fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Myrtu konur og börn – Helsjúk og brengluð ást einkamálamorðingjanna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 21. ágúst 2022 20:30

Raymond og Martha.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Martha Jule Beck fæddist í Flórída árið 1920. Hún fæddist með kirtlasjúkdmóm sem varð þess valdandi að hún gekk afar snemma í gegnum kynþroska auk þess að vera mun stærri og þyngri en jafnaldrar sínir.

Móðir hennar stjórnaði heimilinu með harðri hendi en faðir hennar var veiklundaður sem sagði fátt og lét sig orðalaust hverfa þegar að Martha var 10 ára. 

Martha Beck.

Áreitti skólabræður og kennara

Martha var einmana barn og skólafélagar hennar gerðu grín að útliti hennar. Ekki bætti á að Martha virðist snemma hafa fengið mikla kynhvöt sem varð til þess að hún áreitt skólabræður sínar og jafnvel karlkyns kennara. Það fór verulega illa í skólasystkini, foreldra, og skólayfirvöld. Hvað þá móður hennar. Martha hafði alltaf verið illa liðin en var nú svo að segja algjörlega einangruð. 

 Síðar hélt Martha því fram að hafa verið kynferðislega misnotuð af eldri bróður sínum en móðir hennar kennt henni um og refsað fyrir að vera ,,dræsa” í endalausri leit að kynlífi. ,,Vesalings“ bróðir hennar væri hið raunverulega fórnarlamb. 

Hélst ekki í vinnu

Lífið varð Mörthu ekki auðveldara með árunum.

Hún strauk nokkrum sinnum að heiman, sneri þó alltaf aftur, og að grunnskóla loknum fór hún í í hjúkrunarnám. Hún var langt því frá að vera fyrirmyndarnemandi en tókst þó að ljúka náminu, þá 22 ára gömul. 

Mörthu gekk þó sjaldnast að halda vinnu, þá sjaldan sem hún landaði slíkri. Hún kom illa fyrir, hreinlæti hennar var ábótavant og framkoman fremur furðuleg, ekki síst kynferðislegur talsmátinn sem fór fyrir brjóstið á mörgun. .

Sjálf hélt hún því fram að atvinnuörðugleikarnir væru vegna þess að hún væri ófríð en aðallega þó vegna hversu feit hún væri.

Vildi frekar deyja en að giftast

Raymond Fernandez

Ef til vill er margt til í því enda önnur viðmið og hugsunarháttur á fimmta áratugnum. Martha flakkaði á milli vinnustaða um Bandaríkin þar til hún fór aftur heim til Flórída og fékk vinnu á útfararstofu. Hún hélt þeirri vinnu í nokkrar vikur en gafst upp á þrífa lík og hélt til Kaliforníu þar sem hún fékk vinnu á sjúkrahúsi. 

Martha hafði það fyrir sig að fara út á kvöldin, gekk á milli stoppistöðva og lestarstöðva og fann karlmenn til að eiga við kynferðislegt samneyti við. Hún átti einnig í nokkrum stuttum ástarsamböndum, sem frekar má kalla kynlífssambönd, og varð ófrísk meðan á einu þeirra stóð.

Hún bað barnsföður sinn að giftast sér en hann bara ekki þverneitaði, hann fyrirfór sér.

Martha hafði aldrei fundið jafn sterkt fyrir höfnun í lífinu og að vita mann frekar kjósa að deyja en að vera með henni. Hún fékk taugaáfall og var lögð inn á geðdeild.

Drakk og dreymdi um rómantík

Þegar að dvölinni þar lauk hélt hún aftur heim til Flórída og útskýrði óléttuna með því að segjast hafa gifst hermanni sem látist hefði í stríðinu á Kyrrahafi. 

Martha varð nú virðingarverð ,,ekkja“, eignaðist dóttur og fékk vinnu á sjúkrahúsi en var enn og aftur rekin fyrir óviðeigandi hegðun gagnvart sjúklingum og starfsfólki, og þá helst karlmönnum. Hún var þá nýorðin 22 ára. 

Aðeins sex mánuðum síðar giftist hún strætisvagnabílstjóra nokkrum en þau skildu nokkrum mánuðum síðar. Martha var þá ófrísk að sínu öðru barni.

Samt sem áður var framtíðin bjartari en oft áður og 24 ára gömul fékk hún stöðu sem yfirmaður heimilis fyrir fötluð börn.

Henni gekk loksins vel í starfi en áfengisneysla hennar, sem hafði alltaf verið mikil, jókst nú verulega auk þess sem hún hélt sífellt áfram að fitna.  Eftir að börn hennar voru sofnuð sat Martha ein, drakk og las ástarsögur og horfði á rómantískar kvikmyndir þar til hún leið út af drykkju. 

Martha var með ástina á heilanum.

Raymond 

Samstarfsmenn hennar tóku að sjálfsögðu eftir að eitthvað var mikið að hjá Mörthu og ákvað einn þeirra að atast í henni með því að senda inn einkamálaauglýsingu í eitt þeirra fjölda blaða sem gefin voru út fyrir fólki í leit að maka í þá daga, oft kölluð ,,Lonely Hearts“ tímarit. Langflestir lesenda voru konur og í slíkum sneplum var að finna væmnar ástarsögur, ráð um makaleit en það sem mest dró að voru smáauglýsingarnar.

Raymond og Martha.

Aðrir segja reyndar að hún hafi auglýst að eigin frumkvæði en hvort sem rétt er fékk Martha fljótlega svar frá manni að nafni Raymond Martinez Fernandez.

Fjögurra barna faðir og íssali

Raymond var fæddur á Hawaí árið 1914, sonur spænskra foreldra sem síðar fluttu til meginlands Bandaríkjanna. Faðir hans var verkamaður sem kom illa fram við konu sína og börn og tók meðal annars Raymond úr skóla og skikkaði í vinnu. Fjölskyldan bjó í Bandaríkjunum  í nokkur en flutti svo til smábæjar á Spáni þar sem föður hans tókst að næla sér í bæjarstjórastöðu.

Þegar Raymond var tvítugur flutti hann að heima og til Gíbraltar. Þar keypti hann sér ísbíl og vann fyrir sér sem íssali. 

Honum tókst einnig að ná samningum við Breta um njósnir á eyjunni í seinni heimsstyrjöldinni, þénaði vel á því, og kvæntist spænskri konu og eignaðist með henni fjögur börn. 

Slysið

Í desember 1945 , þá 31 árs, steig Raymond í skip á leið til Bandaríkjanna án konu sinnar og barna. Hugmyndin var að finna þar vinnu, enda erfitt að sjá fyrir sex manna fjölskyldu með ísbílinn einan að vopni. Ekkert fé var heldur að hafa frá Bretum eftir að stríði lauk.

Á leiðinni gekk yfir mikið óveður og fékk Raymond stóran stálbita í höfuðið. Hann hlaut margvíslega og alvarlega áverka á höfði og þurfti að dvelja lengi á sjúkrahúsi við komuna til Bandaríkjanna.

Og svo virðist sem persónuleiki hans hafi gjörbreyst eftir að útskrifina að sjúkrahúsinu árið 1946. 

Vúdú og svartigaldur

Raymond hafði almennt verið fremur þögull og feiminn og ekki haft sig mikið i frammi. Eftir slysið varð hann árásargjarn, grimmlundaður og fullur fljótfærni. Hann fékk einnig kynlíf á heilann.

Hann hóf að fremja alls kyns smáglæpi og hlaut fljótlega sinn fyrsta dóm fyrir rán og sölu á þýfi. Bar hann fyrir sig að ráða ekki við hegðun sína sökum höfuðáverkanna. Dómara var sama um slíkar afsakanir og dæmdi Raymond til eins árs fangelsisvistar.

Innan múra tengdist hann hópum sem stunduðu vúdú og svartagaldur og fullyrtu að þeir gætu stjórnað hegðun annarra. Raymond varð heillaður og notaði tímann til að sökkva sér ofan í hin dimmu fræði. 

Geislaði ekki af þokka

Að afplánun lokinni flutti hann til New York og hóf að skrifa konum sem sent höfðu inn einakmálaauglýsingar í leit að ást og hjónabandi.

Raymond var þá orðin þess fullviss að með getu sinni hefði gert sjálfan ómótstæðilegan í augum kvenna sem gætu ekki neitað honum um neitt.

Aftur á móti er seint hægt að segja að Raymond hafi geislað af kynþokka. Hann var lágvaxinn, rýr og hálfsköllóttur auk þess að vanta nokkrar tennur.

Lucilla

En á þessum árum voru margar konur ekkjur eftir stríðsárin og gengu skrifin prýðilega. Raymond notaði fjölda nafna og titla, vann sér inn traust kvennanna þar til hann sá sér fært að féfletta þær. Lét hann sig þá hverfa, oft með aleigu kvennanna, og hóf leit að næsta fórnarlambi. 

Lucilla Thompson

Raymond gekk meira að segja svon langt að bjóða einni ,,unnustunni“ til Spánar, Sú hét Lucilla Thompson, hafði aldrei verið gift né við karlmann kennd, og rak vinsælt gistihús ásamt móður sinni. Þær mæðgur voru því fremur efnaðar.

Það síðasta sem vitað er með vissu er að það heyrðist til Lucillu og Raymond rífast á spænsku hóteli og hótaði Lucilla að snúa heim til Bandaríkjanna daginn eftir. Hún lést aftur á móti um nóttina og var aldrei grafist fyrir um dánarorsök. Raymond bankaði upp á hjá móður hennar nokkrum dögum seinna og lagði fram erfðaskrá Lucillu og hann nefndur einkaerfingi. Öldruð móðir Lucillu var frá sér af sorg og trúði hinum ,,sorgmædda“ unnusta.  Raymond hirti eigur Lucillu, tók sér nýtt nafn og hvarf.

Síðar kom í ljós að erfðaskráin var fölsuð. 

Sjóðheit ást

Raymond hélt áfram uppteknum hætti og ein þeirra kvenna hann svaraði var Martha Beck.

Við tók helsjúkt ástarsamband, litað af blindri hollustu, afbrýðisemi, græðgi og siðleysi. 

Eftir sjóðheit bréfaskrif í nokkrar vikur fór Raymond til Flórída að hitta Mörthu. Martha varð jafnvel enn ástfangnari af honum og ólíkt öðrum mönnum gerði hann ekki lítið úr útliti hennar og kom þokkalega vel fram við hana. Þau voru einnig samstíga í áhuga sínum á kynlífi.

Raymond var allt sem Mörthu hafði dreymt um við lestur rómansana. Og meira til. 

Raymond ,,kvæntist“ Esther Henne í janúar 1948. Hún er ein þeirra sem sluppu á lífi.

Hvort að Raymod varð raunverulega ástfangin af Mörthu eða sá tækifæri til að nýta sér blinda hollustu hennar verður seint vitað. Upphaflega hafði Raymond ætlar að svíkja fé út úr Mörthu en eitthvað fékk hann tl að hætta við og treysta henni. Hún var þar að auki svo og segja eignalaus og því engu að stela. Raymond gerði svolítið sem hann hafði aldrei gert áður og sagði henni alla sólarsöguna af svikunum. 

Martha sá ekkert athugavert við það né neitt annað við Raymond yfirleitt.

Glæpasamband myndast

Raymond hélt þó heim á leið eftir nokkra daga sem enn jók á drykkju og dónaskap Mörthu. Hún var rekinn af barnaheimilinu en var nokk sama.  Svo lengi sem hún hefði Raymond sinn væri hamingja hennar tryggð.

Þau héldu áfram að skrifast á en Raymond var að missa áhugann og vildi ljúka sambandinu. Martha hótaði þá sjálfsmorði og hvort það var sjálfsvígshótunin eða eitthvað annað er óljóst en Raymond samþykkti að hún flytti til hans í New York.  En án barnanna því hann þyldi ekki börn.

Hún pakkaði því saman eigum sínum og skildi börn sín eftir á Hjálpræðishernum án þess svo mikið sem kveðja. Því næst steig hún upp í rútu og hélt á vit elskhuga sins.  

Í ágúst 1948 ,,kvæntist“ Raymond Myrtle Young. Hún var ein þeirra sem lifði.

Hún flutti inn á Raymond og helgaði sig honum algjörlega. Martha gerði allt sem Raymond bað um og rúmlega það, ekki síst á sviði kynlífs sem bæði voru heltekin af. Ekkert annað komst að hjá Mörthu en að hræðslan við að missa stóru ástina í lífi sínu og þegar að Raymond bað hana um aðstoð við glæpina játaði hún umsvifalaust. 

Reyndar fannst Mörthu ekkert rangt við aðfarir elskhuga síns og fór jafnvel fram úr honum í siðleysi og grimmd, eins og síðar kom í ljós. 

Sjúkleg afbrýðisemi

Raymond hélt því áfram að auglýsa og kynnti Mörthu alltaf sem systur sína þótt að nöfnin væru aldrei hin sömu. Í sameiningu flökkuðu þau Bandaríkin og sviku þau fé út úr fjölda kvenna. Raymond kvæntist meira að segja að minnsta kosti tveimur konum undir dulnefnum, fljótlega eftir fyrstu kynni. Stundum aðeins örfáum dögum.

,Systkinin“ hurfu svo skömmu síðar og skildu konurnar eftir allslausar. 

Raymond bauð mörgum kvennanna heim til sín og ,,systur“ sinnar í New York. Ávinningurinn var tvöfaldur. Bæði gat Martha verið óáreitt í íbúð Raymond án þess að orðrómur um sambúð ógiftra einstaklinga færi á flakk í hverfinu en einnig voru konurnar viljugri til að treysta Raymond þegar að ,,systir” hans var með þeim. 

En Martha var sjúklega afbrýðisöm yfir þeirri athygli sem Raymond veitti öðrum konum, ekki síst þegar hann svaf hjá þeim, sem gerði Mörthu stjórnlausa af reiði og afbrýðisemi. 

En það var Janet Fay sem varð til þess að Martha missti endanlega stjórn á sér.

Janet Fay

Raymond hafði rekist á auglýsingu Janet um sannkristinn eiginmann og varð Janet svo hrifin af bréfi hins trúhneigða ,,Charles Martin“ að hún bauð honum í heimsókn á nýjársdag. ,,Charles“ bankaði upp á, ásamt ,,systur“ sinni og svo uppnuma var Janet að hún tók bónorði ,,Charles“ daginn eftir.  Janet var strangtrúuð en ,,Charles“ gat samt sem áður sannfært hana um að flytja inn til þeirra systkina fyrir hjónaband og jafnvel stunda kynlíf, sem var Janet alveg framandi fram að því. 

Janet Fay.

Fljótlega náði Raymond að tæma alla bankareikna Janet, alls sex þúsund dollara. Smám saman fylltist Janet grunsemdum og trúði vinum og fjölskyldu fyrir að hún hefði efasemdir um að fjölskyldubönd ,,systkinanna“ sem engu gátu svarað um æskuár sín. Auk þess var eitthvað skrítið væri í gangi varðandi fjármál hennar.

 Janet ákvað þó að gefa sambandinu tækifæri enda ástfangin af ,,Charles“. 

Fyrsta morð Mörthu?

Eftir að uppgötva kynlíf virðist Janet hafa kunnað því afar vel og voru þau Raymond iðinn við slíkar athafnir. Martha hlustaði fyrir utan svefnherbergið og varð sífellt reiðari. Að því kom að hún rauk inn í herbergið, vopnuð hamri og og barði Janet næstum til bana.

Raymond horfði á og hló. Hann kláraði síðan verkið fyrir Mörthu með því að kyrkja Janet. Enginn veit hvort um fyrsta morð Mörthu var að ræða, Raymond hafði næstum örugglega myrt áður, en Janet er fyrsta fórnarlamb Mörthu sem örugglega er vitað um.

Fjölskylda og vinir Janet fylltist grunsemdum þegar ekkert heyrðist frá henni og mundu vel eftir vangaveltum hennar um að hugsanlega væri ,,systkinin” ekki öll þar sem þau væru séð. Fjölskyldan marghringdi og kom í leit að Janet en þegar að Raymond var búin að afsaka fjarveru Janet æ ofan í æ hótað fjölskyldan að kalla til lögreglu nema að sjá Janet eigin augum. 

Parið ákvað að tíma væri kominn til að láta sig hverfa og fluttu til Michigan.

Delphine og Rainelle

Í febrúar 1949 kynntist Raymond enn nýrri konu í gegnum auglýsingar.

Sú hét Delphine Downing og var 28 ára gömul ekkja og móðir tveggja ára telpu, Rainelle. Þó hófu ástarsamband og aftur hófst líflegt kynlíf á heimili ,,systkinanna,“ jafnvel enn líflegra en þegar að Janet bjó með þeim. Martha hataði Delphine af öllu hjarta og krafðist þess að Raymond losaði sig við hana.

Delphine og litla Rainelle.

Líkt og Janet sálugu fannst Delphine að ekki væri allt með felldu. Ekki síst vegna augljósrar afbrýðsemi ,,systurinnar“ sem virtist hafa óeðlilegan áhuga á kynlífi ,,bróður“ síns svo og sífelldra spurnina hans um fjármál hennar.

Hún gerði þau mistök að orða grunsemdir sínar en Raymond tókst að róa hana.

Hann vissi þó að þau Martha voru kom út á hálan ís og aðeins tímaspursmál hvenær Delphine áttaði sig á stöðu mála. 

Af hverju að vakna?

Eitt kvöldið þegar ,,systkinin” voru í heimsókn hjá Delphine bauð Raymond henni lyf sem hann sagði valda fósturmissi og þar sem Delphine hafði nýlega rætt ótta sinn við að vera hugsanlega ólétt, gleypti hún pillurnar orðalaust. Aftur á móti var um sterk svefnlyf að ræða og fljótlega datt Delphine út af.

Heimili Delphine og Rainelle.

Tveggja ára barnið var afar hrætt, ein með ókunnugu og háværu fólki, og grét sárt. Martha þoldi Rainelle litlu ekki og reyndi í bræði sinni að kyrkja hana. Delphine hafði þá verið meðvitundarlaus í nokkra klukkutíma. Raymond stöðvaði Mörthu og sagði að ef Delphine mynda vakna og sjá áverka á barninu væru þau í vondum málum.

Martha sagði enga ástæðu til að Delphine ætti yfirleitt að vakna og tók Raymond undir það og skaut meðvitundarlausa konuna. Því næst grófu þau Delphine í kjallaranum. 

Aðeins tvö af þessum sex fórnarlömbum lifði af kynnin við húin. Frá vinstri að ofan. Lucilla (næstum örugglega myrt), Esther (lifði af), Myrtle (lifði af), Janet (myrt), Delphine (myrt) og Rainelle (myrt).

Pirrandi barnsgrátur

Martha og Raymond dvöldu áfram í húsinu og í tvo daga ræddu þau um hvað skyldi gera við barnið. Rainelle grét stanslaust, neitaði að borða, og kallaði á mömmu sína. Þau íhuguðu að skilja hana eftir fyrir munaðarleysingjahæli en komust að þeirri niðurstöðu  að það væri of hættulegt og mætti hugsanlega rekja barnið til þeirra. 

Á endanum fór gráturinn í barninu svo í taugarnar á þeim að Raymond bað Mörthu um að myrða hana. Martha var jafn pirruð á Rainelle litlu og hlýddi. Hún fyllti því baðkarið og drekkti litlu stúlkunni. Parið gróf hana því næst við hlið móður sinnar í kjallaranum. 

Viðurkenndi sautján morð

En nágrannar Delphine voru fullir grunsemda um að ekki væri allt með felldu og kölluðu til lögreglu sem mætti á svæði og handtók parið hið snarasta þegar þau komu heim úr kvikmyndahúsi.

Við yfirheyrslur viðurkenndi Raymond að hafa myrt sautján konur, víðs vegar um Bandaríkin, en dró þá játningu síðar til baka. Sagðist hann hafa verið að vernda Mörthu og þar sem Michigan var ekki með dauðarefsingu hefði hann viljað sjá réttað yfir henni þar. 

Það dugði þó ekki til. Yfirvöld kusu að verða frekar við framsalsbeiðni New York vegna morðsins á Janet Fay.

Ástæðan? New York fylki var með dauðarefsingu. 

Lík mæðgnanna grafin upp.

Einkamálamorðingjarnir

Raymond gaf lítið uppi við yfirheyrslur annað en að Martha væri saklaus. Hann játaði þó morðið á Janet og gerði Martha slíkt hið sama. Bæði voru dæmd til dauða fyrir morðið. Martha eyddi öllum sínum tíma í fangelsinu að skrifa  eldheild ástarbréf sem Raymond stundum svaraði.

Martha sagði einnig lögreglu að þau hjúin væru langt frá þvi að vera þau einu sem stunduðu glæpi í gegnum auglýsingar rómantísku tímaritanna og hættu mörg þeirra snarlega starfsemi þegar að þau fundu fyrir auknum áhuga yfirvalda. 

Handökumyndir parsins.

Vinsældir einkamálblaðanna, og auglýsinga þeirra hrundi svo segja alfarið eftir að málið rataði í fjölmiðla. Fóru þau tímarit, sem þá ekki þegar höfðu hætt starfsemi, næstum öll á hausinn. 

Fengu Raymond og Martha viðurnefnið ,,Einkamálamorðingjarnir” .

Síðustu samskiptin

Raymond sagðist við yfirheyrslur þykja vænt um Mörthu, meira en nokkurn annan í lífi sínu,  en aldrei hafa verið ástfanginn af henni. Einnig kom í ljós að hann hafi smitað Mörthu af fjölda kynsjúkdóma, með annars hinum þá lífshættulega sýfilis. Martha tók fréttirnar afar nærri sér.

Hún hafði reyndar takmarkaðan áhuga á kynsjúkdómunum en að heyra að Raymond hefði aldrei verið ástfanginn af henni? Það fór með hana. 

Raymond og Martha ásamt lögfræðingi sínum.

Martha hætti ástarbréfaskrifum allt þar til tveir dagar voru í aftöku þeirra og búið að loka á öll bréfaskrif. Raymond bað þá fyrir þau skilaboð til Mörthu að hans síðasta ósk væri að allur heimurinn vissi um ást sína á henni.

Hún gladdist mjög og sendi þau skilaboð til baka að hún elskaði hann takmarkalaust. Ást hennar væri slík, að henni væri nákvæmlega sama um kynsjúkdómana svo og játningu um ástleysið.  

Martha missti aldrei tækifæri til að tjá Raymond ást sína. Ekki einu sinni á leið í réttarsal.

,,Hrein og takmarkalaus ást“

Martha ræddi við blaðamann daginn fyrir aftöku sína og  sagði hún litlu máli skipta hver væri sekur um hvað. Hún sýndi enga iðrun né samúð með aðstandendum fórnarlambanna en kaus þess í stað að ræða ást sína á Raymond. 

,Saga mín er saga hreinnar og takmarkalausrar ástar og það getur enginn skilið mig nema þeir sem hafa verið upplifað slíka ást. Ég er feit og ljót og enginn hefur nokkuð tíma viljað mig, nema elsku Raymond minn sem veitti mér alla mína hamingju.  En ég er ekki heimsk eða án tilfinninga og  langt frá því að vera fyrsta manneskjan sem fremur glæpi í nafni ástarinnar.”

Svo mörg voru þau orð.  

Lík í kjallaranum?

Í dag gráta margir fræðimenn að hafa ekki meiri gögn í höndunum. Var Raymond heilaskaðaður, með geðsjúkdóm eða hreinlega illmenni? Var Martha veik á geði? Hafði hún verið fórnarlamb misnotkunar? Hvað olli sjúklegri þörf hennar til að þóknast Raymond? Eða var hún kannski drifkrafturinn í voðaverkunum? Þær spurningar lifa enn góðu lífi. 

Hjúin voru tekin af lífi í rafmagnsstól Sing Sing fangelsins sama dag, þann 8. mars 1951 . Dómurinn var fyrir morðið á Janet Fay en hvorki Delphine né Raydóttir hennar fengu réttlæti þar sem það þótti tímaeyðsla á þeim árum að senda fanga á milli fylkja ef að dómur á einum stað var nógu strangur.

Hvað þá ef um dauðarefsingu var að ræða. 

Martha brotnaði saman við að heyra dauðadóminn.

Ekki tókst að sanna til fullnustu önnur morð á hjúin, nema auðvitað á mæðgunum. Raymond hafði viðurkennt að morðin væru sautján en fjöldi fórnarlamba er talin vera mun nær þrjátíu og hugsanlega er talan enn hærri.  

Við munum aldrei vita fjölda fórnarlamba einkamálamorðingjanna.

En það er talið líklegt að fjöldi líkamsleifa nafnlausra kvenna, og ef til vill barna, séu enn þann dag í dag grafin í kjöllurum víðs vegar um Bandaríkin. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“