Við sólarupprás í ágústmánuði 1848 sátu tvær manneskjur bundnar við stóla í garði fangelsis í Buenos Aires. Bundið var fyrir augu þeirra en þau vissu fullvel af aftökusveitinni sem stóð fyrir framan þau. Þau vissu að þau áttu aðeins nokkrar mínútur ólifaðar.
Piltarnir sem mönnuðu aftökusveitina voru engir nýgræðingar en í þetta skiptið leið þeim illa og áttu erfitt með að munda vopn sín að föngunum. Þessi tvö voru nefnilega allt öðruvísi en það fólk sem þeir tóku af lífi, allt að því daglega, í landi sem var undirlagt af ofbeldi.
Annar fanganna var gullfalleg tvítug kona, Camila O’Gorman og var hún komin átta mánuði á leið. Við hlið hennar sat kaþólskur prestur, faðir Ladislao Guitierrez.
Glæpur þeirra? Þau voru ástfangin.
Ást við fyrstu sýn
Maria Camila O’Gorman Ximenez var fædd inn í hástétt Argentínu. Á þessum árum var landinu stjórnað með harðri hendi af einræðisherranum Juan Manuel de Rosa. Sá var hrotti sem ekki bar neina virðingu fyrir leikreglum lýðræðisríkis og hikaði ekki við að losa sig við pólitíska andstæðinga en aðrir höfðu flúið til nágrannaríkisins Úrúgvæ.
Juan var einnig mikill kvennamaður. Hann átti þrjú börn með eiginkonu sinni en þegar hann var 47 ára hóf hann samband við 15 ára gamla vinnukonu á heimili þeirra hjóna og átti eftir eignast með henni fimm börn.
Camila var besta vinkona dóttur einræðisherrans, Manuelitu. Það var í samkvæmi á heimili hans sem hún var kynnt fyrir rómversk kaþólskum presti, Ladislao Guiterrez. Hún mun hafa verið um 17 ára gömul og presturinn fjórum árum eldri.
Þau urðu yfir sig ástfangin en héldu sambandi sínu leyndu, eðli málsins samkvæmt. En í desember árið 1847 fengu þau nóg af laumuspilinu og flúðu Buenos Aires í skjóli nætur. Ferðalagið var þeim erfitt en á endanum settust þau að í litlum bæ, Goya, kynntu sig sem kennarahjón, og opnuðu fyrsta barnaskóla bæjarins.
Peð í pólitískum valdaleik
Næstu sex mánuðir voru hamingjuríkasti tíminn í lífi unga parsins. Þau voru gríðarleg vinsæl í bænum og íbúarnir þakklátir fyrir að menntun til handa börnum sínum. En óafvitandi voru Camila og Ladislao orðin peð i pólitískum valdaleik.
Brotthlaup Camilu, stúlku úr æðstu stigum þjóðfélagsins og það með kaþólskum presti, var meiriháttar hneyksli. Og harðstjóranum var ekki skemmt. Pólitískir andstæðingar de Rosa, sem voru í útlegð í Urugvæ voru fljótir að benda á að flóttinn væri skýrt dæmi um siðferðilega bresti samfélagsins, sem augljóslega væru de Rosa að kenna.
Umræða um siðferði var eitthvað sem hann forðaðist sem heitan eldinn. De Rosa átti fjölda hjákvenna, auk hinnar barnungu vinnukonu, og vildi ekki fyrir sitt litla líf að þau sambönd kæmust í hámæli.
Sveik frænku
De Rosa lét því boð út ganga að parið væri eftirlýst. Og það var fjarskyldur frændi Camilu og prestur, faðir Miguel Gannon, sem sveik þau. Sá átti leið um bæinn og þekkti frænku sína. Hafði hann samband við héraðsstjórann sem lét handtaka parið. Camila hafði strax samband við æskuvinkonu sína Manuelitu og bað hana um að tala máli sínu við föður sinn.
Manuelita gerði allt sem hún gat en de Rosa var ekki haggað og skipaði að bæði Camila og Ladislao yrðu tekin af lífi. Svaraði hann dóttur sinni með því að segja að mál parsins kallaði á að hann nýtti sér „hin óumdeildu völd sín þar sem siðferðislegt gildi og trúarleg viðmið alls samfélagsins væru í húfi“
Og til að sýna sinn „kristilega kærleika“ skipaði de Rosa að Camila yrði látin drekka vígt vatn fyrir aftökuna til að ófætt barn hennar kæmist til himna.
Eins og fyrr segir fannst hermönnunum í aftökusveitinni afa óþægilegt að taka af lífi unga, barnshafandi konu og kaþólskan prest.
En þeir voru skikkaði til að klára verkefnið. Sumir lokuðu augunum og fékk unga parið í sig fjölda skota áður en þau að lokum létust.
Pólitískt sjálfsmorð
Aftakan reyndist hins vegar vera pólitískt sjálfsmorð fyrir de Rosa. Þegar að fólk áttaði sig á hvurslags villimennska varð að skjóta tvítuga barnshafandi konu og ungan mann maður í blóma lífsins fyrir það eitt að vera ástfangin, braust út gríðarleg reiði.
Pólitískir andstæðingar einræðisherrans voru fljótir að nota tækifærið, héldu heim frá Úrúgvæ, og voru hersveitir de Rosa sigraðar 1852 og hann hann sendur í útlegð Englands.
Eitt fyrsta verk hins nýja forseta var að banna aftökur á þunguðum konum.
Næstum allir sem komu að þessu pólitíska hráskinnaleik eiga af sér styttur í Argentínu eða götur og torga hafa verið nefndar í höfuð þeim. De Rosa er meira að segja á peningaseðli.
Það er að segja allir nema Camila og Ladislao, ástfangna parið sem óafvitandi breytti pólitísku landslagi Argentínu með dauða sínum.
Hvergi er að finna nein minnismerki um þau né ófætt barn þeirra. Hin síðari ár hefur þó rykinu verið dustað af því sem sumir kalla ástarsögu aldarinnar, bækur skrifaðar og kvikmynd gerð sem einfaldlega heitir ,„Camila.“