Einn vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins Vikan með Gísla Marteini hefur göngu sína að nýju þann 9. september eftir sumarfrí. Í tilefni af því hóf RÚV að keyra nýja auglýsingu fyrir þáttinn en í henni er gert stólpagrín af þeirri staðreynd að þátturinn er ekki síður einn sá umdeildasti á dagskrá RÚV enda virðist Gísli Marteinn Baldursson, stjórnandi þáttarins, fara verulega í taugarnar á óskilgreindum hluta þjóðarinnar.
„Gagnrýnendur eru á einu máli „Hrein hörmung“, „Er þetta helvíti að byrja aftur“ segja virkustu notendur Facebook,“ eru inngangsorð auglýsingarinnar sem leikarinn og starfsmaður RÚV, Rúnar Freyr Gíslason, les með tilþrifum en Gisli Marteinn og hans hægri hönd, Berglind Festival, stilla sér skælbrosandi upp. Síðan birtast fjölmargar neikvæðar athugasemdir í kringum hressa þáttastjórnendurnar.
Úrtöluraddirnar virðast því ekki bíta á Gísla Marteinn heldur hefur hann greinilega mjög gaman af þeim.
Bíddu við. Hvað er að gerast á föstudaginn? #vikan pic.twitter.com/PgpG6azK60
— RÚV (@RUVohf) September 5, 2022