Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Laufey Rún Ketilsdóttir, starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hafa keypt glæsihýsi í Þrastanesi í Garðabæ. Smartland greinir frá þessu. Þau Laufey og Bergþór eiga von á sínu fyrsta barni saman, en hann á barn fyrir. Undanfarið hafa þau hafa búið á heimili Bergþórs á Akranesi.
Fókus fjallaði um húsið þegar það fór á sölu í byrjun desembermánaðar. Það voru hjónin Arnar Þór Stefánsson og Sunna Jóhannsdóttir sem áttu glæsihýsið fyrir en í því höfðu þau búið frá árinu 2014. Arnar er einn öflugasti lögmaður landsins og einn af eigendum LEX lögmannsstofu. Sunna er verkefnastjóri fjármála hjá Íslensku óperunni.
Í umfjöllun Fókuss kom fram að eignin væri 364,8 fermetrar, með níu herbergi, þar af fimm svefnherbergi. Húsið var byggt árið 1989 og er 23,5 fermetra bílskúr hluti af eigninni.
Húsið þykir einkar vandað og vel byggt, það er á þremur pöllum og fullbúin tveggja herbergja íbúð með sérinngang á neðsta palli hússins. Það er afgirt timburverönd með heitum potti, stór sólskáli með kamínu og fallegu útsýni. Það er einnig sauna klefi í húsinu. 179 milljónir króna voru settar á eignina.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af húsinu: