Það er einhver sjarmur sem fylgir litlum íbúðum sem gjarnan má finna í miðborginni. Ein þeirra er nú komin á sölu á Grettisgötu en hún er aðeins 43,2 fermetrar að stærð. Eignin er þó sérstaklega hugguleg og hefur verið tekin fallega í gegn í samræmi við nýjustu áherslur í innanhúss-skreytingum.
Um er að ræða 2ja herbergja íbúð með sérinngangi (halló gæludýr) í steinsteyptu fjórbýli sem var byggt árið 1913. Fasteignamat fyrir næsta ár er 37,15 milljónir og ásett verð er 44,9.
Eins og sjá má á myndunum hafa fyrri eigendur gert eignina einstaklega huggulega og hlýlega. Líklega væri eignin sérstaklega hentug fyrir fyrstu kaupendur eða fyrir foreldra sem hafa nýlega tæmt hreiðrin og eru tilbúnir að láta miðbæjardrauminn loksins rætast. Gróin lóð er með eigninni sem býður upp á marga möguleika. Svo sem vöfflukaffi utandyra eða skemmtileg grillboð. Möguleikarnir eru líklega ófáir.