fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Elísabet var fílhraust íþróttakona þegar hún greindist með krabbamein: „Ég lærði snemma að bera ábyrgð og takast á við hlutina“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 24. desember 2022 12:30

Elísabet Nhien Yen Huynh Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú í mánuðinum var hinn 22 ára Elísabet Nhien Yen Huynh kosin blakari ársins hjá Þrótti. Sem telst magnað í ljósi þess að fyrir aðeins ári síðan greindist Elísabet með krabbamein. 

Elísabet er hins vegar ótrúlega yfirveguð og róleg við frásögnina og vill ekki gera of mikið úr hlutunum þegar hún segir sögu sína.

Elísabet í október 2020.

Það meikaði ekki sens að veikjast

Kannski spilar uppeldi hennar þar inn í, foreldrar hennar er víetnamskir en Elísabet fædd á Íslandi. 

Afi hennar kom fyrst til Íslands og var þá faðir hennar barn að aldri. Hún á stóra fjölskyldu hér á landi í föðurætt, er í miðju þriggja systkina og eina stelpan.

Elísabet í Víetnam árið 2014.

Elísabet byrjaði að æfa blak 12 ára gömul. Allt frá því hún var lítil hafði hún gríðarlega gaman af íþróttum. 

„Við erum öll svona í fjölskyldunni, höfum mjög gaman af að stunda alls kyns íþróttir. Ég missti aldrei af íþróttum í skólanum, og væri ég til dæmis lasin sama dag og það voru íþróttir vildi ég samt mæta í skólann, bara til að missa ekki af íþróttum.“

Elísabet á unglingsárum.

„Reyndar var ég aldrei veik, ég var alltaf mjög hraust og man eftir að hafa kannski veikst tvisvar sem krakki. Þess vegna fannst mér svo skrítið að veikjast, það bara meikaði ekkert sens fyrir mér að vera veik.“

Elísabet keppti í Skólahreysti árið 2016.

Menningarmunur

Vinkona hennar byrjaði í blakinu og fékk Elísabetu með sér þegar hún var 12 ára.  Svo fór að að um helmingur stelpnanna í hennar árgangi í Langholtsskóla fóru að æfa blak. Hinn helmingurinn fór í fótbolta. 

„Mig langaði í fótbolta en mátti það ekki því foreldrar mínir litu á fótbolta sem  „strákaíþrótt,““ útskýrir Elísabet. 

Elísabet Nhien Yen Huynh. Mymd/Ernir

Uppeldi Elísabetar var að mörgu leyti ólíkt uppeldi jafnaldra hennar enda um afar ólíka menningarheima að ræða, hinn íslenska og hinn víetnamska. 

Hvort finnst Elísabetu hún vera meiri Íslendingur eða Víetnami?  Hún hugsar sig augnablik um.  

„Mér finnst ég aðeins meiri Íslendingur en ég ólst auðvitað upp við víetnamska menningu og hugarfar mitt er mótað af því.“ 

 

Elísabet ásamt foreldrum sínum og kærasta, John Paul Adlawan Abella.

Aðspurð segist Elísabet aldrei samt hafa farið í neina uppreisn sem barn og unglingur. 

„Ég þroskaðist hratt miðað við aldur sem telst eðlilegt í víetnamskri menningu,  til dæmis sá ég mikið um litla bróður minn þegar hann fæddist þótt ég væri bara sjö ára gömul. Ég lærði því mjög snemma að bera ábyrgð og takast á við hlutina.“

Elísabet að keppa árið 2019.

Kynjamunur en margt svo fallegt

Hún segir að vissulegi spili hugmyndir menningarheims foreldra hennar um hlutverk og stöðu kynjanna inn í. 

„Ég þurfti til dæmis alltaf að vera komin heim klukkan átta en bróðir minn fékk að vera lengur úti út af því að hann er strákur. En samt var það ég sem hafði miklu meira gaman af að vera úti, en hann var  alltaf heimakærari,“ segir Elísabet og hlær. 

Í göngu að gosin í apríl 2021 með litla bróður, litli bróðir Sævar Loc Ba Huynh.

Elísabet segir margt svo einstaklega fallegt í víetnamskri menningu, ekki síst virðingin fyrir foreldrum og eldra fólki almennt. 

Hún segist almennt ekki hafa fundið fyrir pirringi né reiði yfir að foreldrar hennar væru strangari en foreldrar vinkvenna hennar, en viðurkennir að á stundum hafi það verið henni erfitt að mega ekki gera sömu hluti og jafnöldrurnar. 

Elísabet og John Paul hafa verið saman í þrjú og hálft ár.

Krabbameinið

Fyrir ári greindist Elísabet með krabbamein.

„Þetta byrjaði þegar mig svimaði á æfingum og svo kom verkur á bak við augun en það fannst ekkert þegar ég fór á bráðavaktina. Daginn eftir var verkurinn orðinn verri og ég fór aftur.“

Fjölskyldugleði í desember í fyrra, rétt áður en Elísabet hóf meðferðina.

Það var ekki fyrr en Elísabet fór í þriðja skiptið í bráðavaktina og fékk sneiðmyndatöku sem sást að eitthvað var að.

„Mér var ekkert sagt í byrjun, en ég fann að það var eitthvað að og vissi að það var verið að fela það fyrir mér. En ég skil það samt að læknarnir vildu vera 100% vissir í sinni sök áður en þeir töluðu við mig.“

Elísabet Nhien Yen Huynh Mynd/Ernir

Þetta var á Covid tímanum og foreldrar hennar máttu ekki sjaldnast vera með henni. 

,,Læknarnir sögðu því þeim frá stöðunni áður en það var talað við mig. Og vegna Covid var ég bara ein með lækninum þegar hann sagði mér að ég hefði greinst með eitilfrumuæxli í höfði (Lymphoma)”.

Lífið getur ekki alltaf verið fullkomið

Elísabet segir að vissulega hafi hún fengið sjokk við fréttirnar en hennar fyrsta hugsun hafi samt verið að eitthvað hlyti að koma fyrir á endanum því allt hefði gengið svo vel í lífinu.

Aðspurð hvað hún eigi við, segir Elísabet það kannski erfitt að útskýra en hennar hugsun hafi verið að lífið gæti ekki alltaf verið jafn fullkomið. 

„Mér gekk vel í skóla, var góð í íþróttum, átti góða fjölskyldu, hafði fullorðnast fyrr en margir, fékk aldrei túrverki og lífið bara í alla staði mjög gott.“

Elisabet og Eldey Hrafnsdóttir á móti í strandblaki árið 2017,

Hana hafði grunað í einhvern tíma að eitthvað væri að en ekki vitað hvað. 

„Ég var í raun fegin að vita hvað var að og fá skýringu á sársaukanum svo ég gæti einbeitt mér að því að takast á við vandamálið.

 En ég bjóst samt ekki við að þetta væri krabbamein en ég held að miðað við allt hafi ég tekið þessu nokkuð vel.“ 

Elísabet við útskrift af íþróttabraut FB.

Gift eftir tvo daga

Elísabet segir að þetta hafi verið foreldrum hennar mikið áfall en stórfjölskyldan hafi staðið þétt við bakið á henni og til að mynda haldið bænastundir fyrir bata hennar. 

Hún segir kærasta sinn einnig hafa staðið sem klett að baki henni en þau hafa verið saman í þrjú og hálft ár. 

„Öll fjölskylda pabba er hér á landi en fjölskylda mömmu er í Víetnam, pabbi sótti hana þangað,” segir Elísabet og brosir. „Þau kynntust úti og voru gift eftir tvo daga.“ 

Blaðamaður hváir, gift eftir tvo daga?

Elísabet hlær og útskýrir. „Víetnamar, sem búa erlendis, fara oft heim til Víetnam í leit að maka og þar eru skipulögð stefnumót. Þau fóru sem sagt á eitt slíkt og tveimur dögum seinna voru þau gift. Þau eru nú búin að vera gift í 25 ár.“

Elísabet Nhien Yen Huynh. Mynd/Ernir

Stressandi eggjataka

Eitt það fyrsta sem gert var eftir greininguna var eggjataka þar sem lyfjameðferðin getur haft áhrif á frjósemi. 

„Ég fékk fréttirnar fyrir rúmu ári, í byrjun desember í fyrra, og það fyrsta sem var gert var að fara í eggjatökuna. Ég þurfi því að fara á hormónameðferð og sprauta mig daglega í um þrjár vikur áður en ég fór í eggjatökuna.“

Tók eggjatakan á?  

„Ég varð aðeins tilfinninganæmari við hormónameðferðina en annars gekk hún vel,“ segir Elísabet. 

En það var að fleiru að huga. 

„Það var smá stress því það er víst bara einn íslenskur sérfræðingur sem frystir ófrjóvguð egg. Og þessi eini sérfræðingur var ekki til staðar af einhverju ástæðum, ég man það ekki nákvæmlega en hún var að ég held í veikindaleyfi eftir aðgerð

Svo það var mjög þröngur tímarammi til að frysta eggin mín, sem var mjög stressandi. En það náðist sem betur fer.“ 

Elísabet tók myndir af öllu ferlinu.

Vöðvarnir hurfu

Þann 27. desember í fyrra byrjaði Elísabet í krabbameinsmeðferðinni og lá inni fyrstu vikuna. 

„Ég fékk lyf í viku og svo þriggja vikna pásu. Ég átti að liggja inni þessa viku en ég tók meðferðinni svo vel að þvi var fækkað í fimm daga, frá mánudegi til föstudags. Ég fór í fjórar slíkar meðferðir en fékk reyndar lungnabólgu eftir tvær fyrstu meðferðirnar svo sú þriðja frestaðist aðeins.“

Þannig liðu næstu fimm mánuðir. 

Elísabet í krabbameinsmeðferðinni.

Eftir ofangreinda meðferð fór Elísabet í háskammtameðferð í einn mánuð og lá allan þann tímann á spítala. 

Aðspurð um hvort að það hafi ekki hugsanlega hjálpað í hversu góðu formi hún var segir hún það vel hugsanlegt. 

Það hafi aftur á móti komið henni á óvart hversu mikið sjokk það hafi verið fyrir líkamann að vera svo að segja hreyfingarlaus eftir að hafa stundað íþróttir daglega af krafti til margra ára.

„Vöðvarnir fóru um leið, ég hefði aldrei trúað þessu fyrr en ég upplifði þetta á eigin líkama, sérstaklega þar sem ég hafði alltaf verið líkamlega mjög sterk.“

 Leitaði Elísabet í Kraft eða Ljósið? 

„Já, ég kíkti þangað en ég er bara þannig gerð að mér finnst best að takast á við hlutina með sjálfri mér. Sumum finnst það kannski skrítið en fólk er allskonar og ég er eins og ég er,“ segir Elísabet og brosir. 

Parið á rómó stundu.

Tók ekki hármissinum illa

Elísabet segir meðferðina hafa gengið mjög vel og sársaukinn hafi horfið svo að segja strax og meðferðin hófst. 

„Ég var á stórum skömmtum af sterum og þyngdist um 15 kíló sem mér fannst erfitt. Ég átti líka erfitt með að sætta mig við að fá slit á líkamann, sem var eitthvað sem var mér alveg framandi, en ég hef sætt mig við það enda sjást þau mikla minna en í byrjun þegar ég var með eldrauðar línur á líkamanum. 

En þessi kiló hurfu í hvelli eftir meðferðina,“ segir Elísabet, augljóslega kát með það. 

Elísabet Nhien Yen Huynh. Mynd/Ernir

Elísabet segist aftur á móti ekki hafa tekið hármissinn nærri sér.

„Ég vissi að að því kæmi og var því alveg undirbúin að missa hárið. Ég var reyndar undirbúin fyrir allt sem þessu fylgdi og tæklaði þetta því kannski betur fyrir vikið.“ 

Mömmumatur betri en spítalamatur

Hún segist aldrei hafa fyllst vonleysi, hún hafi alltaf haft trú á að hún kæmist yfir sjúkdóminn og tíminn hafi liði hraðar en hún átti von á. 

Elísabet gat ekki beðið efti að komast aftur í blakið Hér er hún að keppa 2021.

Þetta var samt sem áður í Covid og heimsóknir mjög takmarkaðar. 

„Ég var með tölvu til að hafa ofan af fyrir mér, kærastinn minn fékk undanþágu til að heimsækja mig og mamma eldaði mat sem hún færði mér,” sem hún viðurkennir hafi tekið spítalamatnum fram. 

„Vinkonur heimsóttu mig reglulega, þótt það væri gler á milli okkar, og mér leiddist í raun aldrei.“

Elísabet Nhien Yen Huynh Mynd/Ernir

Fór á fullt

Elísabet lauk meðferð í lok júní í ár og er nú laus við krabbameinið. Hún verður þó áfram undir eftirliti.

Hún fór beint að æfa þegar æfingar byrjuðu í ágúst. 

„Ég var með það í huga að reyna ekki um of á mig en áður en ég vissi var ég komin á fullt enda fann ég ekki fyrir neinum óþægindum eða einkennum, aðallega bara þolið sem skorti mest.“

Elísabet segir að í blábyrjun æfinganna hafi félagar hennar og þjálfarar haft auga með henni en það hafi ekki staðið lengi enda engin ástæða til, hún hafi ekki sýnt nein merki veikinda. 

Ekki einu sinni slappleika. 

Elísabet var nú á dögunum Blakari ársins hjá Þrótti.

Ekki lengur eins og páfagaukur

Elísabet er núna í 60% námi í viðskiptafræði og líður afar vel í alla staði. Hún ætlar að taka hlutina rólega og sjá til hvert skuli stefna í lífinu.

„Það eina sem kannski situr eftir er að ég finn að ég er gleymnari en áður en ég fékk krabbameinið. Ég var alltaf eins og páfagaukur og gat munað allt svo það var smá breyting, en samt, þetta er allt í lagi. 

Lífið er gott og ég hlakka til að sjá hvað tekur við,“ segir Elísabet Nhien Yen Huynh, bjartsýn og brosmild. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Heimsins stærsta hittir heimsins minnstu – „Við eigum nokkuð sameiginlegt“ 

Heimsins stærsta hittir heimsins minnstu – „Við eigum nokkuð sameiginlegt“ 
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona er að heimsækja fanga á Litla-Hraun: Birna fer í gegnum fyrstu heimsóknina sem var bæði átakanleg en góð

Svona er að heimsækja fanga á Litla-Hraun: Birna fer í gegnum fyrstu heimsóknina sem var bæði átakanleg en góð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2