fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Baðaði sig aldrei né skipti um nærföt – Makalaust lífshlaup hinnar gleymdu drottningar Breta

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 16. febrúar 2022 22:00

Karólína af Brunswick

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gömul saga og ný að hneykslismál umvefji meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar. Í morgun bárust til að mynda fréttir af því að Elísabet drottning þurfi að punga út 12 milljónum punda, eða um 2 milljörðum króna, til að bjarga prins Andrew frá réttarhöldum vegna ásakana um misnotkun. En Elísabet er langt frá því að vera fyrsti þjóhöfðingi Breta sem fýkur í vegna hegðunar afkvæmanna.

Elsti sonur Georgs III Bretakonungs hét Georg Ágústus Friðrik en var aldrei kallaður neitt annað en Prinny. Hann var foreldrum sínum stöðugur höfðuverkur enda gerði Prinny lítið annað en að drekka, stunda fjárhættuspil og kvennafar, og panta nýtt fínerí í hallirnar sínar.

Prinny prins

Árið 1793, þegar Prinny var 31 ára, setti kóngur hnefann í borðið og harðneitaði að greiða krónu meira af yfirgengilegum skuldum elsta sonarins. Eina möguleikinn væri að gifta hann til fjár og vissi kóngsi nákvæmlega hvar stönduga prinsessu væri að finna. Í konungsríkinu Brunswick, sem núna er hluti Þýskalands, réð systir hans, Ágústa prinsessa ríkjum ásamt eiginmanni sínum og áttu þau dóttur á giftingaraldri. Prinny var skipað að kvænast frænku sinni hið snarasta.

Þannig hefst hin makalausa saga Karólínu, Bretadrottningarinnar til 19 daga, sem var þurrkuð út úr sögubókunum.

 Fór aldrei í bað né skipti um nærföt

Karólína af Brunswick var á þessum tímapunkti 26 ára hundleið prinsessa, svo að segja föst í eigin vistarverum í kastala fjölskyldunnar. Uppeldi hennar hafði verið afar strangt, Karólína hafði aldrei haft sambskipti við neinn af hinu kyninu og fékk ekki einu sinni að mæta á dansiböllin í höllinni. Að öðru leyti höfðu foreldrar hennar verið of upptekin við að rífast öll hennar æviár til að sinna henni að ráði og hafði uppeldinu verið húrrað yfir á kennslukonu sem virðist lítið hafa gert til að koma Karólínu til þroska. Karólína var svo að segja algjörlega ómenntuð, hún kunni jú svolitla ensku enda var breskri móður hennar var mjög í mun að gifta hana til síns heimalands, en hún var ekki almennilega læs og svo að segja óskrifandi.  Það hafði einnig fyrirfarist að kenna henni helstu undirstöður í mannasiðum og þrifum. Það virðist sem að engum hafi þótt tiltakanlegt vandamál að Karólína harðneitaði að baða sig og skipti aldrei um nærföt. Öllum heimildum ber saman um að fnykurinn af Karólínu hafi verið óbærilegur. 

Karólína ung að árum

Lávarður að nafni Malmesbury var sendur til Brunswick til að liðka fyrir málum og var honum nokkuð brugðið við hitta drottningarefnið. Malmesbury líkaði afar vel við þessa illa lyktandi ljóshærðu, búttuðu og málgefnu krullubínu sem hló hátt og bölvaði eins og sjóari en varð fljótt ljóst að tilraunir hans til að kenna henni hirðsiði voru algjörlega tilgangslausar. Karólínu hundleiddist kastalavistin í Brunswick og tók því vel að fara til Lundúna. 

Drakk í þrjá daga af skelfingu

Við komuna til Bretlands lýsti Karólína aftur á móti yfir að henni þætti lítið til Prinny koma og málverkin af honum væri klár lygi. Prinny fylltist aftur á móti svo mikilli skelfingu við fundinn með verðandi brúður sinni að hann bað um koníak hið snarasta og var svo dauðadrukkinn næstu þrjá daga eða þar til hann var hálfborinn upp að altarinu til jánka hjúskapnum. Þrátt fyrir ölvunarástandið tókst honum að klára skyldur sína á brúðkaupsnóttina áður en hann lognaðist út af og Karólína ýtti honum undir rúm. Brúðkaupsnóttinn skilaði af sér prinsessu 9 mánuðum síðar en þetta mun hafa verið fyrsta og síðasta skiptið sem þau hjón stunduðu kynlíf (hvort með öðru, það er að segja).

Karólína af Brunswick á yngri árum

 Kóngur og drottning sáu fljótlega að þau höfðu vanmetið Karólínu. Í stað þess að þegja og hlýða svaraði sú þýska umsvifalaust fyrir sig og fór auk þess reglulega út fyrir höllina að spjalla við hvern þann sem hún rakst á og sýna almenningi litlu prinsessuna. Konungsfjölskyldan var með afbriðgum óvinsæl, ekki síst Prinny, og þrátt fyrir að vera fyrirlitin meðal aðalsins, dáði sauðsvartur almúginn Karólínu, frjálslega hegðun hennar og hversu hjartanlega henni stóð á sama um vilja konungsfjölskyldunnar. Starfsmenn voru duglegir að flytja fréttir af Prinny og Karólínu út fyrir hallargarðanna og var hvert orð prentað.

Karólína varð þar með fyrsta súperstjarna gulu pressunar í Bretlandi.

 Dansaði um nakin að ofan

Prinny fannst Karólína svo ógeðsleg að hann neitaði að vera í sama herbergi og hún og tæpu ári síðar sendi hann henni bréf þar sem hann bað hana að flytja út úr höllinni. Þar sem Karólína var ekki mikill aðdáandi eiginmanns síns heldur tók hún því fagnandi og tók sér búsetu í veglegu húsi fyrir utan London og hóf að halda reglulegar veislur þar sem hún dansaði áhyggjulaust um nakin að ofan ásamt elskhugum sínum og vinum.

Karólina af Brunswick

Lífið hreinlega lék við Karólínu sem þó saknaði dóttur sinnar sem hún hafði þurft að skilja eftir í höllinni og fékk sjaldan að hitta.  Þess í stað hóf hún að taka að sér munaðarleysingja og ættleiddi á endanum 9 börn.

 Þannig leið áratugur áður en Karólína ákvað að víkka sjóndeildarhringinn og halda til meginlands Evrópu ásamt ítölskum kærasta og barnaskaranum. Hún tók sér að endanum búsetu á Ítalíu þar sem hún skapaði sér frægð fyrir að dansa um nakin að ofan á hirðböllum (sem var hennar einkenni) auk frjálslyndrar afstöðu til kynlífs sem var í algjörri andstöðu við ríkjandi viðhorf um siðsemi kvenna. Ítalska kærastanum virðist hafa staðið nokk á sama um sambönd Karólínu sem meðal annars tók sér prins Joachim, mág Napóleóns keisara, sem ástmann.

Panikkástand hirðarinnar

Árið 1820, 24 ár inn í hjónabandið, lést gamli kóngurinn og allt í einu var Karólína orðin drottning Breta. Ástandið var hreint út sagt martröð fyrir Prinny og ráðgjafa hans sem gátu ekki til þess hugsað að sjá Karólínu sitja í stól drottningar og reyndu þeir að múta henni með stórfé til að halda sig til hlés á Ítalíu.

Karólína var nú ekki á því og hélt umsvifalaust til Bretlands í fyrsta skipti í 14 ár. Þegar þarna var komið við sögu var hirðin að panikka og tók lávarðadeild breska þingsins til þess ráðs að kalla Karólínu á sinn fund með það í huga að veita Prinny skilnað á grundvelli framhjáhalds hennar. Ekki það að Prinny hefði ekki stundað það sama af krafti. Sannanirnar voru yfrið nógar enda hafði Karólína aldrei farið í felur með fjörugt lífernið. Aftur á móti var hún enn það vinsæl meðal almennings, sem beið hennar fagnandi við þinghúsdyrnar alla þá 52 daga sem yfirheyrslurnar fóru fram, að lávarðarnir sá sér ekki annað fært en að fella niður allar ásakanir á hendur Karólínu nema eiga von á uppþotum í borginni.

Síðasta málverkið af Karólínu var málaði ári fyrir andlát hennar

 ,,Hleypið drottningunni inn“

Krýning Prinny fór fram 29. apríl 1821. Karólína spurði forsætisráðherrann hvernig hún ætti að vera klædd en var tjáð að nærveru hennar væri ekki óskað. Karólína lét það sem vind um eyru þjóta og mætti til Westminster Abby þar sem krýningin fór fram, barði á dyrnar og krafðist þess að drottningunni yrði hleypt inn.

Þegar það gekki ekki fór Karólína aftur fyrir kirkjuna í von um að komast inn um bakdyr en án árangurs. Almenningur fylgdist með í andakt og hvatti hana óspart áfram en Karólína neyddist á endanum til að halda heim á leið, ókrýnd.

 Karólína af Brunswick og drottning Breta lést 19 dögum síðar án þess að ná að setjast í stól Bretadrottningar og féll smám saman í gleymskunnar dá, bresku krúnunni til mikillar gleði. Hún er grafin í Brunswick og að hennar tilmælum var settur platti á kistu hennar sem á stendur: ,,Karólína, hin særða drottning Bretlands”.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kristín og Árni nýtt stjörnupar

Kristín og Árni nýtt stjörnupar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun