fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Indíana Rós kynfræðingur vill sjá kynfræðslu hefjast í leikskóla: „Það er hætta á að krakkar telji kynlíf í klámmyndum eðlilegt og eins og kynlíf eigi að vera“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 29. október 2022 09:10

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég var á þessum aldri voru einhverjar bláar myndir á Sýn eftir miðnætti eða einhver bekkjarfélagi hafði komist yfir klámblöð eða jafnvel klámspólur. En nú eru þau með klámið í hendinni, í símanum,“ segir Indíana Rós Ægisdóttir, kynfræðingur, eiginkona og tveggja barna móðir.

Indíana Rós Mynd/Sunna Ben

Indíana hefur mikið starfað í skólum og félagsmiðstöðvum, jafnt með ungmennum, sem kennurum og leiðbeinendum. Segist hún finna fyrir bæði brennandi löngun og nauðsyn til aukinnar kynfræðslu.

Frá fatahönnun í kynfræði

Indíana ætlaði samt aldrei að verða kynfræðingur, hún vildi verða fatahönnuður, sem hún segir hafa stafað af hvatvísi í tíunda bekk. „Ég vildi fara í skiptinám til Ítalíu og læra tungumálið til að ég gæti farið þar í framhaldsnám í í fatahönnun.“

Svo Indíana lét vaða og fór til Ítalíu í ár eftir skylduna og lærði ítölsku eins og hún hafði ætlað. Hún hóf því næst nám í fatahönnun í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. En að ári liðnu fannst Indíönu námið ekki henta sér og skipti yfir á félagsfræðibraut.

„Ég var ekki viss um hvað ég vildi gera enda bara sautján ára krakki. Á félagsfræðibrautinni tók ég meðal annars sálfræðiáfanga þar sem við máttum velja okkur verkefni. Ég ákvað að fjalla um kynraskanir og var alveg heilluð yfir hvað það var áhugavert. Ég sagði mömmu frá hversu skemmtilegt þetta væri og hún benti mér á þetta væri hægt að læra og sérhæfa sig í.“

Þá var Sigga Dögg farin að skapa sér nafn sem kynfræðingur og ég hafði samband við hana til að afla mér meiri upplýsinga um kynfræði. En við erum í raun mjög fáir kynfræðingarnir hér á landi enn í dag.“

Það má sjá nýlegt viðtal DV við Siggu Dögg hér.

Vildi vita allt um þennan heim

Indíana fór í Asíureisu eftir útskrift en kom heim, enn staðföst í afla sér menntunar í kynfræðslu og hóf nám í sálfræði. „Þá hafi ég aftur samband við Siggu Dögg og hún tók mig svolítið undir sinn væng og kynnti mig meðal annars fyrir Kynís, Kynfræðifélagi Íslands, þar sem hún var formaður.“

Því má við bæta að Indíana Rós er formaður Kynís í dag.

Indíana og Kristófer maðurð hennar, á leið út í nám.

„Ég byrjaði því mjög snemma í þessu og tók því alla áfanga og verkefni í sálfræðinni sem ég gat tengt við kynfræði, mitt áhugasvið. Ég vildi vita allt um þennan heim. BS verkefnið mitt var um sjálfsfróun kvenna, beint eftir útskrift úr sálfræðinni árið 2016 byrjaði ég með kynfræðslu fyrir ýmsa hópa og ég tók svo masterinn í kynfræði í Bandaríkjunum.“

Indíana er sjálfstætt starfandi við alls kyns fræðslustarfsemi og heldur alls kyns námskeið.

En hvaða fræðslu er almenningur að kalla eftir?

Indíana segir erfitt að gefa einfalt svar við því.

„Það er allt milli himins og jarðar. Það er gríðarlegt ákall eftir aukinni kynfræðslu. Ég er mikið í skólum, bæði að kenna starfsfólki og nemendum, og sums staðar er þetta afar vel gert. Yfirleitt er það vegna þess að einhver kennari hefur brennandi áhuga á kynfræðslu og er búinn að kynna sér hana.“

Indíana og Isy, samnemandi hennar, að föndra píkur úr leir í kynfræðináminu.

Fræðslan er happ og glapp

„Við kynfræðingar erum viðbót við þá takmörkuðu kennslu sem er nú þegar í skólum. Og það er bara happ og glapp hvort kennarar taka sjálfir upp á því að kynna sér málið betur. Og því miður vantar þekkingu til kennslu í kynfræði í fjölda skóla og fræðslu því ábótavant.“

Indíana segir mikinn vilja meðal kennara til að gera vel en þeir hafi meira en nóg á sinni könnu. Það sé varla hægt að ætlast til þess að þeir auki við sig þekkingu, launalaust, í frítíma sínum.

Sama megi segja um foreldra, Indíana segist sjá mikinn og skýran vilja til að fræða börn meira en nú er gert.

Mikilvægast að vera „eðlilegur“

Indíana vinnur mikið með börnum og unglingum, bæði á miðstigi, í fimmta til sjöunda bekk, svo og á unglingastigi, í áttunda til níunda bekk.

Hvað brennur helst á þeim?

„Þau vilja oft fá nákvæmar leiðbeiningar um hvað þau eigi að gera. En það er auðvitað ekki það sem við erum að gera í kynfræðslunni, segir Indíana og hlær. „Þau vilja vita hvort þau séu „eðlileg“. Þau spyrja oft líka persónulegra spurninga eins og hvað ég sé búin að sofa hjá mörgum en ég svara ekki persónulegum spurningum, enda ekkert fræðslugildi í slíku.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

Hún segist samt skilja vel af hverju þau spyrji. „Ef Indíana er búin að sofa hjá x mörgum hlýtur það að vera eðlilegt. Þau eru mikið að velta öllu fyrir sér og hvað sé eðlilegt. Ungmenni þrá fátt meira en að vera „eðlileg“ og samþykkt af hópnum, þá jafnvel til dæmis um hversu mörgum er „eðlilegt“ að sofa hjá.“

Indíana leggur áherslu á að skýra yfir unglingunum að ekki sé til neitt sem kalla megi eðlilegt í þeim fjölda. Sumir kjósi að sofa hjá einum aðila en aðrir hjá mörgun. „Hvorttveggja er allt í góðu svo lengi sem öllum líður vel, allir eru samþykkir og fyllsta öryggis gætt.“

Klámið

Aðspurð um hvort að klám hafi áhrif á krakkana segir Indíana það tvímælalaust.

„Þau með eru símann alla daga og þar er gríðarlegt framboð kláms, jafnvel þótt þau séu ekki að leita að því.  Margir átta sig ekki á aðgenginu í dag. Og þetta hefur verið afar hröð þróun. Og vegna skorts á kennslu er hætta á að krakkar telji kynlíf í klámmyndum eðlilegt og eins og kynlíf eigi að vera.“

Hún segir klám er aftur á móti afþreyingar- og skemmtiefni fyrir fullorðna, ekki fræðsluefni fyrir börn og ungmenni.

„Þetta efni er framleitt og klippt og gefur ekki alltaf raunhæfa mynd af kynlífi, líkt og margt annað sjónvarpsefni. Í myndböndunum sést því ekki hvaða umræður hafa farið fram um samþykki og mörk, hvort notaðar séu getnaðarvarnir eða hvort fólkið búið að láta kanna með hvort það sé með kynsjúkdóma.“

Indíana Rós Mynd/Sunna Ben

Indíana segist líka oft fá spurningar um stellingar í kynfræðslunni og það sé merki um að ungmenni átti sig jafnvel ekki alveg á hvernig raunverulegt kynlíf er, ólíkt því sem þau sjá í afþreyingarefni. „Það eru fæstir að skipta fimmtíu sinnum um stellingar í raunverulegu kynlífi, þótt það sé auðvitað mismikið eftir einstaklingum, en ég ítreka við þau að klámið sé ekki raunveruleikinn og það þarf klárlega meiri fræðslu um það.“

Engar kynfæravörtur í leikskóla

Hvað eigum við sem samfélag að gera til að bæta hlutina?

Indíana segir að það eigi að byrja kynfræðslu  í leikskóla. Það sé aftur á móti mikill misskilningur í samfélaginu um hvað kynfræðsla sé fyrir þetta ung börn.

„Ég er ekki að ræða getnaðarvarnir eða stellingar við leikskólabörn,“ segir Indíana og hristir höfuðið brosandi. Enda móðir þriggja ára drengs.

„Eins og umræðan vill oft vera, að kynfræðsla eigi ekkert erindi inn í leikskóla, þá er eins sumt fólk haldi að það eigi að fara að sýna börnum kynfæravörtur eða myndband af fæðingu. En það er ekkert sem á erindi til barna á þessum aldri.“

Hjónin Kristófer og Indíana með synin Hilmi og Erni í nafnaveislu Ernis litla.

Indíana kennir yngstu börnunum helstu atriði um líkamann og hvað líkamspartar heita.

„Ég kenni hvaða svæði barnið eigi og enginn annar megi leika við þau svæði, bara það sjálft. Ég tala líka um fjölskyldur og fjölbreytileika þeirra en ólíkt því sem margir halda mæti ég ekki með smokk og set á agúrku. Það þarf að miða alla kennslu við aldur og þroska.“

Hvað er já og hvað er nei?

Indíana vill að menntamálayfirvöld setji reglulega kynfræðslu, þvert á fög, inn í námskrá í stað þess að það sé kannski einn dagur í níunda bekk tekinn undir kynfræðslu.

„Hvað ef unglingurinn var veikur akkúrat daginn þegar kynfræðsla var í boði?“

Nýlega var viðtal í DV við Gísla Rafn Ólafsson þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að sé kynfræðsla hafin fyrr og gerð öflugri, sé það veigamikill þáttur í að koma í veg fyrir kynferðisbrot í samfélaginu.

Indíana er sammála. „Ég man að fyrir um það bil tíu árum var einhver herferð i gangi um að fá já. En hvað er já? Það er hægt að hóta og kúga til að fá já. Og herferðin nei þýðir nei? Samþykki er samtal um mörk og við þurfum að kenna unglingunum að eiga það samtal. Samþykki er flókið hugtak og ekki bara spurning um já eða nei. Það er hægt að vera samþykkur samförum en vilja ekki láta klípa sig í brjóst. Eða öfugt.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink.

Engin grá svæði

Hún segir of mikið pælt í „gráu svæðunum“ sem hún segir klárt nei við.

„Ef börn og unglingar, og reyndar allir, fá rétta fræðslu um samþykki og mörk, hvernig það lítur í raunverulega út í kynlífi, og að samþykki er ávallt frjálslega gefið eru engin grá svæði. Sem dæmi má nefna kynlíf ef annar aðilinn er drukkinn.

Svarið er einfalt. Ef viðkomandi er það ölvaður eða undir slíkum áhrifum að geta ekki tjáð sig? Þá er engin spurning um að það eigi ekki að stunda kynlíf. Þar sem meðvitundin er skert, þar sem þú ert ekki fær um að veita né fá samþykki undir allt of miklum áhrifum.“

Í góðu lagi að gúggla

En fullorðna fólkið, hvað vill það vita?

Indíana segist vinna mikið með foreldrum sem finnist erfitt að taka umræðuna um kynlíf með börnum sínum. „Hvað á ég að tala um? Hvernig á ég að svara? Þarf ég að tala um eigin kynlíf? Fólk veit ekki hvað það á að segja og er hrætt um að segja einhverja vitleysu og það stoppar foreldra oft af. “

Indíana Rós með kynfræðslu á hinsegin dögum árið 2019, gengin 37 vikur með sitt fyrsta

Hún segir að valdefla þurfi foreldra.

„Þau mega segja börnunum að þau viti ekki svörin og það er meira en allt í lagi að gúggla bara hlutina. Sjálf veit ég ekki svör við öllu en þá tek ég bara upp símann og leita mér upplýsinga. Við fullorðna fólkið getum líka betur filterað út hvað eru réttar og gagnlegar upplýsingar í stað þess að opna bara fyrsta linkinn eins og unglingar gera frekar.“

Fræðsla en ekki hræðsla

Indíana segist oft sjá og heyra um, sérstaklega í skólum, að búið sé að loka fyrir ákveðnar rásir, til dæmis YouTube og/eða ákveðin orð porn (klám).

„En vilji einhver leita að fræðslu, til dæmis hvernig skuli fræða um klám eða útskýra það, er það þá læst og jafnvel ekki hægt að sýna gagnleg myndbönd. Það þýðir ekkert að loka einhverju dóti á netinu, krakkar finna alltaf leið til að ná það sem þau vilja og við viljum geta frekar átt samtalið við þau.“

Þó það sé klisjukennt að segja þá verðum við að muna að þetta er fræðsla en ekki hræðsla,“ segir Indíana ákveðin.  „Verum óhrædd við að taka samtalið.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

Grípa þarf boltann strax

Indíana er með námskeið fyrir starfsmenn félagsmiðstöðvanna í þeim tilgangi að gera fræðsluna sjálfbærari.

„Ég finn hvað starfsfólk félagsmiðstöðva er viljugt til fá aukna þekkingu og geta gert meira. Það þýðir ekkert að senda á mig póst þegar eitthvað kemur upp á í starfinu hjá þeim og ég er kannski ekki laus fyrr en eftir mánuð. Starfsfólkið, fólkið sem er með börnin okkar,  þarf að geta gripið boltann strax.“

Hún segir starfsfólkið oft geta meira en þau halda. „Oft eru þetta krakkar í háskólanámi og það er allt í lagi fyrir þau að vita ekki öll svör. En þau geta gúgglað og svarað krökkunum í framhaldi en eru kannski hrædd við það. Það vantar að valdefla starfsfólkið, fræða og leiðbeina, segja þeim að þau bæði geti og megi.“

Kynlífstækjabúðir ákveðin bylting

Indíana er vongóð um að þjóðfélagið sé á réttri leið.

„Kannski er það bara mín búbbla sem er mun opnari með þetta, því reglulega spretta kannski upp greinar eða samfélagsmiðlastatusar, svona leiðindakomment sem fordæma „allt þetta kynlífstal„ og finnst það óþægilegt. Maður sér oft frasann „ég þurfti nú ekki þessa fræðslu sem barn“, en væru þau ef til vill ekki betur sett ef svo hefði verið?

Ég horfi fram hjá þessu og get ekki annað en vonað að aðrir geri það líka.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

Indíana fagnar aukinni umræðu. „Kynlífstækin opnuðu til dæmis mjög mikið umræðuna um sjálfsfróun. Fólk talar oft frjálslega saman um sín uppáhaldstæki, ein vill sogtæki en annar kýs titrara, og það er bara allt í lagi.

Hún segir að netið og ekki síst kynlífstækjaverslanir hafi rofið ákveðna múra með að hefja almennilega kynningar á kynlífstækjum í heimahúsum. „Það var stórt skref stigið með því,“ segir Indíana.

Mikill munur á skólum

Indíana útskrifaðist 2020 og aðspurð hvað hafi komið henni mest á óvart við að hefja störf segir hún það vera þörfina. „Það er mun meiri þörf á fræðslu en ég átti von á,“ segir Indíana.

Hún nefnir aftur skólakerfið.

„Í einfeldni minni átti ég von á að það væri nokkurn vegin sama fræðsla í öllum skólum en það er langt frá því.  Það sem kom mér mest á óvart er hversu mikill munur er á skólum því kynfræðsla er ekki stöðluð þar sem hún er ekki kennd í kennaranámi. Ég fer stundum frá skóla þar sem krakkarnir eru afar vel upplýst og yfir í annan skóla þar sem þau vita varla neitt annað en þennan staðlaða grunn sem kenndur er í líffræði.“

Hún bætir við að kynfræðslu sé oft hent á unga, nýútskrifaða kennara sem séu engan veginn undirbúnir, allra síst þegar kemur að erfiðum málum eins og kynferðislegu ofbeldi.

Indiana Rós Mynd/Sunna Ben.

Erum allskonar

Hún bendir á að það séu til góða upplýsingar á netinu.

Hinsegin frá Ö til A er til dæmis frábær síða og gluggi um allt hinsegin og ég mæli alltaf með henni. Í okkar samfélagi eru allir gagnkynhneigðir og sís kynja þar til annað kemur í ljós. Við lifum í kynjatvíhyggjunni og fólki finnst óþægilegt að einhver passi ekki í einhver fyrir fram greind box.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

„Það er innbyggt í mannfólkið að flokka. Alltaf reynum við að setja allt í ákveðin box en ef við skoðum fólk betur áttum við okkur á að fæst við okkur passar í tvo flokka, svo af hverju ætti kyn, kyngervi, kyntjáning, kynhneigð allt í einu að gera það.

En við erum allskonar, og mér finnst frábært allar þessar skilgreiningar sem eru sífellt að koma því það getur hjálpað fólki að finna sig og sitt fólk og það er svo gott að finna sinn hóp.“

Sumir eiga erfitt með breytingar

Indíana bætir við að hún fari sátt að sofa þótt að einhver manneskja breyti sinni skilgreiningu, nafni eða fornafni.

„Enda er það ekki mitt mál, né neins annars nema viðkomandi. Það er bara okkar allra að samþykkja fólk eins og það er og styðja,“ segir hún og bætir við að stuðningur við hinsegin fólk getur verið mikilvæg sjálfsvígsforvörn og mótvægi gegn ofbeldi sem hinsegin fólk verður því miður fyrir.“

Sumir eiga samt erfitt með þessa breytingu og heyrir hún það reglulega.

„Þeir eru til sem skilja ekki hvernig þessi nýju fornöfn, t.d hán, er notað, af hverju þurfi fólk nú að vera  „að þessu“ og hvort það þurfi nú allar þessar skilgreiningar, en oftar en ekki vantar þennan hóp einmitt fræðslu eða smá spjall og stuðning, þar sem þau fá aðeins að skoða af hverju þeim finnist þessar breytingar óþægilegar, og bara grunnfræðslu í hinsegin málefnum.“

Indíana Rós Ægisdóttir Mynd/Anton Brink

Kynlíf á að vera skemmtilegt

Indíana segir nauðsynlegt að setja fjármagn í málaflokkinn og kallar eftir alvöru áhuga á breytingum. „Það er ekki nóg að kalla á mig einu sinni með grunnfræðslu þar sem ég fer yfir það helsta á 80-90 mínútum auk þess að svara spurningum sem eru allskonar. Þau vilja vita um tíðahringinn, smokka, hinsegin heiminn…“

Indíana segir að við þurfum að þora að leyfa okkur að taka samtalið.

„Við megum aldrei nota hræðsluáróður, kynlíf á að vera gott og skemmtilegt og við eigum að fókusa á kynlífsánægju og vellíðan. Því þá erum við komin að umræðunni um samþykki og mörk, því vellíðan og ánægja eru samtengd samþykki og mörkum.“

Hjálpum okkur sjálfum að til að gefa börnunum okkar þau svör sem þau kalla eftir því. Þau brenna af löngun eftir upplýsingum,“ segir Indíana Rós Ægisdóttir. kynfræðingur.

Það má finna nánari upplýsingar á heimasíðu Indíönu Rósar svo og á Instagram síðu hennar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“