Spjallþáttastjórnandinn James Corden var tekinn á teppið á dögunum af eiganda veitingastaðarins Balthazar, Keith McNally, sem sagði James vera dónalegasta viðskiptavin sem hann hafi lent í á ferli sínum. Keith tilkynnti þetta opinberlega og greindi jafnframt frá því að James væri kominn í bann frá Balthazar.
Sakaði Keith James meðal annars um að hafa ítrekað verið með yfirgang og dónaskap. Keith greindi svo í framhaldinu frá því að James hefði haft samband og beðist afsökunar, og væri hann því ekki lengur í banni. Til þessa hefur James ekki tjáð sig opinberlega um málið.
Hann opnar sig nú í viðtali við The New York Times
„Ég hef ekki gert neitt rangt, ekki með nokkrum hætti, svo hvers vegna myndi ég hætta við þetta viðtal. Ég var þarna. Ég næ þessu. Ég er frekar zen [rólegur] yfir þessu öllu því mér finnst þetta kjánalegt.“
Blaðamaður New York Times og James hittust á veitingastað, reyndar ekki á Balthazar, heldur öðrum. Á meðan á viðtalinu stóð sá James útundan sér hvar annar viðskiptavinur sendi egg sem hann hafði pantað aftur inn í eldhús -greinilega ósáttur. Þá sagði James við blaðamann:
„Geturðu ímyndað þér ef ég myndi bara taka þessa manneskju af lífi á Twitter. Væri það sanngjarnt,“ spurði James.
„Þetta er það sem ég meina. Þetta er galið.“