Í þættinum fer hún um víðan völl og ræðir meðal annars um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum og áhuga fjölmiðla á einkalífi hennar.
Brynja Dan er bæjarfulltrúi Garðabæjar og varaþingmaður Framsóknarflokksins. Hún er einn eigandi Extraloppunar og situr í stjórn Barnaheilla. Hún er einnig vinsæll áhrifavaldur með yfir nítján þúsund fylgjendur á Instagram.
Einkalíf hennar hefur verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum upp á síðkastið, sérstaklega eftir að hún opinberaði samband sitt og Jóhanns Sveinbjörnssonar í síðustu viku.
„Ég er mjög feimin og prívat í grunninn og hef ekki kært mig um að fjölmiðlar séu að blása þessu út um allan bæ,“ segir Brynja í Chess After Dark.
„[Fjölmiðlar] halda manni í einhverju taki því maður er alltaf hræddur að það sé eitthvað. Það hafa komið alls konar rangar fréttir og [þeir] einhvern veginn setja mann á einhvern lista og svona, og ég er alltaf bara: „Látið mig vera.““
Brynja segir að staðan sé sorgleg og hún telur að öðruvísi væri farið að málunum ef hún væri karlmaður. „Þetta er alltaf fyrsta spurningin í öllum viðtölum, sama hvað ég er að fara að gera. Framboð, með fyrirtæki, hvað sem er. Þetta er alltaf það sem fólk spyr fyrst að. Það er svo ótrúlega óviðkomandi í þessu samhengi [sem við erum að fara að ræða]. Það má alveg fara að girða sig í brók,“ segir hún.
Aðspurð hver slakasti fjölmiðillinn er að hennar mati segir hún: „Smartland.“
Brynja hefur aldrei fengið sekt fyrir duldar auglýsingar en hún hefur fengið áminningu frá Neytendastofu. Þau ræða ekki hversu oft í þættinum en hlæja og grínast með að stofnunin sé með andlit Brynju á píluspjaldi og vúdúdúkku af henni.
„Málið er, það langar engum að blekkja fylgjendur sína eða neytendur […] Við [áhrifavaldar] erum öll að vilja gerð og okkur langar ótrúlega að hitta þau [hjá Neytendastofu] og búa til einhvern ramma. Bara hvað er áhrifavaldur? Hvernig eigum við að starfa? Hvað má gera?
En það er alltaf einhver Guggagugg sem er ógeðslega pirruð heima hjá sér að taka skjáskot af storyinu manns og senda. Þannig þegar ég er kannski að fíflast úti í búð með Mána [syni mínum] með einhvern rjóma eða lambhúshettu, þá er búið að senda það á Neytendastofu.“
Annar þáttastjórnandinn spyr nokkuð hneykslaður: „Hver er að gera það?“
„Ég skal senda þér nöfnin á þeim öllum karlinn minn,“ segir þá Brynja létt og bætir við að þetta fólk getur verið mjög leiðinlegt.
Brynja segir að það sé tímafrekt að svara áminningunum og oft sé erfitt að greina hvað sé og hvað sé ekki auglýsing.
„Það eru svo margar hliðar á þessu. Greiddi ég fyrir þetta með fyrirsætustörfum á móti, eins og ég er í samstarfi við Cintamani. Á ég þá líka að birta samstarf þegar hún birtist í Instagram Story hjá mér sjö mánuðum síðar? Skilurðu, það er enginn rammi. Og Neytendastofa er eins og mörg fyrirtæki, ofboðsleg risaeðla. Það þarf að uppfæra svo margt.“
Aðspurð hvort stofnunin sé „nauðsynlegt batterí“ segir hún:
„Fyrir Guggugugg sem er að senda skjáskot. En jújú þetta er auðvitað aðhald og við þurfum það alveg, en þurfum aðeins að hreyfast hraðar,“ segir hún.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan og öllum helstu hlaðvarpsveitum.