Þessa dagana eru margir að huga að hátíðarmatnum og langar að prófa nýja rétti, sem sumum finnst vera áskorun enda margir vanir að vera ávallt með það sama og komnir með skothelda eldunaraðferð. Þar sem matur er manns megin og það er svo gaman að gleðja fólkið sitt með kræsingum sem hitta í mark er ekkert skemmtilegra en að prófa nýja hluti sem steinliggja. Það skemmtilega við jólahátíðina eru einmitt kræsingarnar sem bornar eru fram og samvera fjölskyldu og vina við matargerðina og borðhaldið.
Í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld mun Sjöfn töfra fram dýrindis nautasteik, Turnbauta, ásamt ljúffengu meðlæti sem er meðal uppskrifta í nýjustu uppskriftabókinni frá Kjötkompaní sem ber heitið Hátíðarveisla. Í Turnbautann eru notaðar þykkar nautalundasteikur úr miðri lundinni sem kallast Chateaubriand og Sjöfn fær í Kjötkompaní. Með réttri eldun verða þær dúnmjúkar og áferðin ómótstæðileg, þetta eru steikur sem bráðna í munni og steinliggja.
Það vefst fyrir mörgum að elda nautalundina og tryggja að eldunin sé fullkomin. Sjöfn gefur góð ráð þegar kemur að því að fullkomna nautalundina og hversu auðvelt það er í raun og veru að fara eftir uppskriftum og gera þær að sínu.
„Það sem skiptir mestu máli er að elda nautið rétt og fylgja leiðbeiningunum vel eftir,“ segir Sjöfn og nefnir jafnframt að listin sé að fylgjast vel með kjarnhitanum. Síðan er líka lykilatriðið að vera með ljúffengt meðlæti, í þessu tilviki eru það andalifur og trufflur sem toppa máltíðina og matarupplifunin verður stórkostleg.“
Ævintýraljómi hátíðarmatarins verður í forgrunni í kvöld. Jólalegur og skemmtilegur þáttur fram undan á Hringbraut í kvöld, fyrst klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér: