Kvikmyndin Sumarljós og svo kemur nóttin var frumsýnd á Pöff, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tallinn um helgina. Hér eru myndir frá frumsýningunni en Elfar Aðalsteins, leikstjóri og handritshöfundur, Heather Millard framleiðandi og stór hluti leikhópsins voru viðstödd frumsýninguna.
Um er að ræða eina stærstu kvikmyndahátíð í Norður-Evrópu. Sumarljós og svo kemur nóttin keppir í flokknum Best of Fest, þar sem hún keppir við verðlaunamyndir frá öllum heimshornum.
Myndin hlaut mikið lof áhorfenda eftir frumsýninguna og gagnrýnandi Screen Daily segir:
„Efni saganna er lauslega ofið – en auga leikstjórans fyrir smáatriðum, sögusviði og samfélagi myndarinnar fleytir okkur áfram í gegnum ljúft og stundum hlykkjótt ferðalag. Ef það er rauður þráður í sögunum þá er hann líklegasta leiðin að lífsfyllingu.“
Sögusvið myndarinnar er smáþorp á Íslandi og sögur af íbúum þess. Ef þú leggur við hlustir þá segir Þorpið þér kannski nokkrar ósagðar sögur. Sögur af forstjóranum unga sem dreymir á latínu og fórnar fjölskyldu og glæstum frama fyrir gamlar bækur og stjörnukíki, heljarmenni sem kiknar undan myrkrinu, fínvöxnum syni hans sem tálgar mófugla. Af bóndanum með bassaröddina sem strengir fallegar girðingar en ræður illa við fýsnir holdsins, einmana gröfukalli sem skellir sér í helgarferð til London og gömlum Dodge 55.
Meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni eru Ólafur Darri Ólafsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Heiða Reed, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Jóhann Sigurðarson og Atli Óskar Fjalarsson.