„Rósa Björg Brynjarsdóttir er venjuleg kona, móðir með góða nærveru. Þegar maður talar við hana fær maður á tilfinninguna að hún sé kona sem vilji öllum vel,″ segir Tinna Guðrún Barkardóttir í nýjasta hlaðvarpi sínu, Sterk saman.
Rósa er forstöðukona í Skjólinu, sem er úrræði fyrir heimilislausar konur Umræðan um hversu mikil vöntun er á úrræðum í málaflokknum hefur verið mikil, og þá sérstaklega úrræðum fyrir heimilislausa karlmenn á Íslandi.
Skjólið er úrræði fyrir konur sem opið er alla virka daga frá 10:00 á morgnana. Konukot lokar klukkan þrjú í eftirmiðdaginn og kemur þar af leiðandi í veg fyrir að þær konur sem þurfa á að halda, geta leitað skjóls, farið í sturtu, fengið heitan og góðan mat og aðstoð við að greiða úr alls kyns flækjum. Þar hafa þær einnig aðgang að öruggu neyslurými.
Rósa segir að þær sem vinna í Skjólinu hafi allar bakgrunn úr Konukoti og því hafi verið tiltölulega auðvelt að tengjast konunum þegar þær fóru að mæta í Skjólið.
„Við erum ekki að bjarga neinum, við erum að aðstoða konurnar við að sinna grunnþörfum og lækka þröskulda, ″ segir Rósa og bætir við að oft komi aðilar innan kerfisins í Skjólið til að hitta konurnar því það geti verið óyfirstíganlegt verkefni fyrir þær að labba inn á stofnun til að hitta þessa aðila.
Aðspurð um tilkomu þessa úrræðis segir Rósa að Agnes Biskup hafi látið gera úttekt og meta hvar vandinn væri mestur eða hvar þyrfti að bregðast við strax. Niðurstaðan var að nauðsyn væri á aðstöðu fyrir heimilislausar konur, svo og þær sem búa við ótryggar aðstæður.
Úrræðið, sem staðsett er í kjallara Grensáskirkju er rekið af kirkjunni.
Í Skjólinu er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og konunum mætt á þeim stað sem þær eru hverju sinni.
„Það er öruggt neyslurými en reglur og rammi í kring um alla neyslu. Þær eru velkomnar þrátt fyrir að vera undir áhrifum en það má ekki fara ekki með áfengi eða annað inn í hús. Það er geymt í læstum skápum sem þær hafa til umráða. Þær drekka og reykja úti en nota fíkniefni í öruggu rými þar sem allt er skráð og vel fylgst með.
„Konurnar sem leita til Skjólsins eru allar venjulegar konur, eins og ég og þú. Það sem þær eiga sameiginlegt er að allar eiga þær áfallasögu,“ segir Rósa Björg Brynjarsdóttir, forstöðumaður Skjólsins.