fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Fókus

Hvað varð um leiðinlega endurskoðandann? – Slátraði fjölskyldu sinni og hvarf

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 11. september 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

John List var giftur, þriggja barna faðir og starfaði sem endurskoðandi í banka. Það áhugaverðasta sem um hann mátti segja var að hann var fremur leiðinlegur, vinafár og ferkantaður einstaklingur.

Eða svo segja þeir sem til þekktu.

Í efri stéttum samfélagsins

Árið 1971 bjuggu John og Helen kona hans bjuggu í veglegu einbýlishúsi í einum af bestu hverfum New Jersey. Húsið var hvorki meira né minna en 19 herbergi, þar af var danssalur.

John List, Helen og börn þeirra.

Sá þjóðfélagshópur sem hjónin tilheyrðu var eins langt frá hippamenningunni sem var að festa rætur á þessum tíma, og hugsast getur. Fjölskyldan sótti kirkju, John kenndi í sunnudagaskóla, Helen hélt heimilinu óaðfinnanlegu og unglingarnir þrír voru fyrirmynd annarra barna í námi og hegðan. Móðir John, hin 85 ára gamla Alma, bjó með fjölskyldunni í eigin íbúð á þriðju hæð hússins.

Atvinnumissirinn

Það var á vordögum 1971 sem John missti vinnu sína í bankanum. Hann var 46 ára gamall og skammaðist sín ólýsanlega. Svona gerðist bara ekki fyrir fólk eins og hann enda hafði John alist upp við íhaldssamar hugmyndir um hlutverk karlmanna. Foreldrar hans voru þýskir og afar formfastir og ekki kom til greina sýna tilfinningar eða vott af veiklyndi.

John sagði engum frá atvinnumissinum. Þess í stað breytti hann í engu venjum sínum, snæddi morgunverð, kyssti konu sína á kinnina og ók í burtu með skjalatöskuna. Hann eyddi dögunum yfirleitt á lestarstöðinni, las atvinnuauglýsingar í blöðunum og reyndi að finna nýjar leiðir til að svíkja fé út af bankareikningunum vellauðugrar móður sinnar.

Hús List fjölskyldunnar.

Hann fékk þó starf í tryggingafyrirtæki en laun þar voru mun lægri en í bankanum. En með því að mjólka reikninga gömlu konunnar tókst John að halda blekkingunni gangandi í nokkra mánuði.

Eftir að hafa velt fyrir sér öllum möguleikum í stöðunni tók John List ákvörðun um hvað gera skyldi.

Síðasti dagurinn

Að morgni 9. nóvember sama ár sat Helen List og drakk kaffi í eldhúsinu eftir að hafa börnin voru farin í skólann. John kom aftan að henni og skaut eiginkonu sína einu skoti í hnakkann. Hún lést samstundis.

Því næst fór John upp á þriðju hæð þar sem híbýli móður hans voru. Gamla konan hafði staðið upp til að kanna hvaða hvellurinn kom þegar að John gekk inn og kyssti hana á kinnina. Skaut hann svo móður sína í höfuðið. Hún lést einnig samstundis.

Eitt þeirra bréf sem John List skrifaði á milli þess sem hann myrti fjölskyldu sína.

John átti bágt með að þola óþrifnað og reyndi að þrífa blóðið í eldhúsinu og vistarverum móður sinnar en það gekk brösuglega. Hann ákvað að hinkra aðeins með þrifin, fór niður í kjallara og sótti svefnpoka. John setti líkið af Helen á einn pokann og dró hana inn í danssalinn.

Nákvæmni og aftur nákvæmni

John fór nú inn í skrifstofu sína og skrifaði nokkur bréf. Eitt var til yfirmanns hans hjá tryggingarfélaginu og útskýrði John í því stöðu verkefna og benti á næstu skref í væntanlegri samningagerð. Hann skrifaði einnig bréf til ættingja og svo og játningu til sóknarprests síns.

Útskýrði hann að það myndi fara með fjölskylduna að búa við fátækt og með því að myrða þau öll væri hann búinn að gulltryggja þeim himnaríkisvist. Heimurinn væri hvort eð er fullur af illsku sem þau þyrftu nú aldrei að upplifa. Hann lofaði einnig að biðja fyrir sálum þeirra.

Það liðu reyndar 19 ár áður en bréfið kom fyrir almannasjónir.

Því næst hringdi John nokkur símtöl í vini og kunningja. Sagði hann fjölskylduna á leið í ferðalag og óvíst hvenær þú sneru heim. Hann sagði upp áskrift að dagblöðum og bað um að hætt yrði að bera út póst til hússins. Hann hringdi í skóla barna sinna og sagði þau verða frá næstu vikur, þau væru í leið til dauðvona ömmu sinnar.

Líkin lágu hlið við í kuldanum við dúndrandi orgeltónana.

John skrifaði einnig játningu sem hann setti á skrifborð sitt. Hann sótti öll verðbréf móður sinnar og leysti út í banka og hélt svo aftur heim á leið. Um verulegar upphæðir var að ræða.

Börnin

Þegar þarna var komið við sögu var komið hádegi og John farið að svengja. Hann fór því fram í blóðugt eldhúsið, bjó sér til samloku, og snæddi í rólegheitum á meðan að hann hugsaði málið. Eldri börn hans tvö, Patricia 16 ára, og John yngri 15 ára, komu saman heim úr skólanum.

Það gæti valdið ákveðnum vanda þegar að því kæmi að myrða þau. Hvað ef annað næði að sleppa á meðan að hann skyti hitt?

En gæfan var með John. Patricia hringdi úr skólanum og sagðist lasin. Gæti pabbi hennar sótt hana? John sótti dóttur sína en um leið og þau voru komin inn fékk Patricia einnig skot í höfuðið, var sett á svefnpoka og dregin inn við hlið móður sinnar í danssalnum.

Patricia, John og Fred List.

Því næst sótti John yngsta barn sitt, Fred 13 ára. Þegar að þeir feðgar voru að ganga inn sá John hinn son sinn á heimleið og flýtti sér því að skjóta Fred. Örfáum mínútum síðar gekk John yngri inn og hlaut sömu örlög. Hann var reyndar eina fórnarlambið sem var skotinn fleiri en einu skoti þar sem faðir hans var að flýta sér og náði ekki að skjóta son sinn í höfuðið í fyrstu tilraun.

Báðir voru drengirnir settir á svefnpoka og dregnir í danssalinn, sem nú var orðinn að líkhúsi.

Heill mánuður

John hófst aftur handa við þrifin og tókst nú betur til en áður. Síðan náði hann sér í skæri og klippti vandlega út eigið andlit af fjölskyldumyndum og setti svo í rammana aftur.

Helen List.

Endurskoðandinn tók hitann af húsinu, setti loftkælinguna í danssalnum á hæstu stillingu og plötu með sálmum á fóninn. Hann hækkaði tónlistina í botn, gekk út og hvarf.

Það leið heill mánuður áður en nokkrum manni datt í huga að kanna hvort allt væri í lagi hjá List fjölskyldunni sem spilaði orgeltónlist dag og nótt. Eins og áður segir þótti John List ekki skemmtilegur maður og var fjölskyldan vinafá enda sjaldnast mikið fjör á heimili endurskoðandans. Þá var almennt heldur ekki hefð fyrir að skipta sér af annarra manna málum í hverfi fjölskyldunnar.

Það var reyndar leiklistarkennari Patriciu sem fór að kanna málið enda farið að lengja eftir stelpunni.

Nágranni sá kennarann banka á dyr og kíkja á glugga og hringdi á lögregluna. Sagði hann einhvern vera að reyna að komast inn í hús List fjölskyldunnar. Þegar að lögregla kom á svæðið útskýrði kennarinn mál sitt og braust lögregla inn.

Líkfundurinn

Í desember fundust í danssalnum líkin fjögur í svefnpokum með klæði yfir andlitinu. Á þriðju hæð fannst lík Ölmu, mun verr farið en hin, enda ekki sami nístandi kuldinn og niðri. Síðar kom í ljós að Alma hafði verið of þung til að draga niður enda afar vegleg kona á alla kanta.

Það var aldrei neinn annar en John grunaður um morðin enda lá játningin á skrifborði hans. En John List var horfinn. Bíll hans fannst jú á flugvellinum en það var sama hversu oft andlit hans var birt í fjölmiðlun var eins og jörðin hefði gleypt hann.

Smám saman dró lögregla úr leitinni og að því kom að henni var alfarið hætt.

Leirstyttan

Árin liðu og árið 1989 fengu umsjónarmenn þáttarinn ,,America’s Most Wanted” áhuga á málinu. Áhorf á þáttinn var að minnka og talið að List morðin myndu hressa tölurnar við. Því var leirlistamaðurinn Frank Bender fenginn til að gera styttu af John List eins og talið var að hann liti út 18 árum eftir morðin.

John List rétt áður en morðin voru framin. Mynd/Getty

Það var eina leiðin á þeim tíma, engar komnar tölvunar með öll sín forrit til slíkra verka, og var því um Leirfinn þeirra Bandaríkjamanna að ræða.

Um var að ræða elsta óleysta mál sem þátturinn hafði fjallað um.

Þegar þátturinn var sýndur voru viðbrögðin framar öllum vonum. Fjöldi ábendinga kom inn á borð lögreglu en ein var áhugaverðari en aðrar.

John List er til vinstri og leirstyttan til hægri.

Kona nokkur í Virginiufylki sór fyrir að um væri að ræða nágranna sinn, endurskoðandann og sunnudagaskólakennarann Robert Clark. Var það mjög í takt við kenningar sálfræðinga sem sögðu John List of íhaldsaman í eðli sínu til að gera meiri en allra nauðsynlegustu breytingar á lífi sínu.

Handtaka eftir 18 ár

Níu dögum eftir sýningu þáttarins, þann 1. júní 1989,  var Robert Clark, öðru nafni John List, handtekinn. Styttan reyndist líkari honum en nokkurn hafði þorað að dreyma um.

Þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir hélt hann því fram alveg fram í febrúar 1990 að hann væri ekki John List en gafst þó upp á endanum. Sagði hann það hafa komið sér á óvart hversu auðvelt hefði verið að láta sig hverfa og skapa sér nýtt nafn og tilveru.

Seinni eiginkona John List, Delores Miller Clark, var miður sín.

Hann hafði meira að segja kvænst aftur og setið með öndina í hálsinum yfir þættinum af ótta við að eiginkona hans, Delores, þekkti hann. Sem hún gerði ekki. Reyndar fékk aumingja konan gríðarlegt áfall við að heyra að maður hennar til margra ára væri fjöldamorðingi.

Verjendur reyndu að halda fram geðveilu og áfallastreituröskun eftir dvöl John List í herþjónustu í Kóreu honum til varnar en það hlustaði ekki nokkur maður á þau rök. Var hann dæmdur í fimm lífstíðardóma, einn fyrir hvern ættingja sem hann myrti.

John List fór í viðtal í sjónvarpi árið 2002. Reyndi hann þar að útskýra að þótt gjörðir hans hefðu verið rangar hefði hann á sínum tíma talið þær réttar. Fátt fór fyrir auðmýkt eða eftirsjá og sá enginn fjölmiðill ástæðu til að falast aftur eftir spjalli.

John List var 18 ár að flótta.

John List dó í fangelsi árið 2008, 82 ára gamall.

Hús fjölskyldunnar brann til grunna nokkrum mánuðum eftir að líkin fundust. Aldrei tókst að finna út eldsupptök.

Enn þann dag í dag fara börnin í bænum frekar yfir götuna en að ganga framhjá lóðinni sem morðhús List fjölskyldunnar stóð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir tónlistarmanninn hafa boðið henni 1,6 milljarða fyrir að þegja um sambandið

Segir tónlistarmanninn hafa boðið henni 1,6 milljarða fyrir að þegja um sambandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lana Björk svarar Línu Birgittu og birtir myndir – „Það er ótrúlega sárt að sjá rangfærslur frá jafn stórum áhrifavaldi“

Lana Björk svarar Línu Birgittu og birtir myndir – „Það er ótrúlega sárt að sjá rangfærslur frá jafn stórum áhrifavaldi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn