Sýningin Ljóð fyrir augað verður opnuð í Hafnarfirði í dag kl. 18 í Litla Gallrý við Strandgötu 19.
Sýningin „Ljóð fyrir augað“ er samvinnuverkefni myndlistarkonunnar Sossu, Margrétar Björnsdóttur, og ljóðskáldsins Antons Helga Jónssonar. Sossa og Anton Helgi hafa þekkst lengi og brallað margt; hún hefur málað myndir undir áhrifum frá ljóðum hans og hann hefur ort út frá myndum hennar. Á sýningunni „Ljóð fyrir augað“ eru verk sem hafa verið silkiprentuð á grafíkpappír og síðan fengið sér til fulltingis áþrykkta mynd og litríkar pensilstrokur.
Verkin á sýningunni eru unnin þannig að fyrst er ljóð silkiprentað á vandaðan grafíkpappir sem síðan er settur í pressu og þar þrykktur í hann rammi. Eftir það fer pappírinn aftur í pressuna og þá er þrykkt á hann mynd sem Sossa hefur rist í plötu. Hún fer síðan yfir myndina með pensli og litum. Sum ljóð geta verið prentuð í nokkrum eintökum en hvert verk er þó einstakt því engar myndir verða nákvæmlega eins. Ljóðin eru m.a. fengin úr Þykjustuleikunum, nýjasta verki skáldsins, en nokkur hafa þó aldrei birst í bók.
Markmiðið með verkefninu er að kanna nýja möguleika í listinni, láta reyna á samspil myndlistar og orða og spyrja: Getur ljóð lifað fyrir utan hið verndaða umhverfi bókarinnar? Geta grafíktækni og pensilstrokur hjálpað til við að gera ljóðið sjálft, form þess útlit að augnayndi?
Sossa nam við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, en fór í framhaldsnám til Danmerkur og seinna til Bandaríkjanna. Hún hefur haldið fjölda sýninga, bæði hér á landi og erlendis. Vefurinn sossa.is hefur að geymda meiri upplýsingar um verk hennar.
Anton Helgi Jónsson hefur í gegnum tíðina hlotið ýmiss verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, síðast Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar sem voru veitt í lok ágúst 2022. Á vefnum anton.is er hægt að lesa mikið af verkum skáldsins.