Baráttukonan, hlaðvarpsstjórnandinn og rithöfundurinn Edda Falak og hennar betri helmingur, bardagakappinn Kristján Helgi Hafliðason, eru gestir vikunnar í Betri helmingurinn með Ása.
Edda hefur verið áberandi síðan hún haslaði sér völl á íslenskum hlaðvarpsmarkaði með þættinum Eigin konur. Þar vekur hún athygli á erfiðum málefnum og opnar umræðuna með því að fá til sín viðmælendur sem deila með henni reynslusögum sínum sem eru oft mjög átakanlegar.
Edda hefur einnig getið sér gott orð sem íþróttakona og áhrifavaldur. Hún gaf nýverið út sína fyrstu bók, Það sem ég hefði viljað vita.
Sjá einnig: Edda Falak sendir frá sér bók
Kristján er einn okkar allra besti glímukappi en hefur hann unnið til fjölda verðlauna á þeim vettvangi og nýlega tekin við stöðu yfirþjálfara hjá Mjölni.
Edda og Kristján vissu af hvoru öðru í mörg ár áður en þau byrjuðu saman.
„Ég var búinn að vera besti vinur bróður Eddu í svona sex ár,“ sagði Kristján.
„Edda bjó í Danmörku þannig ég var ekki búin að hitta hana það oft, reyndar vorum við saman í Mjölni fyrir löngu, þegar ég var fjórtán og hún tvítug […] Svo flutti hún heim og þá kynntumst við í gegnum Mjölni,“ sagði Kristján.
Stuttu eftir að Edda flutti heim var CrossFit-mót í Mjölni. Hana vantaði einhvern til að keppa með sér og var bent á Kristján, sem var heldur betur til í að taka þátt, enda er Edda gríðarlega öflug íþróttakona.
Kristján átti þó í einhverju basli og þurfti að bregða sér frá á miðju móti til að kasta aðeins upp og endaði Edda á því að klára mótið ein. Þau sigruðu því miður ekki mótið. Það var þó nokkru síðar að þau fóru að stinga saman nefjum, fyrst urðu þau vinir áður en rómantíkin tók völdin.
Aðspurð um hvort þeirra hafi tekið fyrsta skrefið svaraði Kristján strax: „Það var Edda.“
Hann útskýrði nánar að ástæðan hafi verið vinátta hans við bróður Eddu. „Ég var aldrei að fara að taka fyrsta skrefið út af Ómari mínum,“ sagði hann.
Ástin blómstraði og hafa þau núna verið saman í um tvö ár.
„Við erum mjög ólík. Ég er aðeins ofvirkari og hann rólegri. Ég þarf einhvern sem heldur mér á jörðinni,“ sagði Edda.
Í þættinum fer Ási um víðan völl með parinu. Þau ræða meðal annars bókina og hvernig hún kom til, réttlætiskenndina og kveikjunni af hlaðvarpinu, glímuferilinn, rómantíkina og margt fleira ásamt því að deila skemmtilegum sögum úr þeirra sambandstíð, þeirra á meðal skiptið sem Edda bað um ansi sérstakt óskalag í tíma hjá Kristjáni.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify eða hér að neðan.