Kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson segir í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni Karlmennskan að laun hans séu í raun ekki jafn há eins og kemur fram í fréttum DV og annarra í dag. Þorsteinn var með samtals 1.314.431 kr. í mánaðarlaun miðað við greitt útsvar árið 2021 en hann segir að þessi háa tala sé tilkomin vegna þess að það gleymdist að skila skattframtalinu hans.
„Samkvæmt álagningarskrá er ég sagður vera með um 1,3 m. kr à mánuði. Mikið vildi ég að það væri raunin en mér finnst réttast að benda ykkur allavega á hið rétta,“ segir Þorsteinn í færslunni. Þá segir hann launin sín hafa verið um 700 þúsund á mánuði árið 2021 og að þau komi vegna fyrirlestra, samstarfs og ráðgjafar í jafnréttismálum.
Sjá einnig: Tekjudagar DV – Kristján Einar ber höfuð og herðar yfir aðra áhrifavalda
Þorsteinn segir þá frá ástæðunni fyrir þessum mismuni. „Ástæða mismunarins felst í því að allur rekstur í tengslum við Karlmennskuna (átakið jákvæð karlmennska þar með talið styrkir vegna grafík, auglýsinga og fleira, leiga húsnæðis, kaup búnaðar og fleira) er áætlað sem laun. Á meðan stór hluti er kostnaður,“ segir hann.
„Þetta hljómar eins og lygasaga, en ástæða þess að launin eru sögð mun hærri en þau eru í raun er vegna þess að endurskoðandinn gleymdi að skila skattframtalinu mínu.“
Með færslunni lætur Þorsteinn fylgja skjáskot af launaseðli sínum fyrir október og skjáskot af svari endurskoðandans þegar hann fékk hærri áætlaðan skatt en hann bjóst við í lok maí. „Þá vitiði það, en ég væri svosum alveg til í að vera með rúma milljón á mánuði. Mér finnst hins vegar mikilvægt að vera heiðarlegur og leiðrétta misskilninginn.“
Færslu Þorsteins má sjá hér fyrir neðan: