Kidda Svarfdal er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Kidda Svarfdal er fertug sveitastelpa, mamma og eigandi vefsins hún.is.
Kidda er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman. Hún ólst upp í sveit þar sem þurfti að ferðast í klukkutíma með bát til að komast í skólann.
Sem börn voru þau í heimavist, fóru á mánudegi og komu heim á föstudegi.
„Fyrstu árin fórum við á bát í skólann, einn og hálfan tíma yfir, svo tók einhver við landfestunum, við kvöddum mömmu og pabba og fengum far í skólann“.
Oft var ófært og farið var með sleða til dæmis og stundum mátti litlu muna að illa færi.
„Á fullorðinsárum sat ég uppi með mikið trauma því maður mátti ekki tala um neitt, átti bara að hrista af sér og stíga aftur upp á sleðann eða bátinn, sem dæmi“.
Kidda ólst upp við alkahólisma og meðvirkni en ung ákvað hún ásamt bróður sínum að smakka aldrei áfengi.
„Hann stóð við það en ekki ég, ég vildi eignast vinkonur þegar við fórum í heimavistarskóla og vildi passa inn í hópinn, það voru allir byrjaðir að drekka þá“.
Frá fyrsta skipti var ljóst að drykkja fór henni afar illa. Hún segir frá því að hafa fundist þetta eina leiðin til að eignast vini og vildi ekki lenda í stríðni, árin liðu og drykkjan og sveitaböllin og oftast óminnisástand.
„Ég mundi alltaf bara fyrsta drykkinn en svo var ég alltaf annað hvort með kjaft eða grenjandi“, segir Kidda og bætir við að það hafi ekki verið aftur snúið eftir fyrsta skiptið í mörg ár.
Kidda hætti að drekka vegna þess að hún treysti sér ekki og vildi ekki skemma samband sitt við fyrrverandi kærasta, stuttu seinna eignuðust þau dóttur, 22 ára. Hún hætti að drekka í rúm tvö ár en án þess að vinna nokkuð í sér og sínum áföllum. Á þessum tíma var hún ekki tilbúin að viðurkenna að hún væri alkahólisti.
Eftir tvö ár án áfengis en án alls bata snerist lífið um helgarnar og djammið, þegar hún var ekki með dóttur sína.
„Djamm var alltaf óvissuferð, þunglyndið varð meira og ég vissi aldrei hvernig ég hefði komist heim. Ég vaknaði einu sinni á umferðareyju“.
Eina örlagaríka helgi á djamminu lenti hún í líkamsárás af hendi strákahóps, svona stera spítt gaurum, sem þekktir voru af lögreglu. „Löggan spurði hvort ég ætti fjölskyldu og börn, ég svaraði játandi og þá var mér sagt að kæra ekki því miklar líkur væru á að þeir kæmu á eftir mér“.
Eftir árásina var mikil hræðsla en þegar næsta tækifæri gafst mætti Kidda í bæinn og sá þá strákahópinn aftur.
„Ég ætlaði að hjóla í þá“, segir hún og bætir við að líklegast hefði það verið hennar síðasta.
Eftir þetta hætti hún að drekka.
Lífið heldur áfram að gerast þrátt fyrir að hætta að drekka, það leið einhver tími þar til Kidda viðurkenndi að hún væri alkahólisti og fór þá að vinna prógram. Hún ræðir einnig veikindi en hún fékk heilablæðingu árið 2021 sem læknar litu framhjá í töluverðan tíma og töldu vera vöðvabólgu. Kidda þurfti á endanum opna heilaskurðaðgerð og hafa þessi veikindi breytt sýn hennar mikið.
„Ég setti Aron lækni í hendurnar á æðri mætti. Ég er betri manneskja og nota hluti en spara þá ekki eins og áður, ég er svo þakklát og nýt þess að vera til“.
Það má hlusta á viðtalið við Kiddu Svarfdal í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.