Bókamiðillinn Goodreads í eigu Amazon er eins konar samfélagsmiðill fyrir bókaunnendur. Þar er hægt að halda utan um lestur sinn, það sem er búið að lesa, með hverju fólk mælir og jafnvel er hægt að taka saman lista um bækur sem fólk vill lesa í framtíðinni.
Þar er hægt að skrifa umsagnir um bækur og eins hægt að fylgjast þar með uppáhalds höfundum sínum og eru margir frægir, sem og minna frægir, höfundar virkir á miðlinum og nýta hann til að eiga samtal við lesendur sína og kynna fyrir þeim ný verk, eða bara til að deila hugleiðingum sínum. Þá fá höfundar merkið „goodreads author“ sem þýðir að höfundar séu búnir að láta sannreyna aðgang sinn. Margir höfundar nýta miðilinn til að birta bloggfærslur og mæla með bókum sem þeir sjálfir eru hrifnir af.
Þar sem Goodreads er í eigu Amazon er vefurinn sérstaklega aðgengilegur fyrir notendur Kindle sem geta gefið bókum umsögn og einkunn beint í gegnum lestölvuna, og valið að sjálfkrafa sé skráð á Goodreads hvað fólk er að lesa og hvernig lestrinum vindur fram.
Það sem ekki allir átta sig þó á er að einkunnir og umsagnir eru opnar færslur sem hver sem er getur skoðað, þar með talið höfundarnir sjálfir. Ekki er langt síðan að umsögn Íslendings komst í fréttir eftir að rithöfundurinn Þórarinn Leifsson sakaði blaðamanninn Jakob Bjarnar Grétarsson um að nota dulnefni á Goodreads til að gefa bókum hans slæma útreið.
Sjá einnig: Þórarinn og Jakob Bjarnar tókust harkalega á – „Þú ert óskrifandi hálfviti og þú veist það“
Í Lestinni á Rás 1 á miðvikudag var fjallað um Goodreads og hvernig að slæmir dómar á þeirri síðu geta sært rithöfunda.
Þar mætti Ásdís Ósk Valsdóttir sem viðmælandi, en hún gengur undir nafninu Ásdís Valsdóttir á Goodreads, en það er einmitt aðgangurinn sem Þórarinn Leifsson taldi í reynd tilheyra Jakobi Bjarnari.
Ásdís tók fram að hún hafi stofnað aðgang sinn á síðunni fyrir kannski um ári eða tveimur síðan. Hún hafi ekki skilið hvernig síðan virkaði og hætt fljótlega að nota hana. Svo í árslok á síðasta ári hafi hún ákveðið að fara í lestrarátak og lesa allar íslenskar bækur sem komu fyrir í Bókatíðindum ársins 2021.
„Ég er ekki bókmenntagagnrýnandi og er ekki menntuð sem bókmenntagagnrýnandi. Þetta er númer eitt, tvö, þrjú og alveg upp í hundrað fyrir mig persónulega til að muna hvaða bækur ég hef lesið.“
Ásdís hafði ekki gert sér grein fyrir því að umsagnir hennar væru sýnilegar hverjum sem er og taldi þetta vera hennar persónulega vettvang sem aðeins samþykktir vinir hennar þar gætu séð.
Það var svo þegar hún var á Spáni í mars sem hún las bók sem margir höfðu mælt mikið með og hún hafði verið spennt fyrir því að lesa. Bókin greip hana ekki og skrifaði hún neikvæða umsögn um hana.
Áður en hún vissi af hafði höfundur þessarar bókar sett „læk“ við myndband á Facebook-síðu hennar. Og það ekki nýlegt myndband. Sú bók hafði verið drungaleg glæpasaga og varð Ásdísi nokkuð um.
„Fannst þetta ekkert rosalega þægilegt að fá rithöfundinn inn á mitt facebook þó það sé opið. Svo bara gleymdi ég þessu og hélt áfram að vinna í mínu „lokaða“ Goodreads.“
Þetta var þó ekki í eina skiptið sem umsagnir hennar rötuðu til höfundar bókar. Það var núna í ágúst sem Ásdís fékk skilaboð frá ritstjóra DV þar sem hann spurði hvort hún væri sú Ásdís Valsdóttir sem hafði skrifað neikvæða umsögn um bók Þórarins Leifssonar.
„Ég fékk pínu áfall þegar ég fékk skilaboð frá DV, og ritstjóri DV sendi mér bara skilaboð á Facebook. Það fyrsta sem maður hugsar er bara: hvað gerði ég nú af mér af hverju er DV að fara að skrifa um mig?“
Skilaboðin vöktu athygli hennar á skrifum Þórarins á Facebook þar sem hann hélt því fram að Ásdís á Goodreads væri í raun Jakob Bjarnar blaðamaður í dulargervi.
„Mér leið eins og ég hefði lent í einhverjum sketch í Spaugstofunni og þúst ég hugsaði bara- ef ég á einhvern tímann séns til að lenda í áramótaskaupinu þá er það út af þessu,“ sagði Ásdís. Sjálf hefur hún heyrt sögur af fólki sem rithöfundar hafa sett sig í samband við vegna þess að þeir voru ósáttir við dóma og jafnvel séu dæmi um það að fólk taki umsagnir sínar í kjölfarið út af Goodreads.
Ásdís segist þakklát fyrir að hún hafi verið á góðum stað þegar þetta mál kom upp. Hún hafi nýlega farið í mikla sjálfsskoðun og haldið úti bloggi sem ekki hafi verið allra og hafi hún alveg fengið yfir sig gagnrýni vegna þess.
„En fyrir fimm árum hefði ég bara fengið kvíðakast og ég hefði ekki farið út úr húsi.“
Ásdís telur að bækur séu listform og eins og með flesta listsköpun þá sé það svo að skoðanir verði skiptar og höfundar geti því ekki gengið út frá því að allir muni taka listsköpun þeirra fagnandi.
Lestin ræddi einnig við Júlíu Margréti Einarsdóttur, rithöfund. Hún fylgist vel með bókum sínum á Goodreads og segir að slæmir dómar særi.
Þegar bók hennar, Guð leitar að Salóme, kom út var henni boðið í Kiljuna og átti að taka upp innslagið á Kringlukránni þar sem Kringlan spilar stórt hlutverk í bókinni. Júlía mætti snemma til þess fundar og þurfti að bíða aðeins fyrir utan þar sem ekki var búið að opna.
Þá opnaði hún Goodreads og sá að hún hafði fengið eina stjörnu frá einum manni. Engin umsögn eða útskýring fylgdi þeirri stjörnugjöf. Júlía fékk áfall.
„Ég labbaði skjálfandi á beinunum inn með kökk í hálsinum. Mig langaði bara að hætta þessu öllu og aldrei gefa út aftur bók og kveikja í henni og þetta var ógeðsleg tilfinning og það var mjög erfitt að gíra sig upp í eitthvað.“
Hún hafi því verið í nokkru uppnámi í Kiljunni.
Svo gerðist það aftur að hún fékk eina stjörnu um viku síðar.
„Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég fór að gráta í vinnunni.“
Júlía segist hafa rætt þetta við vinkonu sem einnig er rithöfundur. Sú hafði nýlega rætt við móður sína, sem einnig er rithöfundur, um slæma dóma og þær verið sammála um að gagnrýni á bókmenntaverk sé sárari en gagnrýni á persónu manns.
Júlía gekkst við því að hafa haft samband við annan aðilann sem gaf henni eina stjörnu. Hún hafi verið stödd í hópeflisferð með vinnunni fljótlega eftir stjörnugjöfina og eftir að hafa fengið sér í glas „náföl með tár í augunum“ ákvað hún að hafa samband og spyrja viðkomandi hvort bók hennar hefði móðgað hann. Það samtal hafi farið vel fram, viðkomandi hafi sagt að bókin hafi hreinlega ekki höfðað til hans og hann hefði ekki áttað sig á því að slík umsögn hefði getað komið hópeflisferð höfundar bókarinnar í uppnám.
Kristján Guðjónsson, þáttastjórnandi Lestarinnar, sagðist vita til þess að alþjóðlega þekktir rithöfundar láti sig varða minnstu umsagnir bókaunnenda, umsagnir sem ættu í raun ekki að skipta máli í stóra samhenginu.
Lestin ræddi einnig við Pál Vallson útgáfustjóra hjá útgáfunni Bjarti og hann sagði að vissulega fylgist bókaútgefendur vel með Goodreads. Þar sé fólk að tjá sig um bækur sem sé ómetanlegt fyrir útgefendur. En vissulega sé þetta ekki eiginlega bókmenntagagnrýni líkt og tíðkist í fjölmiðlum sem Páll segir að þó sé engan veginn nóg um.