Skjár einn hóf útsendingar í október árið 1999 og frá upphafi voru fetaðar aðrar leiðir en áður höfðu þekkst í íslensku sjónvarpi.
Reyndar má segja að um byltingu hafi verið að ræða. Mikil áhersla var lögð á gerð innlends sjónvarpsefnis sem margt átti forvera eða fyrirmyndir í erlendu sjónvarpi, einna helst þá bandarísku.
Allt nýtt og ferskt
Skjárinn datt inn á tíma mikilla breytinga í íslensku þjóðfélagi. Internetið var að hefja innreið sína á íslensk heimili, erlendar hljómsveitir streymdu til landsins í tónleikahald og ,,góðærið” var í frumbernsku en þótti lofa góðu.
Allt var nýtt og ferskt, ólíkt lummum fyrri ára.
Sú sem þetta skrifar man mæta vel eftir þessum spennandi tímum. Enda skilgetið afkvæmi ,,Skjás eins kynslóðarinar” og lá því yfir öllu sem boðið var upp á. Tja, næstum öllu, skulum við þó segja.
Það er gaman að líta tuttugu ár aftur í tímann og þótt að langflestir neðangreindra þátta hafi ekki átt langan líftíma, höfðu þó sumir slík áhrif á íslenskt samfélag að enn má greina. Þess má geta að fjöldi hæfileikafólks steig sín fyrstu skref í þáttum Skjás eins.
Hér er langt því frá um tæmandi lista að ræða enda virtist hugmyndaflugi Skjásfólks engin takmörk sett. Litu mun fleiri þættir dagsins ljós en hér er að finna.
Tantra hóf sýningar í mars 2001 og var í umsjón Guðjóns Bermans enda hafði hann þýtt bókina Tantra-listin að elska sem þættirnir studdust við. Þáttunum var ætlað að kenna lystisemdir kynlífs í gegnum tantra fræðin.
,,Þar er grunnurinn tilfinningaleg nánd og endar í að snúast um kynlífsaðferðir til að fá sem mest út úr samlífinu,” sagði Guðjón í viðtali við Morgunblaðið nokkrum dögum fyrir frumsýningu þáttanna.
Kvaðst hann vonast eftir kynlífsbyltingu í kjölfarið þar sem áherslan yrði meira á tilfinningar en áður hafði þekkst.
Guðjón fékk til sín fimm pör á aldrinum 20 til 46 ára sem þátttakendur en sjötta parið sýndi æfingarnar. Þjóðin stóð á öndinni enda hafði jafn opinskátt efni tengt kynlífi ekki áður ratað inn í stofur landsmanna. Aðeins var gerð ein þáttaröð en pörin fimm urðu landsþekkt í korter áður en þátturinn gleymdist flestum.
Fyrirgefðu var þáttaröð sem hóf göngu sína á annan í jólum árið 2001. Markmið þáttanna var að hreinsa andrúmsloftið þar sem slest hafði upp á vinskap. Felix Bergsson var umsjónarmaður og hafði hann samband við fólk sem vildi biðja vini fyrirgefningar og tók hann afsökunarbeiðnina upp á vídeóspólu að loknu spjalli.
Spólan var síðan sýnd vininum fyrrverandi, málið rætt, og ef sá kaus að fyrirgefa voru sættirnar teknar upp.
Hugmyndin gekk ekki upp og dóu þættirnir fljótlega drottni sínum þar sem illa gekk að finna almennilegar afsökunarbeiðnir. Lét Felix hafa eftir sér í viðtali í Morgunblaðinu árið 2005 að hann myndi aldrei aftur taka þátt í raunveruleikaþætti eftir bitra reynslu af Fyrirgefðu.
,,Mér finnst þessir þættir ganga fyrst og fremst út á einelti. Vil aldrei aftur taka þátt í því.”
Nonni sprengja var leikinn vandamálaþáttur í anda Jerry Springer og sambærilegs sjónvarpsefnis vestan frá Ammríkunni. Þátturinn var með þeim fyrstu á Skjá einum og hóf göngu sína árið 1999. Gunnar Helgason brá sér í hlutverk Nonna sprengju sem fékk til sín góða gesti til að játa syndir sínar fyrir núverandi og tilvonandi mökum.
Lögð var áhersla á mannlega lesti, sem þótti fersk nýjung í íslensku sjónvarpi.
Nonni var þó fljótlega lagður niður. Gunnar Helgason sagðist guðslifandi fegin, enda álagið á hann og Hallgrím Helgason, handritshöfund, allt of mikið. Þættirnir voru einnig dýrir í framleiðslu og öðluðust því ekki framhaldslíf frekar en svo margir aðrir þættir Skjás eins.
Rósa var þáttur skýrður í höfuðið á Rósu Guðmundsdóttur sem meðal annars hafði skapað hafði sér nafn sem skemmtanastjóri á skemmtistaðnum Spothlight. Þar stjórnaði hún svonefndum ,,klámkvöldum” enda ófeimin við að ræða allt milli himins og jarðar.
Þótti því upplagt að fá Rósu til að spjalla við fólk í síma, liggjandi á gæruskinni.
Þátturinn fór ekki jafnvel í alla í og eftir aðeins þrjá þætti var hann tekinn af dagskrá.
Tvennum sögum fór af ástæðum þess að þátturinn var stöðvaður en sjálf sagði Rósa að um sameiginlega ákvörðun sín og forsvarsmanna Skjás eins hefði verið að ræða enda Rósa farin að líta út fyrir landsteinana um næstu skref.
Aðrir vildu þó meina að þrátt fyrir besta útsendingartíma á föstudagskvöldum hafi engir auglýsendur fundist og var jafnvel pískrað um að viðmælendur Rósu hefðu einfaldlega ekki komist að fyrir málgleði þáttastjórnandans.
Íslenski bachelorinn var ein strangheiðarlegra tilrauna Skjás eins til að yfirfæra vinsælt erlent sjónvarpsefni yfir í íslenskan veruleika. Smiðurinn Steingrímur Randver Eyjólfsson datt í lukkupottinn og varð piparsveinninn sem sautján íslenskar ungmeyjar börðust um árið 2005.
Þjóðin fylgdist í andakt með Steingrími gera upp hug sinn og ekki var sálu að sjá úti við kvöldið sem Steingrímur valdi Jenný Ósk, þá nýútskrifaða 23 ára flugfreyju, sem sinn framtíðarmaka í desember sama ár. Fékk hún rósina góðu.
Í janúar 2007 sagði Steingrímur í viðtali við Vísi þáttinn hafa farið illa með hann fjárhagslega en hann hefði verið samningsbundinn og hótað háum skaðabótagreiðslum hætti hann við þáttöku. Sagðist hann hafa verið taugahrúga þegar að lokum þáttarins kom.
Sambandið Steingríms Randvers og Jennýjar Ósk entist ekki.
Heiti potturinn fór í loftið 2002 undir stjórn Finns Vilhjálmssonar. Ólíkt mörgum öðrum var hugmyndin afar íslensk enda pottaspjall allt að því þjóðaríþrótt.
Þátturinn skiptist í ,,Nuddpottinn”, þar sem rædd voru málefni líðandi stundar, ,,Blómapottinn, þar sem rætt var um menningarlíf, ,,Froðuna”, þar sem nýjustu kjaftasögur af ritstjórn tímaritsins Séð og heyrt voru ræddar, og ,,Suðupottinn” sem einblíndi á skemmtanalíf komandi helgar.
Það gekk aftur á móti brösuglega að hafa vatn í pottinum í stúdíói og sátu því stjórnendur og viðmælendur kappklæddir ofan í galtómum potti. Sem virkaði alltaf hálf kjánalega.
Landsins snjallasti var langt því frá vitlaus hugmynd. Stjórnandinn geðþekki, Hálfdán Steinþórsson, reyndi að finna besta fólkið í hverri starfsgrein. Besta píparinn, besta endurskoðandann og svo framvegis.
En þrátt fyrir strangheiðarlega viðleitni poppar Landsins snjallasti enn reglulega upp á listum yfir leiðinlegustu þætti íslenskrar sjónvarpssögu.
Djúpa laugin er sennilega sá þáttur sem flestir muna eftir. Um var að ræða geysilega vinsælan stefnumótaþátt sem gekk með hléum í nokkur ár. Þátturinn var byggður upp á sama hátt og sambærilegir erlendir þættir. Keppandinn spurði þrjá vongóða einstaklinga hinna ýmsu spurninga og valdi í kjölfarið einn þeirra til að fara með á stefnumót. Spyrjendur og svarendur sáu ekki hvert annað og yfirleitt var það kvenmaður sem valdi úr karlmönnum. Voru keppendur á öllum aldri.
Þátturinn datt og inn og út af dagskrá og höfðu illar tungur á orði að hreinlega væri búið að fá allt einhleypt fólk á landinu, sem á annað borð vildi vera með, í þáttinn.
Djúpa laugin gekk síðast í endurnýjun lífdaga árið 2019 undir nafninu Tinder laugin á vef Fréttablaðsins árið 2019 og þá í umsjón samfélagsmiðlastjörnunnar Línu Birgittu Sigurðardóttur. Tinder laugin var þó fljótlega slegin af.
Aðrir þættir
Teikni/leikni var nokkurs konar Actionary-borðspil í sjónvarpssal og státaði af einhverri einföldustu sviðsmynd allra tíma. Samt sem áður var þátturinn furðulega grípandi undir stjórn Vilhjálms Goða og Hannersar í Buffinu.
Samfarir Báru Mahrens var þáttur, sem eins og svo margir aðrir, fór í loftið árið 2000. Þar fór leikarinn Bjarni Haukur fór í gervi gamallar konu, í kjól með farða og hárkollu, og spjallaði við gesti.
Þátturinn þótti fremur sérkennilegur, svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
Bjarni Haukur stýrði einni Kómíska klukkutímanum þar sem hann ræddi við grínista landsins. En að því kom að ekki var fleiri grínara að finna og var því þátturinn sjálfdauður.
Skotsilfur var þáttur um verðbréfaviðskipti í umsjón Helga Eysteinssonar. Slíkt hafði aldrei áður sést en var mjög í takt við tíðarandann. Þótti afar smart að fylgjast með verðbréfaumræðunni og merki um að viðkomandi væri að skapa sér nafn í þjóðfélaginu.
Bingó var jú….bingó en í sjónvarpssal. Villi Naglbítur stjórnaði af alþekktum skörungsskap og deildi út furðulegum vinningum á við baðkörum og ónýtum bílum.
Íslensk kjötsúpa skapaði Johnny Naz, sem plataði grunlausa viðmælendur í anda Ali G sem Sacha Baron Cohen, síðar hvað þekktastur fyrir Borat, gerði að listformi.
Tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson var maðurinn að baki Johnny en honum kom aldrei til hugar hinar gríðarlegu vinsældir þáttarins.
Í viðtali í við DV í mars síðastliðin sagði hafði Erpur um þetta að segja:
,,Þetta sprakk út og það klikkaðist bara allt. Á þessum tíma átti ég virkilega erfitt með að reyna að keyra alvarlegan rapp- og listamannsferil en vera á sama tíma heimsfrægur á Íslandi fyrir hálfgerð fíflalæti þótt það væri dýpri merking í þessu öllu. Og það sem fór illa í mig var að allir héldu að ég væri þessi týpa, væri Johnny Naz.
En þetta var helvíti gaman.”