Í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld heldur jólaundirbúningurinn áfram og ilmurinn verður lokkandi. Að þess sinni verður piparkökuhús skreytt af ástríðu og natni tveggja stúlkna.
Sjöfn fær til sín góða gesti í heimsókn í eldhúsið sem eiga svo sannarlega eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Þetta eru bakaranemarnir Karen Guðmundsdóttir, sem vann Nemakeppni ársins 2022, og Tinna Sædís Ægisdóttir, en þær eru búnar að læra mörg leynitrix í bakaranámi sínu í Menntaskólanum í Kópavogi. Þær ætla að skreyta piparkökuhús í eldhúsinu hjá Sjöfn þar sem listrænir hæfileikar þeirra fá að njóta sín.
„Við höfum lært ótrúlega mikið í náminu og það eru allskonar bökunarráð sem við höfum fengið sem gerir allt miklu auðveldara í bakstri,“ segja þær Karen og Tinna.
Báðar eru þær bakaranemar í bakaríinu hjá Gulla Arnari þar sem þær hafa líka lært ótrúlega mikið af að eigin sögn. Þegar kemur að því að skreyta piparkökur og piparkökuhús er gott að kunna að gera hið fullkomna glassúrskrem, það kunna þær Karen og Tinna og ætla að svipta hulunni af uppskriftinni af hinu fullkomna glassúrskremi og hvernig best er að vinna með það.
Jólalegur og skemmtilegur þáttur fram undan á Hringbraut í kvöld, fyrst klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér: