Guðjón Heiðar Valgarðsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Guðjón, sem hefur orðið eins konar andlit samsæriskenninga á Íslandi, segist hafa verið mjög hefðbundinn í skoðunum langt fram eftir aldri.
Hins vegar varð kúvending eftir atburðina 11. september 2001. Guðjón man vel eftir því hvað það var sem fékk hann til að breytast:
,,Ég var að spila á tónleikum á Menningarnótt og á Austurvelli var einhver náungi að dreifa DVD mynddiskum sem hétu „Confronting the evidence” og fjölluðu um 11. september. Ég tók hjá honum disk og hugsaði með mér að ég væri til í að gefa þessu séns. Svo fór ég á svaka fyllerí, sem endaði með því að ég og félagi minn vorum vaktir af 5 lögreglumönnum af því að hann hafði lagt bílnum sínum uppi á túni hjá lögreglustöðinni við Hlemm. Þannig að bíllykillin var tekinn af honum og við urðum að rölta heim til mín og ákváðum að horfa saman á þessa mynd. Ég var í sjokki eftir hana og fannst það sem sett var þar fram vera hafið yfir allan vafa í mörgum tilvikum. Eftir þetta gat ég ekki lokað augunum lengur.”
Andlit samsæriskenninga á Íslandi
Guðjón hefur lengi verið eins konar andlit samsæriskenninga á Íslandi. Hann segist orðinn vanur því að fólk sé ósammála sér, enda oft með skoðanir sem ganga mjög gegn meirihlutanum:
,,Ég hef þróað með mér þykkan skráp í gegnum tíðina og er hættur að taka það inn á mig ef fólk er ósátt við skoðanir mínar. Alveg síðan ég fór í nokkur viðtöl í Harmageddon fyrir löngu síðan hef ég vanist því að fólk sé ósammála mér,“ segir Guðjón Heiðar, sem lýsir því hvenær hann tók fyrst mjög sterka afstöðu opinberlega og tjáði sig harkalega:
Varð brjálaður í viðtali
,,Þetta byrjaði líklega þegar árásin í Sýrlandi var í gangi og ég fór í viðtal í Harmageddon. Það hafði verið einhver frétt þarna um morguninn á forsíðu Fréttablaðsins um að Assad hafi verið að festa börn á skriðdrekana sína til að það yrði ekki skotið á þá. Mér fannst þetta svo öfgafull lygasaga að ég átti ekki til orð. Máni spurði mig út í fréttina og hvort ég væri til í að tala um hana. Ég sagðist alveg vera til í það, en sagði honum að ég kæmi til með að vera brjálaður og svo ákvað ég að vera brjálaður í þessu viðtali. Þannig að það var á einhvern hátt meðvituð ákvörðun hjá mér. Ég var búinn að mæta í nokkur önnur viðtöl að tala um Sýrland, en enginn sýndi því áhuga. Ég öskraði í símann í þessu viðtali og var alveg brjálaður og ég gekk mjög langt. Þetta vakti mikla athygli og flestir sögðu það sama: ,,Þú hefur alveg eitthvað til þíns máls, en af hverju varstu ekki rólegri?”. Þá benti ég fólki á að ég væri búinn að reyna það, en enginn hefði tekið eftir því.”
Í þættinum ræða Sölvi og Heiðar um 11. september, Jeffrey Epstein og margt fleira sem Guðjón hefur sterkar skoðanir á. Hægt er að nálgast viðtalið við Guðjón Heiðar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is