Rúmlega sex þúsund manns greiddu aðgangseyri á nýjustu kvikmynd Dwayne Johnson, Black Adam, nú um helgina sem skilaði henni á topp íslenska bíóaðsóknarlistans, en myndin, þar sem stórstjarnan Dwayne Johnson bregður sér í gervi ofurhetjunnar Black Adam, var frumsýnd á föstudaginn.
Tekjur myndarinnar voru ríflega tíu milljónir króna. Tekjur myndarinnar í öðru sæti, Kalli káti krókódíll, sem einnig er ný í bíó, námu til samanburðar rúmum þremur milljónum króna og gestir voru 2.402.
Í þriðja sæti er fyrrum toppmyndin Smile, með tæpar tvær milljónir í aðgangseyri. Heildartekjur myndarinnar frá frumsýningu nema 28,5 milljónum.
Heildartekjur af miðasölu í bíó samtals um helgina námu nálægt sextán milljónum króna.
Vinsældir Black Adam eru ekki bundnar við Ísland. Í Bandaríkjunum námu tekjur myndarinnar á frumsýningarhelginni um 77 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum tíu milljörðum króna. Það þýðir að heildarmiðasala í Bandaríkjunum er aftur komin yfir eitt hundrað milljónir dala, en salan náði þeim hæðum síðast fyrir tólf vikum síðan.
Tekjur Black Adam þýða að myndin er næst tekjuhæsta kvikmynd Dwayne Johnson á frumsýningarhelgi á ferlinum, næst á eftir The Mummy Returns, sem rakaði inn 68 milljónum dala á frumsýningarhelginni.
Á kvikmyndavef DV er hægt að skoða lista yfir tekjuhæstu myndir vikunnar á Íslandi