fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Rannveig Borg lögfræðingur og rithöfundur skilur stjórnleysi: „Ég hef enga sérstaka hæfileika en get verið ótrúlega hörð við sjálfa mig‟

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 12. nóvember 2022 08:59

Rannveig Borg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Kannski er það engin tilviljun að ég byrja að skrifa í Covid þegar lífið var frekar leiðinlegt. Að fara inn í heim sem var aðeins minna leiðinlegur,“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir, lögfræðingur og rithöfundur.

Rannveig Borg Mynd/Ásta Kristjánsdóttir

Hún er nýbúin að gefa út sína aðra skáldsögu, Tálsýn, sem fjallar um Önnu sem er hátt sett í alþjóðlegum fjárfestingarbanka í Sviss. Líf Önnu er fullkomið þar til draugar fortíðar­inn­ar banka upp á og sagan tekur óvænta stefnu.

Fyrsta bók hennar, Fíkn, kom út í fyrra og þótti hún slá nýjan og djarfan tón þar sem hún skrifar um persónur sem glíma við ýmsar fíknir. Í Tálsýn berst söguhetjan við drauga fortíðar sem valda því að smám saman molnar upp úr lífi hennar.

Hef enga sérstaka hæfileika

Rannveig flakkaði um Frakkland, lærði lögfræði í París, starfaði í höfuðstað Frakklands og bjó um tíma í Lúxemborg. Hún datt inn í íslensku velmegunina fyrir hrun áður en hún flutti til Sviss, þar sem hún býr núna.

Hún þurfti að takast á við ýmsa erfiðleika á vegferð sinni en segist halda að hennar helstu styrkleikar séu viljastyrkur og þrautseigja.

 „Ég hef enga sérstaka hæfileika en ég get verið ótrúlega hörð við sjálfa mig.“

Þvers og kruss með bakpoka

Rannveig ólst upp í Hafnarfirði, fór í Versló og við útskrift langaði hana að sjá heiminn. „Eins og ungt fólk langar oft að gera, og kannski enn meira Íslendinga, því búum jú auðvitað á þessari eyju og langar að sjá meira. ‟

Rannveigu ákvað að halda í smá ævintýraferð til Frakklands, fór í tungumálaskóla en ílentist. „Ég ferðaðist um með bakpoka þvers og kruss um Frakkland og tók fleiri kúrsa í málinu til að undirbúa háskólanám.“

Rannveig fór því í laganám í París. „Ég ákvað að prófa og hugsaði að ef þetta gengi ekki yrði þetta í það minnsta góður grunnur í frönsku. Og þetta reyndist mjög erfitt og varð í raun ekki skemmtilegt fyrr en á þriðja árinu.“

Rannveig Borg Sigurðardóttir Mynd/Valli

Í fyrsta skipti með heimþrá

Rannveig var samt aldrei á því að gefast upp. „Ég var mjög dugleg að læra, tók upp fyrirlestrana á lítið upptökutæki fyrstu mánuðina og hlustaði á þá aftur heima. Þetta var að stórum hluta þrjóska því mig langaði ekki heim strax, ég vildi búa áfram í París. Ég beit það í mig að ég yrði að ná prófunum, það kæmi ekkert annað til greina.“

Rannveig fékk starf á lítilli lögfræðistofu á fjórða árinu sem aftur hjálpaði henni að fá stöðu í stórum banka að námi loknu. Henni leið vel í París en örlögin höguðu því svo til að hún flutti til Lúxemborgar árið 2004.

 „Þá fékk ég í fyrsta skipti á ævinni heimþrá. Ég held að tilfinningar mínar hafi verið flóknar á þessum tíma. Ég var að rífa mig upp frá rótum frá lífi mínu í París, hafði misst pabba minn stuttu áður, og það var einhver blanda sem gerði það að verkum að í fyrsta skipti í tólf ár langaði mig heim.“

Bullandi uppgangur

Og svo fór að Rannveig flutti heim árið 2005. „Það var gott koma heim. Það var mikill uppgangur á þessum tíma fyrir hrun og ég var steinhissa. Það var allt að gerast á Íslandi, meira segja miðað við það sem ég hafði upplifað í hinu kapítalíska umhverfi í Lúxemborg.“

Rannveig hóf að starfa sem lögfræðingur á BBA Legal. Árið 2008 var hún send til London til að opna útibú stofunnar.

„Þetta var ekki besti tíminn til að fá verkefni frá íslenskum bönkum í London,“ segir Rannveig og hristir höfuðið.  „Maður vissi það ekki á þessum tíma en spilaborgin var að hrynja.“

Erfið lífsreynsla

Rannveig hélt því aftur heim og hóf störf hjá Actavis. „Þá var ég viss um að ég væri búin að festa rætur á Íslandi og var mjög sátt.“

En lífið tekur stundum óvænta stefnu. Rannveig varð ólétt.

Rannveig ásamt sini sínum, Axel Elís Borgarsyni

„Barnsfaðirinn tók þá ákvörðun að vera ekki hluti af okkar lífi og var það hans ákvörðun en ekki mín.“ Hún segir þetta hafa verið erfiðan tíma. „Ég var ein og ólétt og þar í auki í ofsalegri ástarsorg vegna manns sem aldrei hefur viljað skipta sér af syni okkar.

Þetta var erfið lífsreynsla.“

Ein tegund af mörgum

Actavis bauð Rannveigu að flytja til Sviss þegar hún var ólétt. „Ég held að margir hafi ekki trúað því að ég myndi þiggja starfið. En ég vildi komast í nýtt umhverfi, þáði starfið og flutti með barnið mitt til Sviss þegar hann var 9 mánaða.

Ég grínast reyndar oft með að að hafa flutt tvisvar heim til Íslands og vera alltaf hent úr landi.“

Mæðginin á góðri stundu.

Aðspurð hvort ekki hafi verið erfitt að flytja ein í nýtt land með ungabarn segir Rannveig það hafa bjargast.

„Ég átti íslenska nágranna sem voru æðislegir og hjálpuðu mér mikið. Ég var líka með au pair þannig að ég bjó mér til mitt eigið stuðningsnet. Okkur hefur alltaf liðið vel og sonur minn hefur alist upp við að það séu allskonar fjölskyldur.

Við erum ein „tegund‟ fjölskyldu og það er bara í góðu lagi.“

Öðruvísi menning

Rannveig starfaði fyrstu árin hjá Actavis en skipti svo um gír og starfar nú hjá stóru alþjóðlegu þjónustufyrirtæki.

Hún býr í þýskumælandi hluta Sviss, rétt fyrir utan Zürich. Hún hefur margt gott um Sviss að segja. „Þetta er afar hreint land og gott skipulag á öllu. Zürich er skemmtileg borg án þess að vera of stór, hér eru alvöru árstíðir og gott að fara á skíði.“

Rannveig Borg Sigurðardóttir Mynd/Valli

Rannveig segir Sviss búa yfir mörgum kostum en það þurfi að aðlagast menningunni. „Hún er öðruvísi en í borgum eins og London og París þar sem fólk er opnara. Það tekur lengri tíma að kynnast Svisslendingum. Þeir fara eftir reglum í einu og öllu sem er eitthvað sem tekur tíma að venjast.“

Ekkert „þetta reddast“

Rannveig tekur dæmi.

„Ég var að skrá son minn á leikjanámskeið og var sagt að það væri fullt. Ég spurði hvort ekki væri hægt að koma einu barni að en var þverneitað. Það var fullt. Punktur. Það er ekki til þetta íslenska ,,þetta reddast” hugarfar sem manni finnst oft svo þægilegt heima. Það getur verið svo yndislegt hvernig Íslendingar bregðast við, „við reddum þessu bara, en þetta er ekki  til í Svisslendingum. Reglur eru reglur og það er farið eftir þeim.“ Hún segir allt þetta hafa kosti og galla. „Ég get stundum blótað þeim fyrir reglufestuna en á sama tíma er ég ánægð með hluti á borð við að allar lestir eru á réttum tíma og allar áætlanir standast.“

Rannveig Borg

Hún segir fleira ólíkt með þjóðunum. „Vinir bjóða ekki í mat eða boð með stuttum fyrirvara. Maður fær boð löngu áður og hvert smáatriði skipulagt. Það þarf að venjast þessu og stundum langar mann til að fólk slaki aðeins á en á móti er ég afar ánægð með reglufestuna það er þegar það hentar mér,“ segir Rannveig og hlær.

Skúffuskáld

Rannveigu langað alltaf að skrifa en segist gruna að það gildi um marga, sérstaklega Íslendinga.

„Uppáhaldsfagið mitt í Versló var bókmenntir og ég var að spá að fara í bókmenntanám. Ég skrifaði einhver ljóð og smásögur á þessum árum, sem öll fóru beint ofan í skúffu.“

Hún segir vinnuálag hafa spilað inn í. „Og þar sem ég var að vinna þetta mikið á öðrum tungumálum setti ég skrifin til hliðar.

Það var fyrst þegar ég flutti heim og var komin í íslenskt umhverfi, að ég fór aðeins að leika mér að því að skrifa aftur en ég talaði ekki um það við kóng né prest.“

Rannveig með Axel Elís syni sínum.

Sagan kallaði

Og svo skall Covid á. „Þá fór ég fór að draga þessu gömlu drög upp úr skúffunum og það fór að kalla á mig að byrja að skrifa.“

Hún segir söguna hafa kallað á sig.  „Ég var í námi á fíknifræðum á þessum tíma og mikið heima. Þetta var bara skrítinn tími og skrifin kannski meira áhugamál til að hafa eitthvað til skemmtunar á þessum furðulega tíma.“

Úr varð handrit sem Rannveig þorði loks að skila frá sér, bókin Fíkn.

Á góðri stundu

Söguhetjan í Tálsýn býr í Sviss, líkt og Rannveig,  „Auðvitað er alltaf eitthvað nýtt úr mínum reynsluheimi en þetta er umfram allt skáldsaga. Anna í Tálsýn er miklu hærra sett en ég hef nokkurn tíma verið og lifir öðruvísi lífi. Ég varð að ímynda mér hvernig fólk í þessari stöðu býr hér í Sviss.“

Bland í poka

Rannveigu finnst skrifin brjálæðislega skemmtileg. „Stundum finnst mér eins og ég sé að horfa á bíómynd þegar ég skrifa, nema að ég er inni í sögunni og ræð bæði endi og upphafi.“

„Engin persóna í bókunum er byggð á einstaklingi sem ég hef kynnst eða þekki. Aftur á móti finnur maður að það er ákveðnar týpur, með ákveðið hegðunarmynstur og talanda, í þessum alþjóðlega fjárfestingarheimi. Og ég nýti mér það því ég held að við bókaskrif sé maður alls staðar og hvergi og úr kemur svona bland í poka.“

Var með átröskun

Rannveig segir það líka vaka fyrir sér með bókunum að reyna að auka skilning og kalla fram vitundavakningu án þess þó að predika.

„Ég er líka í námi í fíknifræði og hef ótrúlega mikinn áhuga á fíknifræði og öllu sem því tengist. Ég var sjálf með átröskun sem ung kona, sem ég skilgreini sem fíkn og  mig langar til að skrifa bækur sem eru áhugaverðar og spennandi en kannski pínulítið fræðandi án þess að verða fræðirit eða þungar í lestri.“

Rannveig Borg Sigurðardóttir Mynd/Valli

Rannveig segir að því miður verði þeir sem eru að ganga í gegnum einhvers konar fíknisjúkdóma eða stjórnleysi oft fyrir fordómum og séu litnir hornauga í samfélaginu.

„En þetta getur komið fyrir okkur öll og við eigum að vera opin fyrir umræðu um þessa sjúkdóma, líkt og aðra, og sýna samkennd í stað þess að dæma.“

Skil stjórnleysi

Aðspurð hvort að átröskunin hafi mótað hana segir Rannveig það ekki spurningu.

„Sennilega breytti hún mér á allan hátt. Ég skil fólk í stjórnleysi því ég hef verið þar sjálf og veit hversu erfitt er að ná aftur tökum á lífi sínu.  Ég er örugglega með meiri viljastyrk og sjálfsaga því svona erfiðleikar móta mann. Það breytir manni líka að ná sér upp úr slíku því þá sér maður lífið á annan hátt sem aftur veitir svo mikið frelsi og þakklæti.“

Ef ég get skrifað bækur sem fólk nýtur þess að lesa og opnað umræðuna örlitið í leiðinni, þá hef ég gert mitt því að dropinn holar steininn,“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir, rithöfundur og lögfræðingur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna