Þetta byrjaði allt á því að eigandi veitingastaðarins Balthazar í New York sagði að Corden hefði verið bannaður á staðnum fyrir að hafa sýnt starfsfólki yfirgengilegan dónaskap. Eigandinn, Keith McNally, nefndi tvö atvik og sagði spjallþáttastjórnandann vera dónalegasta viðskiptavin sem hann hafi afgreitt á ferli sínum.
Á föstudaginn síðastliðinn tjáði Corden sig um málið í viðtali við The New York Times og sagðist ekki hafa „gert neitt rangt, ekki með nokkrum hætti.“
En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Hann baðst afsökunar opinberlega í The Late Late Show í gær og viðurkenndi að hann hefði gert mistök.
Corden baðst afsökunar á „dónalegri athugasemd“ við þjón. Hann sagðist hafa sagt þetta „í hita leiksins“ eftir að þjónninn kom með rétt á borðið sem eiginkona hans hefur ofnæmi fyrir.
„Ég öskraði ekki. Ég stóð ekki upp úr sætinu. Ég hvorki uppnefndi starfsfólkið né notaði niðrandi orð. Ég hef hingað til haldið að ég hafi ekki gert neitt rangt. En sannleikurinn er annar. Ég gerði dónalega athugasemd og það var rangt af mér,“ sagði hann.
„Ég sagði eitthvað kaldhæðnislegt og dónalegt um að að elda þetta sjálfur […] Þetta var óþarfa athugasemd og það var ókurteisi gagnvart þjóninum.“
Corden hrósaði veitingastaðnum. „Ég elska [Balthazar], maturinn, stemningin, þjónustan,“ sagði hann.