fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Hin sænska Þyrnirós – Stúlkan sem svaf í 32 ár

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 12. febrúar 2022 18:45

Karolina Olsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á köldum febrúadegi árið 1876 rann 14 ára telpa, Karolina Olsson, á ís á freðinni tjörn á eyjunni Oknö, utan við Mönsterås, í Svíþjóð.  Sumar heimildir segja Karolinu hafa dottið ofan í vök en verið bjargað en aðrar að hún hafi fallið og fengið höfuðhögg. Allar heimildir sammælast um að það hafi séð á Karolinu við heimkomuna, hún hafi verið með nokkra sjáanlega áverka. En aðallega kvartaði Karolina yfir höfuðverk við móður sína. Höfuðverkurinn hélt áfram að þjá Karolinu og smám saman bættist við slæmur tannverkur. Fjórum dögum síðar var Karolina orðin það slæm að móðir hennar sendi hana í rúmið til að sofa af sér verkinn og hlýddi hún móður sinni.

Karolina sofnaði og svaf í 32 ár. 

Örvænting foreldranna

Karolina var dóttir bláfátækrar bændafjölskyldu, önnur í röð fimm systkina og eina telpan. Faðir Karolina var fátækur sjómaður og móðir hennar sá um heimilið ásamt Karolinu sem var aðeins rétt læs og skrifandi þótt að bræður hennar væru sendir í skóla, eins og þá var hefðin. Hún mun hafa kennt sér það sjálf af skólabókum bræðra sinna á milli þvotta og eldamennsku. 

Þegar Karolina vaknaði ekki fóru foreldrar hennar að hafa áhyggjur þar sem ekki var nokkur möguleiki að vekja hana þrátt fyrir hristingar, köll og hávaða. Foreldrar hennar reyndu í örvæntingu sinni jafnvel að klípa hana og leggja sjóðheitt járn upp að henni í von um að sársaukinn vekti hana en án árangurs.

Heimili Olson fjölskyldunnar.

Ekki var lækni að finna á eyjunni og stórmál og mikill kostnaður fyrir fátæka fjölskyldu að sigla til meginlandsins eftir slíkum, sem faðir hennar þó gerði að nokkrum dögum liðnum. Læknirinn áleit að höfuðhöggið hefði orði til þess að Karolina hefði fallið í dá en þó var margt sem var ekki í samræmi við þá skoðun læknisins. Karolina einfaldlega bara svaf friðsamlega. 

Foreldrar hennar vissu ekki hvað til bragðs ætti að taka og óttuðust mjög að Karolina myndi svelta í hel í svefninum. Tók móðir hennar upp á því að þvinga einhvers konar túpu niður háls hennar sem hún helti í sykraðri mjólk kvölds og morgna. Það var eina næringin sem Karolina fékk næstu 32 árin. 

Ónæm fyrir sársauka

Samkvæmt heimildum virðist svo sem Karolina hafi dreymt því átti það til að kalla upp yfir sig, ekki ósvipað og fólk með martraðir á til að gera. Stundum virtist sem hún væri einhverja meðvitund því þegar rætt var um andlát bróður hennar, sem drukknaði í hennar návist láku tvo eða þrjú tár niður vanga Karolinu þrátt fyrir að hún opnaði aldrei augun. Einnig var haft eftir föður hennar að hún hafi átt það til einstöku sinnum að ganga í svefni hring um herbergið áður en hún fór aftur upp í rúm og hélt svefni sínum áfram. 

Það sem þótti þó hvað merkilegast var að hvorki hár né neglur Karolinu uxu á meðan á svefninum stóð, né fékk hún eitt einasta legusár. Ennfremur virtist hún lítið sem ekkert eldast. Það var sem líkami hennar lægi í dvala. Hún lá sofandi í rúmi sínu ár eftir ár, alltaf fjórtán ára. Svefn Karolinu fréttist smám saman um Svíþjóð, þaðan til Evrópu og síðar Bandaríkjanna, og gerðu læknar víða að sér ferð til Oknö til að skoða hana með eigin augum. Einn læknir stakk jafnvel nálum undir neglur hennar, sem er vel þekkt pyntingaraðferð, en ekkert dugði. Enginn af læknunum hafði svör þótt margar tilgátur væru á lofti. Einn læknirinn stakk jafnvel upp á að um ,,histeríu” væri að ræða, sem var vinsæl greining á öllu milli himins og jarðar sem þjáði konur um aldamótin þarsíðustu. Var aumingja Karolina jafnvel færð á sjúkrahús og send í rafstuð. Hún svaf það af sér og var send heim aftur.

Karolina virtist ónæm fyrir sársauka í svefninum.

Myndin er tekin nokkrum dögum eftir að Karolina vaknaði.

Vaknaði í nýjum heimi

Það var síðan árið 1908 sem Karolina opnaði augun og settist upp í rúminu, þá 46 ára að aldri. Móðir hennar var látin, faðir hennar aldraður og bræðurnar harðfullorðnir menn. Hún leit vissulega ekki út fyrir að vera fjórtán ára lengur en hún var einkennlega ungleg, svo ungleg að flestir hefðu talið hana ríflega tvítuga. Hún var reyndar grindhoruð en annars vel á sig komin líkamlega. Karolinu var eðlilega mjög brugðið við að vakna í þessum nýja heimi og átti bágt með trúa því að hafa sofið í rúma þrjá áratugi. Aðspurð sagðist hún síðast mun eftir höfuðverknum sem sendi hana í rúmið. Hún kvaðst einnig muna eftir að hafa heyrt raddir í kringum sig og stundum séð andlit eins og maður sér ,,þegar synt er í kafi með opin augun“, eins og hún orðaði það.

Svindl eða alvara?

Aldrei fundust skýringar á svefni Karolinu sem er einstakur í sögunni. Enduðu margir á að afskrifa málið sem svindl, að Karolina ásamt móður sinni hefði þóst sofa á milli þess sem læknar komu og vísuðu meðal annars til þess að útilokað hefði verið fyrir hana að hafa lifað á tveimur sykruðum mjólkurglösum á dag. 

Það er þó fleira sem bendir til þess að svo hafi ekki verið. Bæði má nefna þann sársauka sem lagður var á Karolina án nokkurra viðbragða auk þess sem fjölskylda hennar græddi aldrei krónu á svefni hennar, frekar lögðu þau í útgjöld til að finna lausn á honum. Móðir hennar lést á meðan á svefninum stóð og þurfti bláfátækur faðir hennar að greiða fyrir húshjálp til að sjá um Karolinu. Ólíklegt þykir að öll fjölskyldan, auk húshjálpar, hefði getað tekið þátt í að halda lygasögunni gangandi í öll þessi ár á fámennri eyju. Húshjálpin hafði þó sínar efasemdir og fullyrti að á næturnar hyrfi matur auk þess sem hún hefði oftar einu sinni heyrt umgang úr herbergi Karolinu um miðja nótt. 

Karolina, nokkrum árum eftir að hún vaknaði af 32 ára svefni.

Einn virtasti geðlæknir Svíþjóðar, Harald Fröderström, heimsótti Karolinu fyrst árið 1910. Þau urðu vinir og dvöldu löngum stundum saman. Fröderström var heillaður af þessari ljúfu konu sem hagaði sér að flestu leiti eins og unglingur.

Taldi eitthvað skelfilegt hafa gerst

Fröderström útilokað fljótlega kenninguna um að hún hefði fallið í dá en taldi að þess í stað hefði Karolina fengið einhvers konar geðrof þennan örlagaríka dag. Fröderström var þess fullviss um að eitthvað skelfilegt hefði komið fyrir hana, svo hræðilegt að hún hefði, meðvitað eða ómeðvitað, ákveðið að loka heiminn af.  Hann taldi alvarlegan kynferðisglæp sennilegustu skýringuna; Að Karolinu hefði verið nauðgað þennan febrúardag, mjög hugsanlega af nokkrum mönnum. Áfallið hefði verið slíkt að það hefði tekið hana 32 ár að jafna sig. Fröderström taldi ennfremur að ástrík móðir hennar hafi vitað meira en hún sagði. Hún hefði enga aðra lausn séð til að reyna að bjarga geðheilbrigði dóttur sinnar en að aðstoða Karolinu við flóttann frá umheiminum með því að veita henni næringu og ummönnun á næturnar. 

Karolina varð með eindæmum fræg í Svíþjóð og kunni hún athyglinni vel í einhvern tíma áður en hún fékk nóg, dró sig í hlé og lifði kyrrlátu lífi allt til 88 ára aldurs þegar hún féll frá. Þá mun hún vart hafa litið út degi eldri en fimmtug. 

Í dag hallast flestir að því að greining Fröderström sé að líklegust þeirra skýringa sem fram hafi komið.

En við munum aldrei vita hvað kom fyrir hina 14 ára gömlu Karolinu Olson í febrúar 1876. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir