fbpx
Föstudagur 05.júlí 2024
Fókus

Síðasta árásin var á 19 ára afmælisdaginn – „Ég er með tannafarið hans fast í kinninni, hann beit mig svo fast“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 27. október 2022 12:12

Kamilla Ívarsdóttir. Aðsendar myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kamilla Ívarsdóttir er tvítug kona í blóma lífsins en þrátt fyrir ungan aldur hefur hún gengið í gegnum meira en flest okkar gerum á lífsleiðinni.

Frá fjórtán ára aldri þurfti hún að þola gróft ofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta síns. Þegar hún var sautján ára réðst hann svo hrottalega á hana að málið var rannsakað í fyrstu sem tilraun til manndráps. Hún hefur kært hann fyrir nokkrar árásir og á enn eftir að dæma í sumum málunum. Kamilla steig hugrökk fram á sínum tíma og vöktu myndir af áverkum og saga hennar óhug hjá þjóðinni.

Í október voru þrjú ár liðin frá árásinni og segist Kamilla vera þakklát fyrir á hvaða stað hún er komin á í dag en segir að dagar hennar einkennist þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og hræðslu. Hún er með sterkt stuðningsnet og telur sig mjög heppna með fólkið í kringum hana, sérstaklega fjölskylduna.

Á að losna úr fangelsi í næsta mánuði

Í samtali við DV segir Kamilla að hún sé að bíða eftir að komast í endurhæfingu og að dagamunur sé á líðan hennar. „Það er allt svona upp og niður hjá mér. Það er rosalega erfitt að gera plön því ég veit ekki hvernig ég verð. Svo er hann að fara að losna úr fangelsi í næsta mánuði,“ segir hún.

„Lögreglan kærði hann fyrir október árásina árið 2019, því ég var bara sautján ára og hafði ekkert um það að segja en ég er mjög þakklát fyrir það í dag,“ segir hún.

Sjá nánar: „Hann hélt hníf upp við hálsinn á mér“ og sagðist ætla að „Drepa fjölskylduna mína og mig“

Myndir af áverkum Kamillu vöktu mikinn óhug. Mynd/Instagram

Sjá einnig: Guðmundur Elís braut gegn fleiri konum – Óhugnanlegar lýsingar í Kastljósi og langur afbrotaferill

Sat aðeins inni í fimm mánuði

Fyrrverandi kærasti og ofbeldismaður Kamillu er Guðmundur Elís Sigurvinsson. Hann á að baki langan feril ofbeldisbrota gegn konum.

Umrædd árás átti sér stað 19. október 2019 og var í fyrstu rannsökuð sem tilraun til manndráps. Sama dag var hann  úrskurðaður í gæsluvarðhald og þann 23. október var honum gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði – sem hann braut margsinnis með því að hafa samband við Kamillu 122 sinnum á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði.

Sjá einnig: Ofbeldismaðurinn Guðmundur Elís grunaður um kynferðisbrot í Eyjum – „Það sýður á mér, af hverju er honum sleppt aftur og aftur?“

Í mars 2020 var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir gróf ofbeldisbrot en sat aðeins inni í fimm mánuði. Hann gekk laus um á skilorði þegar hann braut hann kynferðislega á konu í Vestmannaeyjum og var í kjölfarið fluttur á fangelsið á Hólmsheiði þar sem hann er að afplána fyrri dóm.

Það á enn eftir að dæma í öðrum málum

„Það er ekki búið að dæma ennþá úr held ég þremur eða fjórum málum hjá mér,“ segir Kamilla.

„Ég á von á tilkynningu um að mæta fyrir dóm bráðum. Allt í einu núna er verið að reyna að gera eitthvað í þessu til að halda honum lengur í fangelsi, þannig að núna er verið að reyna að drífa í þessu en ég er ekki búin að heyra neitt í lögreglunni í eitt og hálft ár.“

Kamilla segir það hafa mjög hamlandi áhrif á hennar daglega líf að vera í þessari óvissu, vita ekki hvort hún sé kannski að fara að mæta honum úti á götu eftir mánuð.

„Einnig að þurfa alltaf að rifja upp aftur og aftur hvað gerðist. Ég þarf núna að mæta í aðra skýrslutöku því hann er að segja eitthvað,“ segir hún.

Meðal brotanna sem Kamilla er að kæra hann fyrir er nauðgun. „Hann tók myndband af því sjálfur. Hann er held ég að neita fyrir það, þannig ég þarf að mæta í aðra skýrslutöku til að rifja þetta allt aftur upp og segja þeim hvort hann sé að ljúga, því í rauninni er þetta bara orð gegn orði. Það er fáránlegt að ég þurfi að rifja aftur og aftur upp, ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að gera það. En ég er núna með mjög góða rannsóknarlögreglu í málinu mínu,“ segir hún vongóð.

Kamilla Ívarsóttir. Aðsend mynd.

Mikil meðvirkni

Undanfarið hefur verið aukin umræða um ofbeldi í nánum samböndum og hversu erfitt það er fyrir þolendur að fara frá ofbeldismönnum, flestir snúa aftur og tekur það að meðaltali sjö til átta skipti að fara alveg frá þeim.

Eftir að Kamilla steig fram, sagði sögu sína og kærði hann, sneri hún aftur til hans. Hún þekkir það því vel af eigin raun hversu erfitt það getur verið fyrir þolendur að fara.

„Ég hélt að ef ég myndi opna mig með þetta þá yrði það erfiðara fyrir mig að fara aftur til hans. Ég hélt alveg að það myndi vera þannig en svo var hann með svo rosalegt tak á mér,“ segir hún.

„Náttúrulega þegar ég fór til baka til hans, þá var þetta rosalega mikil meðvirkni,“ segir Kamilla og bætir við að hún hafði verið í sambandi með honum síðan hún var fjórtán ára gömul.

„Svo allt í einu er okkur stíað í sundur. Það var ógeðslega erfitt. Ég var sautján ára og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég var búin að vera með honum í mörg ár og allt í einu var ég uppi á spítala og hann í fangelsi. Þannig um leið og hann losnaði þá byrjaði hann að hringja og hringja í mig. Hann hringdi líka í mig úr fangelsinu,“ segir hún.

„Þá jókst meðvirknin svo mikið og ég þorði líka ekki öðru en að svara. Það er svo mikil hræðsla, ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta en manni finnst maður vera að verja sig með því að svara, því ef maður svarar ekki þá klikkast hann.“

DV ræddi nýlega við Lindu Dröfn Gunnardóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, um hvers vegna konur fara aftur til ofbeldismanna sinna.

Hótaði að drepa fjölskyldu hennar

Kamilla var hrædd við hann. Hún óttaðist ekki aðeins um eigið öryggi heldur líka öryggi fjölskyldu sinnar.

„Eins og þegar ég fór frá honum eftir fyrsta skiptið sem ég fór til hans aftur, þá mætti hann bara fyrir utan húsið mitt og sendi mér mynd af því og sagði að ef ég myndi ekki koma út núna myndi hann koma inn og drepa alla fjölskylduna mína. Og það var alltaf eitthvað svoleiðis,“ segir hún.

„Ofbeldismenn stjórna manni svo ógeðslega mikið að það skiptir ekki máli hvað þeir segja, þú gerir bara það sem þeir segja. Eins og þegar ég var með honum þá fór ég ekki út úr húsi því hann bannaði mér það. Ég fór ekki á menntaskólaböll því ég mátti það ekki, ég mátti ekki neitt. Ég skildi oft símann minn eftir heima til að láta hann halda að ég væri sofandi því ég vildi kíkja út á rúntinn með vinkonum mínum.“

Með sterkt stuðningsnet

Kamilla segist heppin með fólkið í kringum sig og er þakklát fyrir skilninginn sem hún fær frá fjölskyldu sinni.

„Fólkið í kringum mig skilur kannski ekki hvað ég er að ganga í gegnum en það reynir að skilja. Eins og fjölskylda mín er ekkert smá skilningsrík. Ég sef mjög mikið á daginn því ég á mjög erfitt með að sofa á næturnar. Svo mikil hræðsla og þannig. Mamma vinnur heima og mér finnst betra að hafa hana hjá mér, þá sef ég betur,“ segir hún.

Eins og fyrr segir vöktu myndir af áverkum hennar óhug hjá þjóðinni. Aðspurð hvernig það hafi verið að ganga í gegnum erfiðasta tímabil lífs hennar fyrir framan alþjóð viðurkennir hún að það hafi verið mjög erfitt. Hún lenti stundum í því að fólk spurði hana út í þetta á djamminu þegar hún var að reyna að skemmta sér með vinum sínum.

„En síðan verð ég að átta mig á því að ég tók ákvörðun um að opna mig um þetta, þannig ég verð að taka spurningum opnum örmum. Ég tók ákvörðun að gera þetta því að hann hafði verið að beita  mig ofbeldi síðan ég var fjórtán ára. Ég var búin að fela þetta ótrúlega lengi. Ég kom heim kannski með glóðurauga og sagðist hafa rekist í bílhurð, eða sagði að stelpa hefði hoppað upp og óvart skallað mig á balli þegar hann nefbraut mig og ég var með smá glóðurauga undir báðum augum,“ segir Kamilla.

„Ég var orðin góð að ljúga mig út úr þessu. Ég veit að mamma og pabbi hafa verið mjög reið út í sig sjálf fyrir að hafa trúað mér. En samt einhvern veginn var á bak við eyrað þeirra að ég væri ekki að segja satt. Mig bara langaði að opna mig með þetta því skömmin var aldrei mín og þetta var komið gott.“

Síðasta árásin á 19 ára afmælisdaginn

„Ég er búin að vera laus við hann í tvö ár í janúar næstkomandi. Ég fór frá honum á nítján ára afmælisdaginn minn, þá réðst hann á mig í síðasta skiptið,“ segir hún og lýsir atvikinu.

„Við vorum í bústað og hann læsti mig inni í herbergi, það var meira að segja fólk frammi en hann stjórnaði tónlistinni í hátalaranum og hækkaði í botn svo enginn myndi heyra,“ segir hún.

Eftir barsmíðarnar samþykkti hann að hleypa henni út úr herberginu. „En ég átti að fela andlitið, ég átti að mála yfir áverkana en hann var búinn að klóra allt andlitið mitt og bíta mig til blóðs í kinnina. Ég er með tannafarið hans fast í kinninni minni, hann beit mig svo fast.“

Kamilla sagðist ætla að fela áverkana og fór fram. „Ég sýndi stelpu sem var þarna og við fórum öll úr bústaðnum og skildum hann eftir. Vinkonur mínar náði í mig í Hveragerði og fóru með mig upp á spítala, en vinkona mín mátti ekki koma með mér inn og þetta voru svona aðstæður þar sem ég vildi ekki vera ein. Þannig ég fór bara heim og konan á spítalanum sagði mér að koma aftur næsta dag, en það er ekkert svoleiðis þegar það er svona ástand. Maður mætir ef maður mætir og maður er ekki að fara að koma aftur eftir að manni er vísað í burtu.“

„Gott að vera ein og fá að huga aðeins um mig“

Í dag finnst Kamillu gott að vera ein „Mig langar ekkert í samband á næstunni eða neitt svoleiðis. Mér finnst mjög gott að vera ein og fá að hugsa aðeins um mig,“ segir hún.

„Ég er endalaust þakklát fyrir hvert ég er komin á þessum þremur árum, þótt flestir dagar séu ennþá mjög erfiðir, mikill kvíði, þunglyndi, áfallastreituröskun og hræðsla. Ég er svo heppin með fólkið í kringum mig og sérstaklega fjölskylduna mína.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hawk Tuah“ Hailey ætlar að nýta sér óvænta frægð vel – Gefur lítið fyrir kjaftasögurnar í sínu fyrsta viðtali

„Hawk Tuah“ Hailey ætlar að nýta sér óvænta frægð vel – Gefur lítið fyrir kjaftasögurnar í sínu fyrsta viðtali
Fókus
Fyrir 2 dögum

Súkkulaðidrengurinn svarar fyrir tígrisdýrsmyndbandið og dýraníð – „Ég ætla ekki að fara að afsaka þetta“

Súkkulaðidrengurinn svarar fyrir tígrisdýrsmyndbandið og dýraníð – „Ég ætla ekki að fara að afsaka þetta“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er búin að horfa milljón sinnum á fallega lagið sem þú samdir til mín“

„Ég er búin að horfa milljón sinnum á fallega lagið sem þú samdir til mín“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eva var send heim af bráðamóttökunni með laxerolíu – „Það hvarflaði ekki að neinum að ég væri með krabbamein“

Eva var send heim af bráðamóttökunni með laxerolíu – „Það hvarflaði ekki að neinum að ég væri með krabbamein“