Sonur Sigurðar veiktist mjög snögglega alvarlega í desember 2021. Hann var strax settur í öndunarvél á gjörgæslu. Síðan þá hefur hann meira og minna verið inni á spítala. Sigurður segir allt breytt eftir þetta.
„Þetta er hræðileg lífsreynsla og ég gleymi þessu aldrei. Ég var staddur í útlöndum þegar það hringir í mig kona frá gjörgæsludeildinni og segir mér að drengurinn minn sé kominn í öndunarvél, sé í lífshættu og staðan sé alvarleg. Við hjónin áttum flug nokkrum dögum síðar, en keyptum miða daginn eftir og komum. Svo byrjar tími sem er þannig að fyrst tekur maður þetta allt á hnefanum og er bara í sjokki. Það er stanslaus kvíði í maganum, en síðan gerist það að þegar áfallið fer að lengjast þá tærist maður smám saman að innan og maður fer að endurhugsa allt varðandi lífið. Það sem manni fannst merkilegt áður skiptir mann nánast engu máli í dag. Hver einasti dagur snýst meira og minna um það hvaða fréttir maður muni fá í dag,” segir Sigurður, sem segir allt ferlið hafa reynt gríðarlega á alla í fjölskyldunni.
„Svo byrjar hann að verða betri, en svo kom bakslag og svo annað bakslag þar sem hann er aftur í öndunarvél í þrjár vikur samfellt. Það var sá tími þar sem þráðurinn var hve stystur milli lífs og dauða. Þegar þetta stóð orðið mjög tæpt og það átti að rista kviðinn á honum upp úr og niður úr var mér alveg hætt að lítast á blikuna. Ég hringdi í Tómas Guðbjartsson lækni og annarri eins perlu hef ég aldrei kynnst. Strákurinn minn á líf sitt honum að þakka. Það var hringt í okkur og okkur sagt að hann væri hreinlega að fjara út þegar Tómas tekur af skarið og tekur ákvörðun um að snúa honum á grúfu til að búa til pláss fyrir lungun. Þetta var mjög krítísk ákvörðun og búið að vara okkur við að þetta væri bara 50/50 hvort hann myndi lifa af. En Tómas mat stöðuna svona og aðeins 30 mínútum síðar fór súrefnismettunin að fara upp og ljóst að þetta var hárrétt metið hjá honum. Ég er sannfærður um að með þessari ákvörðun bjargaði hann lífi barnsins míns.”
Árni Þórður, sonur Sigurðar, er enn á spítala og hefur nú verið meira og minna inniliggjandi í 9 mánuði. Það hefur eðlilega tekið gríðarlega á Sigurð og fjölskylduna alla.
„Maður er svo innilega máttvana og hjálparlaus í þessari stöðu og þetta setur einhvern vegin allt annað í lífinu í rétt samhengi. Auðvitað er það hann sem er að berjast fyrir lífi sínu, en þetta tekur gríðarlegan toll af aðstandendum. Eitt af því sem ég hef gert er að segja fólki frá ferlinu á samfélagsmiðlum og ég finn að það hjálpar. Sumir hafa samt fundið hjá sér þörf fyrir að hnýta í mig fyrir það og segja að ég sé að nota veikindi stráksins míns til að fá athygli í stjórnmálunum. Það eina sem ég vil segja við þetta fólk er að þetta er mín leið til að reyna að halda sönsum í gegnum allt þetta ferli,“ segir hann og heldur áfram:
„Ég held að það sem lúrir fremst í hausnum á manni er spurningin hvort maður sé að fara að missa hann og það er hugsun sem ég get ekki hugsað til enda. Þannig að maður kemst að þeirri niðurstöðu að maður sé tilbúinn að gera allt til að bjarga honum og við þekkjum það örugglega margir foreldrar í þessari stöðu að spyrja sig af hverju maður sé ekki frekar sjálfur í þessum sporum er barnið sitt. Hver einasti dagur gengur út á að hugsa um hvort allt fari ekki vel í dag, það er hugarfarið sem maður verður að halda í alla daga. En maður er auðvitað beygður eftir þetta og margt sem þarf að vinna í.”
Siggi vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir létta framkomu í veðurfréttum og að segja fréttir á mannamáli.
„Ég fann mjög fljótt löngun til að miðla þessu til fólks á mannamáli. En það var oft aftast í hausnum á manni þessi hugsun að maður væri jafnvel að setja sjálfan sig niður með því að vera ekki of alvarlegur. En það er hægt að vera mjög samviskusamur, duglegur og góður í starfinu sínu án þess að vera alltaf eins og maður sé alvarleikinn einn. En auðvitað grínast maður ekki með veðurfréttir þegar veður eru válynd,“ segir hann.
Siggi rifjar í þættinum upp tíma þegar fjölda fólks var sagt upp á Stöð 2, meðal annars hjónunum Sigmundi Erni og Elínu Sveins.
„Það var svakalegt hvernig var staðið að þessu. Mér er enn mjög minnisstæður þessi morgun þegar Simma og Ellu var sagt upp. Þau voru kölluð inn til sitt hvors yfirmannsins í annarri byggingu í Skaftahlíðinni og þar var þeim sagt upp klukkan níu um morgun,“ segir hann og heldur áfram:
„Svo þegar þau ætluðu að rölta upp á fréttastofuna og segja fólki frá því að þau hefðu verið rekin, þá virkuðu ekki kortin þeirra og þau komust ekki inn á vinnustaðinn sinn til að kveðja samstarfsfélaga til fleiri ára. Þetta var ljót og óþörf framkoma og nánast eins og það væri verið að niðurlægja þau. Þetta er öðlingsfólk og það þekkja allir sem hafa unnið með þeim og kynnst þeim. En á þessum tíma var margt mjög skrýtið hjá Stöð 2 og það var hálfgerð óttastjórnun í gangi og allir stöðugt á varðbergi.”
Hægt er að nálgast viðtalið við Sigga Storm og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is