fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Gísli Rafn Ólafsson um málefni þolenda – ,,Í næstum hvert skipti sem ég fæ tölvupóst um hvað fólk hefur þurft að upplifa í kerfinu falla tár“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 25. september 2022 10:57

Gísli Rafn Ólafsson. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ótrúlegt en satt, sé litið til þess hver fjölskyldan og ættin voru pólitísk, er þingmennskan ekki eitthvað sem ég ætlaði mér, segir Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.  

Báðir afa hans sátu á þingi, þótt á sitthvorum enda litrófs stjórnmálanna, annar var stofnandi Kommúnistaflokksins, Einar Olgeirsson, en hinn var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Axel Jónsson. 

,,Það er ekki eins og það hafi ekki verið talað um pólitík á heimilinu og við skulum segja að það hafi verið skrautlegt þegar að móðir mín kom fyrst heim með föður minn.” 

Gísli við stjórn á aðgerðum í Padang í Indónesíu 2009. Mynd/aðsend

Dóttir Gísla ein af mörgum fórnarlömbum

Gísli Rafn steig fyrst inn á þing fyrir Pírata eftir síðustu kosningar og hefur barátta hans fyrir réttinum þolendum kynferðisbrota vakið athygli. 

Málaflokkurinn stendur Gísla Rafni afar nærri. Dóttur hans var nauðgað fjórtán ára að aldri og var gerandinn karlmaður á þrítugsaldri. 

,,Hún var ein af mörgum fórnarlömbum hans og það fóru tvö mál, mál dóttur minnar og annarar stúlku, í gegnum dómskerfið. Við þurftum að upplifa þennan ótrúlega hæga málsmeðferðartíma og það liðu fimm ár frá kæru og þar til Hæstiréttur dæmdi í annað skiptið því málið fór tvo hringi í gegnum dómskerfið.”

Þá fyrst var maðurinn dæmdur fyrir brot gegn barni en brot hans voru að minnsta kosti níu talsins og flest þeirra framin á þeim fimm árum sem málið mallaði í kerfinu.

Gísli í Druslugöngunni 2013 ásamt dætrum sínum, Kötlu Maríu og Chastity Rose. Mynd/aðsend.

,,Þetta snerti mann afar persónulega og það sást hvað skýrast með  #metoo byltingunni hvernig komið er fram við þolendur. Það sorglega er að þolendur hafa ekki alltaf rödd og það er alltof algengt að þeir séu talaðir niður. Maður sér jafnvel heilu herferðirnar keyrðar af stað gegn þolendum. 

Það að geta veitt þolendum rödd hér inni á þingi er hluti af því af því sem skiptir mig miklu máli, ekki þó að ég sé bara að ýta á eftir málum tengdum kynferðisofbeldi.”

Maður vill  verða samdauna

Síðustu tvo áratugi hefur Gísli Rafn unnið út um allan heim, aðalega við hjálparstarf í tengslum við miklar náttúruhamfarir, og stýrði hann meðal annars íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni sem kom fyrst á svæðið eftir stóra jarðskjálftann á Haiti árið 2010.

Á flakki sínum um heiminn fylgdist hann þó reglulega með fréttum heiman að frá. ,,Maður fylgist kannski betur með þegar maður er erlendis því hér heima vill maður verða svo samdauna öllu. Og mér fannst vera fullt af hlutum sem þyrfti að taka á. Ég var búinn að vera að vinna í því að bjarga fólki út um allan heim en vildi líka láta gott af sér leiða hér heima.”

Gísli Rafn hafði að mestu leyti haldið sig til hlés í umræðu um stjórnmál, fannst það ekki við hæfi í hjálparstörfunum en taldi tímabært að stíga skrefið. Haustið 2020 fór hann því að líta í kringum sig eftir flokki sem hann ætti samleið með. 

Gísli Rafn Ólafsson, Píratatar Alþingi

Gísli Rafn hafði aldrei flaggað pólitísku flokksskírteini fyrir utan að hafa verið skráður 18 ára í Samfylkinguna. Ekki var um pólitíska köllun að ræða heldur var hann fenginn til að aka fólki á kjörstað í Hafnarfirði þar sem stjúpfaðir hans var í bæjarstjórn. 

Hann fann fljótlega samhljóm með Pírötum og eftir samtöl við þingmenn flokksins ákvað hann að gefa kost á sér í annað sætið í Suðvesturkjördæmi. Það gekk eftir og settist Gísli Rafn á þing eftir síðustu Alþingiskosningar.

Saman hvaðan góðar hugmyndir koma

Aðspurður um hvað hafi komið honum mest á óvart við setuna á þingi segir hann hafa fundist sterkast fyrir hversu litla vikt mál þingmanna fái. 

,,Það eru bara stjórnarfrumvörpin sem fara áfram og sé skoðað nokkur ár aftur í tímann er fjöldi þingmannafrumvarpa sem fara í gegn sá sami og fjöldi flokka í stjórnarandstöðu. Það virðist vera alveg sama hvaðan góðar hugmyndir koma. Sjálfur hef ég lagt fram mál með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum og vonast til að sjá þau fara í gegn áður en það kemur að þinglokum. Þá eru þessi hefðbundnu eitt til tvo mál hvers flokks sem eru samþykkt.”

Í flóttamannabúðum í Eldoret í Kenýa eftir kosningaóeirðir

Gísli Rafn segir lítið annað hægt að gera en að lifa í voninni. ,,En ég hef áttað mig á því að það mikilvægasta við frumvörpin og þingsályktunartillögurnar er ekki endilega að málin fari í gegn heldur að það skapist umræða, bæði á þingi og í samfélaginu. Og það vill oft leiða til breytinga hjá stjórnarmeirhluta síðar meir, sama hver hann kann að verða. 

Mér er alveg sama hver fær heiðurinn á endanum, aðalmálið er að hlutirnir gerist. Þetta er langhlaup. “

,,Margt er einnig  gert á göngum þingsins, ekki endilega úr ræðustól,” bætir Gísli Rafn við. 

Umræðan hefur breyst

Gísli Rafn hóf strax að vinna að málefnum þolenda kynferðisofbeldis við komuna á þing. 

,, Mér fannst skelfilegt hversu lítið var verið að gera fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Einnig fannst mér ekki nógu mannúðlegt hvernig við tökum á móti hælisleitendum, vitandi hvaðan þetta fólk er að koma,”  segir Gísli, sem vel þekkir til málefna flóttamanna eftir hjálparstörfin.

Í hjálparstöði í Sendai í Japan eftir tsunami og jarðskjálfta 2011. Mynd/aðsend

,,Einnig fannst mér við líka vera að missa fullt af tækifærum þegar kemur að nýsköpun, sérstaklega tengdri loftslagsmálum. Mér fannst ég hafa eitthvað fram að færa á öllum þessum sviðum enda málefni sem ég þekki vel erlendis frá.”

Gísli Rafn segist vona að sú umræða sem hann sé að reyna að skapa í kringum kynferðislegt ofbeldi og stöðu þolenda muni leiða smátt og smátt til að þess að einhver ríkisstjórn framtíðinnar taki á málunum. ,,Umræðan hefur sem betur fer breyst á undanförnum árum og ekki síst eftir #metoo byltinguna.”

Fallegur tölvupóstur

Hann vill ljá þolendum rödd. 

,,Það veitir fólki ákveðinn styrk að vakinn sé athygli á brotalömunum í kerfinu og einn fallegasti tölvupóstur sem ég hef fengið var einmitt frá þolanda. Ég sagði sögu hennar úr ræðustól á þingi, með hennar leyfi, og hún sagði það hafa veitt henni styrk að tala og berjast fyrir sínu máli. 

Þá fannst mér hafa gert mitt, með því að hjálpa einni manneskju.”

Gísli stjórnaði aðgerðum íslensku björgunarsveitarinnareftir jarðskjálftann á Haiti 2010. Mynd/aðsend

Aðspurður um hvar brotalamirnar liggi segir Gísli Rafn þær liggja víða. ,,Umræðan hefur opnast, fólk er farið að segja sögu sína og við erum farin að sjá brotalamirnar betur. Með opnari umræðu kæra fleiri, fleiri mál eru tekin fyrir í kerfinu, en við höfum ekki verið nógu dugleg að halda í við þá þróun með mannafla og fjármagni.”

Hann bendir einnig á ískaldar tölulegar staðreyndir. ,,Stígamót hófu að birta tölur og þá sáum við svart á hvítu hversu fá mál enda inni á borði lögreglunnar. Aðeins tíu prósent þolenda kærir og tíu prósent af þeim kærum enda með dómi. Við erum að tala um að í kringum eitt prósent af málunum fara alla leið. Sem er sorglegt,” segir Gísli Rafn. 

Gísli og eiginkona hans, Sonja Dögg, við gröf Diane Fossey í Rúanda. Mynd/aðsend

Barn eða barn?

,,Fólk er farið að koma fram með sögur sína og ræða mál sem ekki mátti nefna fyrir kannski 20 árum en á sama tíma erum við afar götótt lagaumhverfi.”

 Sem dæmi nefnir hann frumvarp sem hann hefur lagt fram, ásamt fleiri þingmönnum, um að kynferðislegur lágmarksaldur verið 18 ára í stað 15 ára eins og nú er. 

Gísli Rafn Ólafsson. Mynd/Sigtryggur Ari

,,Við komumst að því að það er fullt af götum í löggjöfinni ef viðkomandi er 15 til 17 ára. Þá gilda aðrar reglur og það þarf að sýna fram á ýmislegt eins og traust og tengsl á milli aðila. Verknaðurinn er til dæmis refsiverðari ef um kennara eða ættingja er að ræða og svo framvegis. Annað er þetta ákvæði í hegningarlögunum um að hafi gerandi talið þolandi eldri en viðkomandi reyndist sé það metið til refsilækkunar. Eins og önnur göt er það mikið nota verjendum.”

Gísli Rafn vill einfalda hlutina og setja 18 ára aldursmark á allt saman. ,,Barnalög og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðana segja að einstaklingur vera barn fram að þeim aldri og af hverju ætti að vera einhver undantekning ef viðkomandi er 15 til 17 ára? 

Annað hvort ertu barn eða ekki.” 

Maður verður að vona

Gísli Rafn nefnir einnig breytt umhverfi, ekki síst netið og hvernig þar er unnt að stofna til samskipta við börn í kynferðislegum tilgangi, á ensku kallað ,,grooming” og stundum þýtt sem tæling. 

,,Þegar þessi menn hafa byggt upp traust hefst misnotkun sem getur verið margskonar. Þetta getur verið allt frá kröfum um kynferðislegar myndir og upp í að hitta barnið og nauðga því. Lögreglan hefur bent á að mjög mörg mál í dag eru með einhvers konar gögn á stafrænu formi en við erum ekki með mikið af fólki sem getur unnið úr slíkum stafrænum gögnum á réttarfarslegan hátt.” 

Í Rúanda árið 2020. Mynd/aðsend

Hann segir að með nýlegri fjáraukningu hafi sem betur fer fjölgaði í þeirri deild lögreglunnar. ,,Það er af hinu góða því rannsóknargetan þarf að geta fylgt tækniþróuninni. Ríkisstjórnin setti sem betur fer fjármagn í að auka við rannsóknir en á sama tíma er gerð aðhaldskrafa á allar ríkisstofnanir, einnig lögreglu.Maður getur ekki annað en vonað að niðurskurður lendi ekki á kynferðisbrotunum. En hvaða aðra löggæslu á þá að skera niður? Hvað viljum við leggja áherslu á?”  

Mein í samfélaginu

Gísli Rafn segir undirtektir kollega sinna á þingi hafa verið mjög jákvæðar heilt yfir alla flokka. ,,Og ekki bara hér á þingi heldur einnig úti í samfélaginu, Það eru ótrúlega margir, séstaklega konur, sem hafa komið til mín og ég heyri aftur aftur þær segja ,,gerandinn minn”. 

Því miður er það þannig að mjög stór hópur, sérstaklega kvenna, hefur orðið fyrir kynferðislegum ofbeldi. Þetta er mein í þessu samfélagi og við þurfum að vinna í því.” 

Gísli Rafn segist fá mikið af skilaboðum og oft séu það konur að þakka honum fyrir að vekja athygli á kynferðisbrotum. 

,,Í næstum hvert skipti sem ég fæ tölvupóst um hvað fólk hefur þurft að upplifa í kerfinu falla tár. Það tekur á andlega að heyra hversu skelfilega lífsreynslu margir þurfa að ganga í gegnum.” 

Magnað að þora að koma fram

Hann segir samt vitundarvakningu í samfélaginu vera stórt skref, farið sé að krefjast breytinga. ,,Mér finnst líka frábært hvað grasrótin, þolendurnir sjálfir, hafa verið duglegir að berjast. Að standa upp, segja sína sögu og taka þátt í baráttunni eftir allt sem þeir hafa gengið i gegnum, 

Hann segir átak Stígamóta, Minn líkami – vettvangur glæps, gott dæmi.

 ,,Glæpurinn var framkvæmdur á þeim en þær höfðu enga aðkomu að málinu.  Sem betur fer kom frumvarp frá stjórninni í vor sem jók aðkomu brotaþola að málum. Kannski ekki jafn mikið og margir hefðu vilja sjá en það er allavega skref í rétta átt. 

Það er magnað að þora að koma fram og segja sína sögu. Og svo verða þessar konur í mörgum tilfellum fyrir aðkasti, bæði á netinu og annars staðar. Það er svakalegt alveg.” 

Á Haiti eftir jarðskjálftann 2010. Mynd/aðsend

Inn í 21.öldina

Það varð breyting á fyrir fimm árum, þegar að #metoo byltingin hófst en hvar sér Gísli Rafn íslenskt samfélag standa eftir næstu fimm ár? 

,,Mín von er að eftir fimm ár verðum við komin lengra í umræðu og fræðslu, að kynferðisbrot verði mun færri og málsmeðferð styttri. Stærsta markmiðið hlýtur þó alltaf að vera að draga úr brotum og hluti af því er að byrja kennslu snemma og leyfa umræðunni aldrei að sofna. 

Hún á aldrei að koma í bylgjum heldur vera stigvaxandi.“

Gísli stjórnaði alþjóðlegri björgunarsveitaúttekt í Austurríki. Mynd/aðsend

Við þurfum að byrja snemma að kenna börnum rétta hegðun í samskiptum kynjanna og halda vöku okkar. Upplýst samþykki er eitthvað sem þarf að kenna mjög snemma í skólakerfinu og krakkarnir sjálfir hafa meira að segja bent á það. Það þarf að koma kynfræðslu inn 21. öldina, því það er ekki nóg að skrifa skýrslur og mynda starfshópa.

Það þarf að grípa til alvöru aðgerða og mæla árangurinn.”

Öryggisnet nauðsynlegt

Gísla Rafni finnst að oft megi einnig huga betur að nýtingu fjármuna.  

. Það var settur peningur í herferð um að passa hvort annað á skemmtistöðum. Ég hefði frekar viljað sjá það fjármagn fara inn í skólakerfið eða til ráðningar fleiri rannsakenda. Við þurfum að hugsa málin til enda og fylgja þeim eftir.”

Hann vonar að fólk muni fara að haga sér betur þótt alltaf verði einhverjir aðilar í samfélaginu sem brjóti kynferðislega á samborgurum. 

,,Og því þurfum við að vera með öryggisnet fyrir þolendur og sýna þá umhyggju sem þeim er nauðsynleg til að takast á við slíkt áfall. Hluti af því er að mál fari hratt og örugglega í gegnum dómskerfið en það þarf líka að tryggja sálfræðiþjónustu, og reyndar allan þann stuðning sem þörf er á eftir svona áfall.” 

Gísli Rafn bendir þó að ríkið muni aldrei geta gert allt. ,,Við erum með félagasamtök sem eru að gera frábæra hluti, Stígamót, Kvennaathvarfið, Bjarkarhlíð og fleiri slík um land allt. Við verðum að tryggja þeim fjármagn því þau eru oft að gera afar góða hluti fyrir miklu minni pening en ríkið myndi nokkurn tíma gera. En samt þurfa þau að berjast fyrir sínum tilverurétti árlega.

Það er fullt af tækifærum til að nýta þessi samtök til að taka þátt í fræðslu og virkja þau betur í umræðunni. Þetta eru jú samtökin sem eru að taka á móti fólkinu sem lendir í þessum áföllum.”

Vítamínsprauta í hjartað

Það er oft á brattann að sækja í baráttunni en Gísli Rafn er hvergi banginn. 

,,Ég var um tvítugt þegar ég byrjaði sem sjálfboðaliðið í Rauða kross húsinu sem ætlað var unglingum sem höfðu ekki í nein hús að leita. Við vorum hópur af ungu fólki sem sinnti þessum krökkum og þar lærði ég hratt að ég gat haft áhrif á líf eins einstaklings í einu. Og það var vítamínsprauta í hjartað í hvert skipti sem það gerðist.

Þaðan fór ég yfir í björgunarsveitirnar og þegar maður sá til dæmis foreldra taka á móti týndu barni var það sambærileg vítamínsprauta í hjartað. 

Sú sprauta gerði alla vinnuna þess virði.” 

Gísli Rafn Ólafsson. Mynd/Sigtryggur Ari

Hann bætir við að reynsla sín við hjálparstörf síðustu 15 til 20 ár, á stöðum sem orðið hafi fyrir hvað skelfilegustu náttúruhamförum, hafi verið lærdómsrík. 

,,Þegar að þú stígur inn í slíkt umhverfi eyðileggingar, þar sem hundruðir þúsunda, og jafnvel milljónir manna þurfa aðstoð verður maður að læra að með því að hjálpa einni manneskju hefur maður gert eitthvað gott. 

Fyrir mig er þetta spurning um að leggja mitt af mörkum, styðja eina manneskju í einu og eitt mál í einu. Og þegar maður lendir á vegg verður maður að hafa það í huga og leita allra leiða framhjá hverju því sem er að stoppa mann.”  

Gísli segir þá trú draga sig áfram. 

 ,,Við megum öll vera aðeins betri hvort við annað og um leið og maður talar til hjartans í fólki er hægt að láta ótrúlegustu hluti gerast. 

Jafnvel hér á Alþingi, segir Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður, að lokum. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“