Árið 1776 tókst sárafátækri og ólæsri konu, Mary Toft, sem kom úr neðstu þrepum þjóðfélagsstigans, að blekkja virtustu lækna og vísindamenn Lundúna. Og jafnvel sjálfan konunginn.
En hver var Mary, hver var blekkingin og af hverju? Og síðast en ekki síst, hverjar urðu afleiðingarnar?
Mary var fædd 1703 og 17 ára gömul giftist hún 18 ára verksmiðjustarfsmanni, Joshua Toft, og átti með honum tvö börn. Fjölskyldan var bláfátæk og gekk Mary tvo tíma á hverjum morgni til vinnu á humlaakri þar sem hún þrælkaði allan daginn áður en en hún gekk aftur tvo tíma heim, seint um kvöldið.
Fósturmissirinn
Mary var 25 ára þegar að allt havaríið hófst. Svo virðist sem hún hafi misst fóstur snemma á meðgöngu, sem var afar algengt hjá verkakonum eins og Mary sem voru miskunnarlaust reknar áfram í vinnu þrátt fyrir að vera barnshafandi.
Sjálf sagðist Mary hafa misst fóstrið eftir að hafa brugðið illa þegar að kanína hljóp að henni.
En aðeins mánuði síðar, í september 1726, fæddi Mary aftur og nú eitthvað sem ekki virtist mennskt.
Joshua maður hennar kallaði til lækni, John Howard, sem lýsti látnu ,,afkvæmi” Mary sem ,,einhverju sem hefði þrjá bröndótta kattafætur og einn kanínufót.” Sagði hann innyflin minna á innviði katta auk þess sem beinagrindin líktist helst fiskbeinum.
Hafði doktorinn aldrei séð neitt þessu líkt.
Níu næstu fæðingar
En Mary var rétt að byrja og næstu dagana fæddi hún hvorki meira né minna en níu dauða kanínuunga og setti læknirinn hvern og einn í krukku, fulla af formalíni.
Howard læknir skrifaði bréf til allra virtustu lækna og vísindamanna Bretlands. Hann skrifaði meira að segja Georg I konungi sem fékk það mikinn áhuga á málinu að hann sendi einkaritara sinn, Samuel Molyneux, á svæðið til rannsókna. Honum til fylgdar var heimsfrægur svissneskur skurðlæknir, Nathaniel St. André.
Herramennirnir komu akkúrat þegar að Mary var nýbúin að fæða sinn þrettánda kanínuunga og voru þeir viðstaddir fæðingu tveggja til viðbótar. Sáu þeir ekkert sem benti til annars en að Mary fæddi kanínur í raun og sann.
Á fund konungs
Þeir krufu ungana og komust að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu ekki skapast í líkama Mary þar sem gras fannst í maga þeirra. Ungarnir voru auk þess misstórir, sumir virtust hafa látist við fæðingu en aðrir voru orðnir þriggja mánaða við andlátið.
En svissneski doktorinn var samt sem áður viss um að Mary fætt kanínungana, þótt snúið væri að skýra út grasið. Taldi hann ungana hafa verið lifandi í kviði Mary en látist við átök í fæðingu. Hann hafði jú sjálfur orðið vitni að fæðingunum og var viss um að þjáningar Mary meðan á þeim stóð væri raunverulegar.
Fór hann því með eina formalínkrukkuna á fund konungs sem krafðist þess að Mary yrði rannsökuð í Lundúnum.
Á þessu tíma var talið að fósturlát stöfuðu oft af hræðslu móður á meðgöngu og taldi St. André því furðurfæðingar Mary vera um að kenna hræðslu hennar við kanínuna fyrr um sumarið.
Farið var með Mary til Lundúna þar sem hún var rannsökuð hátt og lágt og eitt skiptið af hvorki meira né minna en tíu læknum í eitt og sama skiptið.
En engir fæddust kanínuungarnir eftir komuna til höfuðstaðarins. Aftur á móti virtist Mary veikjast heiftarlega og lagðist hún í rúmið og neitaði frekari rannsóknum.
Játningin
Nokkrum dögum síðar var þjónn nokkur gripinn við að lauma kanínuunga inn í herbergi Mary.
Hann sagði að mágkona Mary, Margaret Toft, hefði ráðið hann til verksins. Mary harðneitaði allri vitneskju um málið en þegar henni var hótað uppskurði til að skoða æxlunarfæri hennar játaði hún loks að um plat hefði verið að ræða. Voru þrjá tæplega fjórir mánuðir liðnir frá fyrstu ,,fæðingunni.”
Játningin kom sér sérlega illa fyrir Nathaniel St. André sem aðeins fjórum dögum áður hafði gefið út lærða ritgerð um málið þar sem hann fullyrti að Mary Toft fæddi kanínur.
Ferli hinn heimsþekkta svissneska sérfræðingur lauk á augabragði og var hann hafður að háði og spotti. Blöðin komust í málið og var um fátt annað rætt í öllu Bretlandi.
Af hverju?
En hvað hafði Mary Toft gengið til?
Sagðist hún hafa troðið dýrahræjunum í leggöng sín, sem var afar erfitt og sársaukafullt og auk þess stórhættulegt. Það er í raun ótrúlegt að Mary hafi lifað gabbið af því stundum var hún með hræin inni í sér í margar vikur áður en hún fann rétta stund og stað, og ekki sístu réttu vitnin, til að fæða.
Það veit enginn í raun hvað gekk Mary til því blekkingin var henni gríðarlega sársaukafull og lífshættuleg.
Í dag telja margir að Mary hafi verið viljalaust verkfæri eiginmanns síns og tengdamóður sem vonuðust til að græða á málinu.
Mary var dreginn fyrir dóm, ásökuð um svik, og dæmd til fjögurra mánaða fangelsisvistar. Almenningi var hleypt inn í fangelsið til að líta ,,svikakvendið” augum og þurfti hún að þola gón og hrakyrði gesta og gangandi.
Mary Toft hvarf eftir að hafa verið sleppt úr fangelsi og það eina sem um hana er vitað að hún lést sextug að aldri.