Íslenska klámstjarnan Birta Blanco er fjölkær (e. polyamorous) og á nokkra maka. Ár er liðið síðan hún byrjaði í sínu fyrsta fjölkæra sambandi. Hún segist ekki vita hvort hún verði í slíkum samböndum alla ævi en hún lítur á lífið eins og rennandi vatn og fylgir straumnum hverju sinni.
Í apríl greindi Birta frá því í hlaðvarpsþættinum Lifa og njóta að hún ætti sex maka. „Ég er að deita tvö pör, svo er ég að deita tvo karlmenn,“ sagði hún á sínum tíma.
DV sló þráðinn til Birtu til að spyrjast fyrir um ástarlíf hennar í dag, hvort henni þykir umræðan í samfélaginu hafa breyst gagnvart fjölkæru fólki og hvernig hátíðunum er háttað með marga maka.
„Ég er enn með fjórum af sex mökunum. Það gekk ekki með tveimur,“ segir hún og bætir við að hún sé enn með báðum pörunum.
Aðspurð hvort það sé auðveldara að vera með pari heldur en einstaklingi segir hún það mjög persónubundið.
„Það skiptir í rauninni ekki máli þannig séð. Þetta er voðalega persónubundið. Þetta snýst um hugsunarhátt, traust og heiðarleika í rauninni bara,“ segir hún.
Þrátt fyrir að vera tæknilega séð „þriðji aðilinn“ í tveimur samböndum segist hún ekki upplifa sig utangarðs. „Alls ekki. Mér líður eins og ég sé mjög mikill partur af þeim,“ segir hún.
Hvernig er að ganga í gegnum sambandsslit og ástarsorg þegar þú átt aðra maka?
„Það er miklu meiri stuðningur í rauninni,“ segir hún.
View this post on Instagram
Birta framleiðir og selur erótískt efni fyrir OnlyFans og heldur einnig úti vinsælli Instagram síðu. Hún býður fylgjendum á samfélagsmiðlinum reglulega að spyrja sig alls konar spurninga og segir að algengustu spurningarnar snúa að afbrýðisemi.
Margir segja að þeir gætu ekki verið fjölkærir því þeir yrðu of afbrýðisamir.
„Það sem mér finnst persónulega þegar fólk segir þetta, er að fólk sé ekki tilbúið að vinna í sér. Auðvitað verða allir afbrýðisamir og það er mjög eðlileg tilfinning. En mér finnst fólk stoppa þar og gera það að sínum stoppara í lífinu. Af því að það er hægt að vinna með þetta en mér finnst fólk gera afbrýðisemi að einhverju persónueinkenni. Sem er náttúrulega bara glatað, það bitnar bara á þeim sem eru þannig. Ég var alveg föst í afbrýðisemi í mörg ár. Mér leið bara ekki vel þannig og áttaði mig á að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að vinna í.“
Hvernig tekst þú á við afbrýðisemi?
„Þetta er mjög erfið spurning,“ segir hún og hlær.
„Það náttúrulega skiptir máli að makarnir manns séu fólk sem þú getur treyst og þeir séu heilir í hausnum. Því það eru ekkert ógeðslega margir heilir í hausnum í dag,“ segir hún kímin.
„Yfirleitt þegar það kemur einhver svona afbrýðisemi upp hjá mér þá tala ég við makana mína og þeir hughreysta mig. Svo er það náttúrulega á mér að trúa og treysta því sem þeir segja og ef ég geri það ekki hugsa ég hvað er það í mínum haus eða minni fortíð sem gerir mér ókleift að treysta akkúrat núna.“
Þegar makar Birtu finna fyrir afbrýðisemi gerir hún slíkt hið sama, hughreystir þá en skoðar einnig hvort það sé eitthvað í hennar fari sem hún þarf að breyta.
„Það geta allir gert mistök líka, hlutir koma upp á og þá þarf maður að bíta í það súra epli og leiðrétta hegðunina.“
Birta segir fjölkær sambönd vera eins og venjuleg sambönd, vandamál komi upp sem þarf að leysa.
Hvað er að vera fjölmettuð (e. poly saturated)?
„Það er þegar ég er með of mikið af mökum og er ekki að leita að neinu öðru,“ segir Birta.
Aðspurð hvort það sé hennar staða í dag svarar hún neitandi og segist opin fyrir því að kynnast nýju fólki. „Akkúrat núna er ég opin fyrir því. Ég væri til í „primary“ maka, mig langar að vakna með einhverjum á morgnanna,“ segir hún.
„En ég er ekkert að drífa mig, bara ekki neitt. Ég er með mína maka en þau eru með sitt eigið líf líka, sem ég ber fulla virðingu fyrir.“
Hittast pörin?
„Þetta eru aðskilin sambönd en ég veit að eitt parið er mjög opið fyrir því að hitta hitt parið, en við höfum ekki talað um það þannig séð mikið. Þetta ár er búið að vera stútfullt af alls konar ævintýrum þannig maður er ekki að setja þetta í einhvern forgang,“ segir hún.
View this post on Instagram
Birtu er reglulega boðið á stefnumót af fylgjendum sínum á Instagram.
„Ég samþykki það voða sjaldan. Það er mjög oft sem, karlmenn sérstaklega, vilja hitta mig. En það er aðallega út af því að ég er á OnlyFans. Mér finnst það bara svo ógeðslega mikil vanvirðing, að þeir haldi að ég sé bara til í tuskið með hverjum sem er bara út af þessari síðu. Ég hlæ af þessu í dag,“ segir hún.
Hverju leitar þú að í fari maka?
„Hreinskilni, að vera heill í hausnum. Ég get ekki mikið egó, sérstaklega hjá karlmönnum. Það bara fer í mínar fínustu og ég mun vera beygla á móti. Það er bara svoleiðis. Bara vertu almennilegur, talaðu við mig eins og ég sé jafningi. Eins og karlmenn eiga það til að útskýra eitthvað fyrir okkur sem við vitum fullvel,“ segir hún og bætir hlæjandi við:
„Bara ekki vera dick, það er svo ótrúlega einfalt.“
„Mér finnst umræðan vera orðin miklu meiri, sem mér finnst geggjað. En svo er líka eins og þetta sé að verða að einhverju trendi og ég vil það ekki heldur,“ segir Birta.
„Ef fólk vill prófa þetta, þá er þetta að fara að hjálpa með eins og afbrýðisemi og alls konar tilfinningum. Kannski ekki 100 prósent en þetta hjálpar samt sem áður.“
„Ég veit ekkert hvort ég verð fjölkær allt mitt líf en ég lít svo á að lífið sé flæðandi afl og ég fylgi straumnum. Eins og með OnlyFans, ég er ekki að fara að vinna við það þar til ég fer á eftirlaun en það gerir mig hamingjusama akkúrat núna,“ segir hún.
„Mér finnst fólk gleyma því og samfélagið allt einhvern veginn; að lifa í núinu. Það eru allir að reyna að passa í einhvern kassa: Þetta er rétt, þetta er rangt. En lífið er ekki svona svarthvítt.“
Hátíðarnar nálgast óðfluga og spyr blaðamaður hvað einstaklingur með fjóra maka geri varðandi jólin.
„Þetta eru náttúrulega alls ekki hefðbundin sambönd, þannig að það verða bara jól í sitthvoru lagi. Þau á Mývatni eru með sín börn, ég er með mín börn og hinir makarnir, sem eru barnslaus, verða hjá sínum fjölskyldum. En við munum hringjast á og senda kveðjur, gefa gjafir,“ segir hún.
Fjórar makagjafir, er það ekki stór pakki?
„Ef þú þekkir makann þinn nógu vel þá geturðu fundið eitthvað sem kostar ekki brjálæðislega mikinn pening og þau sýna því líka skilning,“ segir hún og bætir við.
„Þetta snýst um þakklæti, að gefa frá sér, ást og umhyggju. Þannig það ætti ekki að skipta máli hvað pakkinn kostar.“
Birta var í ítarlegu helgarviðtali hjá DV í sumar þar sem hún ræddi um misnotkunina, þunglyndið og ástina.