dæmis bróður minn þegar ég var 8 ára og mamma festist í sorginni og náði aldrei að vinna úr henni. Dóttir mín varð reið þegar pabbi hennar dó og langt á eftir okkur hinum í sorgarferlinu því hún var í afneitun með veikindin. En strákarnir mínir og ég vorum búin að búast við þessu og ræða þetta, þegar byrjuð í ferlinu og komin á ákveðin stað þegar Baldvin dó.“

Umönnunin gríðarlegur baggi

Baldvin í krabbameinsmeðferðinni. Hann var undirlagður af sjúkdómnum.

Kristín var búin að skrá sig í jógakennaranámið sem hana hafði dreymt um rétt áður en Baldvin féll frá. ,,Baldvin minn tók af mér það loforð sex klukkutímum áður en hann dó að ég myndi ekki hætta við námið heldur byrja eftir viku. Það var ein besta gjöf sem Baldvin gaf mér því í þessu jógakennaranámi hef ég farið dýpra og lengra inn. Ég hef mætt sjálfri mér, kynnst sjálfri mér upp á nýtt og þroskast sem manneskja og meðferðaraðili því við hvert áfall færðu nýja sýn og meiri skilning gagnvart öðru fólki. Svo skellti ég jógaþerapíu inn á milli og það hafði líka mikil áhrif.“

Fyrstu jólin við leiði Baldvins.

,,Ég er svo lánsöm að allt þetta ferðalag hefur kennt mér ótrúlega mikið, ég sakna Baldvins gríðarlega en ég er mjög sátt í hjartanu að hann sé laus úr þessum veikindum. Og einnig að ég sé laus úr þessu umönnunarstarfi, því þetta var auðvitað gríðarlega þungur baggi. Ég hefði ekki viljað fara aðra leið í sorgarferlinu, þessi leið hentaði mér og ég segi óhikað að það var eitthvað mikið sterkara en ég sem leiddi mig þessa leið.

Baldvin skrifaði niður ljóð í veikindunum og gaf Kristín hana út  ljóðabók að honum látnum. ,,Hún lýsir vel þessu andlegu veikindum hans. Þar skrifar hann um dimmu dalina og hvernig maður kemst í gegnum krabbamein. Og ég er svo lánsöm að þegar hann deyr var ég að strjúka á honum bringuna og segja að þetta sé allt í lagi, hann megi fara inn í ljósið og við myndum hittast seinna. Og ég fann hvað það hjálpaði honum. Það hjálpaði mér líka að vera búin að vinna með mig í öll þessi ár.“ Kristín segir vinnu að vera manneskja og það sé  allt í lagi að leita sér aðstoðar. ,,Og þótt ég sé fagaðili þarf ég líka að leita mér aðstoðar eins og aðrir. Lykillinn er að búa yfir þeirri auðmýkt að leyfa sér að vera manneskju og búa yfir tilfinningum og játa að stundum séu aðstæðurnar séu erfiðar. Það versta er að loka sig af og þiggja hjálp. Þá er hætta á að tilfinningarnar festist í maganum.“

Forréttindahæna

Kristín hefur hefur unnið mikið í sér til að komast yfir sorgina.

Kristín vissi frá barnsaldri að hún vildi hjálpa fólki. ,,Ég man eftir mér að horfa á sjónvarpið sem krakki og sjá börnin í Biafra með stóra vatnsmagann og var alltaf að spá í hvernig ég gæti hjálpað. Ég reyndi að fá mömmu til að senda minn mat en hún sagði það ekki hægt.“ Hún segir það kannski hljóma fáránlega en það sé hennar köllun í lífinu að efla sjálfa sig til að verða öflugri í því að efla aðra. ,,Það er mitt hjartans mál að sjá fólk rísa og sjá sjálfsmynd einstaklings styrkjast. Ég er líka mjög þakklát fyrir að fá að uppgötva svo margt jákvætt í starfi mínu. Ég er til dæmis að vinna með þroskahamlaðri stúlku sem er afreksíþróttamaður, næst sterkasta kona í heimi á sviði fatlaðra.“

Kristín segist vera forréttindahæna, hún sé svo heppin að þurfa ekki að vinna einn einasta dag í lífinu. ,,Þetta er ástríðan mín og ég fer nærðari úr vinnunni en þegar ég mæti í hana. Þetta er ástríða. Ef ég þyrfti ekki að borga leigu og mat og annað slíkt myndi ég gera þetta frítt. Það að hafa tæki og tól til að hjálpa fólki og sjá fólk rísa upp, sérstaklega eftir að hafa upplifað sjálf að missa heilsuna og rísa, það er ekkert stærra eða betra.Engir peningar geta toppað það. Ekkert. Ég kalla þetta ekki vinnu þótt ég sé á starfsstöðinni minni á hverjum degi. Ég er farsæl í starfi og það eru allir velkomnir, mér er alveg nákvæmlega sama hvort þú ert fötluð, hinsegin, kynsegin, grænn eða blár. Hjá mér er eru einfaldlega allir fólk og það eru allir velkomnir.“

Allt helvítis stafrófið

Kristín fékk sér tattú til minningar um Baldvin.

Kristínu finnst sorgleg að árið 2022 sé hún enn að fá símtöl um það hvort að þessi eða hinn geti leitað til hennar af því viðkomandi sé fatlaður, trans eða hvað eina sem sé eitthvað út fyrir kassann. ,,Mér finnst þetta hræðilegt. Við eigum að hætta þessu, ég er alfarið á móti því að setja fólk í kassa. Ég er þroskaþjálfi og það er full ástæða fyrir greiningum, við þurfum á þeim að halda, en ég þoli ekki þegar það verið að setja greiningar á fólk sem stimpla. Greiningin er leiðarvísir, heilinn í þér virkar eitthvað örlítið öðruvísi en öðrum sem ekki hafa greiningu. Hún er bara landakort um hvernig þú virkar en þess í stað er svo óþolandi hvernig fólk er gert að sinni greiningu. Enginn sem ég hitti vill þessa stimpla, fólk vill bara vera fólk. Þetta er svo einfalt.

Og hver okkar er ekki með eitthvað? Ég get lofað þér því að ef það hefði verið byrjað að greina þegar ég var krakki þá hefði ég verið greind allt helvítis stafrófið því ég var alveg snarvitlaus krakki!, segir Kristín Snorradóttir markþjálfi, dáleiðari, jógakennari, ráðgjafi og þroskaþjálfi og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Heimsins stærsta hittir heimsins minnstu – „Við eigum nokkuð sameiginlegt“ 

Heimsins stærsta hittir heimsins minnstu – „Við eigum nokkuð sameiginlegt“ 
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona er að heimsækja fanga á Litla-Hraun: Birna fer í gegnum fyrstu heimsóknina sem var bæði átakanleg en góð

Svona er að heimsækja fanga á Litla-Hraun: Birna fer í gegnum fyrstu heimsóknina sem var bæði átakanleg en góð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2