Jasmine Richardson var brosmild, lagleg og ljúf táningsstúlka sem bjó ásamt foreldrum sínum og yngri bróður, Jacob, í Alberta fylki í Kanada. Hún gekk í kaþólskan stúlknaskóla, gekk vel í námi og var virk í félagsstarfi kirkjunnar. En eins og áhrifagjarnra unglinga er háttur fékk Jasmine áhuga á að breyta um útlit og stíl. Hún fór að að klæða sig alfarið í svart, stífmála andlit sitt og stelast út að kvöldlagi til að fara á tónleika með pönkhljómsveitum.
Það var á einum slíkum tónleikum snemma árs 2006 að Jasmine hitti hinn 23 ára Jeremy Steinke. Hún var þá nýorðin 12 ára.
Heilluð af blóðsúthellingum og dauða
Jasmine taldi sig hafa fundið sálufélaga í Jeremy, sem sagði sig vera 300 ára gamlan varúlf með smekk fyrir að drekka blóð. Í rauninni var Jeremy aftur á móti atvinnulaus einfari sem hafði alist upp hjá drykkfelldri móður, hrökklast snemma úr skóla og bjó í hjólhýsi.
Fljótlega eftir tónleikana fór hegðun Jasmine að breytast, foreldrum hennar og vinum til mikilla ama. Marc og Debra Richardson skildu ekki hvað hafði komið fyrir dóttur þeirra. Á örskotsstundu hafði Jasmine breyst frá því að vera ljúf en svolítið unglingaveik stúlka, í að vera kjaftfor, dónaleg og heilluð af blóðsúthellingum og dauða. Það var ekki fyrr en Marc og Debra skoðu tölvu Jasmine að þau áttuðu sig á stöðu mála. Þau fylltust hryllingi við að finna afar kynferðisleg samskipti ungrar dóttur sinnar við harðfullorðinn karlmann sem virtist í þokkabót vera heltekinn af ofbeldi. Richardson hjónin tók af Jasmine tölvuna, settu hana útgöngubann og harðbönnuðu að eiga nokkur samskipti við Jeremy ella myndu þau leita til lögreglunnar.
Jasmine lét sem hún féllist á orð foreldra sinna, samþykkti að hitta ráðgjafa og tókst að sannfæra Marc og Debru um að þessu tímabili lífs hennar væri lokið. Þau kusu að trúa dóttur sinni og leyfðu henni að fá aftur tölvuna. En Jasmine hafði annað í huga.
Voðaverk af hendi barns
Þann 26. apríl 2006 bankaði lítill drengur upp á hjá Richardson fjölskyldunni í þeim tilgangi að fá Jakob vin sinn út að leika. Þegar enginn kom til dyra kíkti drengurinn inn um glugga og taldi sig sjá lík liggja á gólfinu. Hann hljóp skelfingu lostinn heim til móður sinnar sem hringdi strax á lögregluna. Á heimili Richardson fjölskyldunnar fundust Richardsson hjónin, bæði stungin til bana fjölda stungusára. Á efri hæðinni fannst hinn 8 ára gamli Jacob í rúmi sínu og hafði hann verið stunginn og skorinn á háls. Aftur á móti var dótturinna Jasmine hvergi að finna.
Í fyrstu taldi lögreglan líkur á að Jasmine hefði verið rænt en eftir leit í herbergi hennar rann upp fyrir mönnun sú skelfilega staðreynd að hér var sennilega um að ræða voðaverk af hendi 12 ára stúlkubarns. Ennfremur kom í ljós að hún hafði marglýst yfir vilja til að myrða foreldra sína við vini en enginn hafði tekið hana alvarlega.
Hataði foreldra sína
Það tók lögregluna innan við sólarhring að finna og handtaka skötuhjúin á flóttanum. Við yfirheyrslur kom fram að þau höfðu undirbúið morðin í nokkurn tíma og töldu flestir í upphafi Jeremy þar hafa spilað stærstu rulluna. Við skoðun á símum og tölvum kom aftur á móti fljótlega í ljós að það var hin 12 ára gamla Jasmine sem hafði upphaflega kastað fram hugmyndinni og gengið á eftir Jeremy að aðstoða hana við morðin. Hún var heltekin af Jeremy og vildi sjá foreldra sína þjást og deyja í hefndarskyni fyrir að reyna að slíta sambandinu. Jeremy tók vel í hugmyndina og hófu þau að skipuleggja morðin.
Daginn sem Richardson hjónin voru myrt hafði Jeremy horft á kvikmyndina ,,Natural Born Killers”, sem hann var heillaður af, og haldið síðan að heimili Jasmine. Hún hleypti honum inn og viðurkenndi Jeremy að hafa myrt bæði Debru og Marc Richardson en harðneitaði að hafa nokkuð með morðið á Jakob litla að gera, Jasmine hefði myrt litla bróður sinn. Klukkutíma eftir morðin náðust þau á öryggismyndavélum þar sem þau flissuðu saman yfir skyndibita eins og ekkert hefði í skorist.
Skar litla bróður sinn á háls
Jasmine varð margsaga við yfirheyrslur. Fyrst sagðist hún hafa komið heim, fundið fjölskyldu sína myrta og flúið. Því næst viðurkenndi hún að hafa verið á staðnum en engan hafa drepið, en á endanum játaði hún að hafa hleypt Jeremy inn með morðin í huga. Hún játaði einnig að hafa stungið og skorið bróður sinn á háls og réttlætti hún morðið með að hafa ekki getað hugsað sér að láta hann alast upp munaðarlausann.
Bæði sögðu þau Jeremy og Jasmine að ástin hefði rekið þau til voðaverkanna, þau væru sálufélagar sem ekki gætu lifað hvort án annars. Með því að standa í vegi fyrir sambandinu hefðu Richardson hjónin því undirritað eigin dauðadóm. Í marga mánuði handtökuna héldu þau áfram bréfaskriftum þar sem þau játuðu hvort öðru ást sína og bað Jeremy Jasmine meira að segja að gifast sér.
–Jasmine Richardson
Almenningur og fjölmiðlar voru æf yfir þessum voðaverkum og fögnuðu þegar Jeremy Steinke dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2007. Hann getur farið fram á reynslulausn eftir að hafa lokið 25 ára afplánun. Þökk sé ströngum persónuverndarlögum Kanada slapp Jasmine betur frá dómstóli götunnar en sökum ungs aldurs var nafni hennar alfarið haldið frá fjölmiðlum. Að öllum líkindum hefði nafn hennar aldrei komið fram ef bandarískir fjölmiðlar hefðu ekki fengið áhuga á málinu, en þeim tókst á endanum að grafast fyrir um nafn Jasmine og birta, enda óbundnir kanadískum lagaramma. Enn þann dag í dag gengur Jasmine aðeins undir nafninu JR í kanadískum fjölmiðlum.
Nýtt nafn og nýtt líf
Jasmine var dæmd til 10 ára fangelsisvistar og dvaldi fjögur ár á geðdeild áður en hún var send í unglingafangelsi til að klára dóm sinn. Henni var sleppt úr haldi árið 2016, 23 ára gamalli, og veittu kanadísk yfirvöld henni nýtt auðkenni til að auðvelda að hefja henni nýtt líf. Vitni, bæði að upphaflegu réttarhöldunum svo og fyrirtöku um lausn, segja hana aldrei hafa lýst yfir söknuði né sýnt iðrun yfir drápinu á fjölskyldu sinni.
Í fyrra var sakaskrá hennar hreinsuð eftir að lögbundnum fimm ára biðtíma lauk og er nú hvergi að finna nein opinber gögn um tilvist Jasmine Richardson. Talið er fullvíst að hún búi enn í Kanada.