fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fókus

Emil Hjörvar Petersen rithöfundur – ,,Ég var eins og krakkarnir í Stranger Things“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 13. ágúst 2022 11:08

Emil Hjörvar Petersen rithöfundur Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég miða upphafið að þessari ástríðu við jólin 1994. Þá var ég tíu ára og fékk spunaspilið Askur Yggdrasils í jólagjöf. Ég byrjaði að spila með systkinum mínum og vinum og varð agndofa,” segir Emil Hjörvar Petersen, rithöfundur. 

,,Þaðan fór ég yfir í að lesa fantasíubækur og varð heillaður af goðafræðinni og möguleikunum á að segja sögur og búa til eigin heima og geima.”

Aðspurður hvort hann hafi verið eins og krakkarnir í ,,Stranger Things” þáttaröðinni segir Emil það hárrétta lýsingu þótt þættirnir eigi að gerast aðeins á undan hans samtíð. ,,Við vinirnir vorum í eigin heimi. Og núna þegar ég er orðinn fullorðinn eru þetta miklu meira en ævintýri fyrir mér því ég blanda saman raunveruleika og fantasíu.”

Emil segist þó aldrei hafa verið lokaður sem krakki, og reyndar frekar uppátækjasamur. ,,Og ég æfði fótbolta og annað slíkt sem krakkar gera. En ég hafði alltaf þessa þörf til að draga mig í hlé og spá og spekúlera og það hefur fylgt mér fram á fullorðinsárin.”  

Emil segist ekki hafa haft mikið af íslensku efni að leita í þótt hér á landi hafi lengi verið hefð fyrir ævintýra- og fantasíubókmenntum fyrir börn og unglinga. 

,,En það hafði enginn riðið á vaðið með það sem ég fékk seinna meir ástríðu fyrir. Ég var um 13 ára þegar ég byrjaði að prófa mig áfram með að skrifa og búa til alls kyns heima og þessi áhugi hætti aldrei að blunda í mér. Ég var heillaður af fantasíum og sagnahefð en var ekki mikið að ræða það.”

Við erum sammannleg

Hvað telur Emil að dragi okkur að heimi fantasíunnar, sagna og ólíkra heima? Hvort sem um er ræða Stjörnstríða eða Hringadróttinssögu? 

,,Sumir segja að fantasía sé flótti frá raunveruleikanum, en þær eru það ekki. Allar sögur, og í raun öll list, hjálpa okkur að meta og endurmeta lífið og tilveruna. Sagnalistin hefur alltaf fylgt okkur og fantasían á stóran þátt í að varðveita hana. . Fantasían tekur við fornum kjarna goðsagna en er samt háð raunsæi skáldsagnaformsins og endurvinnur hann. Mér finnst svo áhugavert hvernig sögur hafa þróast, í raun frá upphafi mannkyns. Það hefur verið sýnt fram á svipað sagnamynstur hjá flestum ættbálkum og menningarheimum í gegnum tugþúsundir ára og í raun frá upphafi mannkyns. Það er þessi tímalausi, sammannlegi þáttur sem ávallt hefur verið til í öllum menningarheimum. Sagnalistin sameinar okkur.”

Emil segir það sína sýn að með fantasíunni sé verið að gera hinu sammannlega úr goðsögum og þjóðsögum skil en samt sem áður með formi sem kallar á raunsæi. Það heilli hann. 

,,Fantasían býður upp á alls kyns leik með gráa svæði lífsins, ekki bara flekklausu hetjuna og vonda drekann eða galdrakarlinn, sem var orðið útþynnt afþreying, ekki síst í Bretlandi og Bandaríkjunum hér á árum áður. Fantasíubækur ganga út á miklu meira en það. Flestar af mínum söguhetjum eru ansi breyskar, bæði guðir og menn, og þurfa að takast á við það sem við öll þurfum að takast á við. ”

Vel í lagt

Emil les allar tegundir bókmennta. ,,Ég kláraði bókmenntafræði í háskóla, þá var ekki byrjað að kenna ritlist, en ég vildi vera nálægt öllu sem tengdist bókum og bókmenntum. Reyndar byrjaði ég sem ljóðskáld, en var á milli þessara tveggja heima. Svo að lokum var kominn tími til: Ég vildi sýna og sanna að unnt væri að skrifa fantasíubókmenntir á íslensku. Og í dag, rúmlega áratug síðar, er það orðið sjálfsagðara.” 

Emil valdi ekki auðveldustu leiðina því hann byrjaði á þríleik, sem hann viðurkennir að hafa verið vel í lagt. 

,,Ég var á milli svefns og vöku í desember 2006 þegar ég fékk hugmyndina að Sögu eftirlifenda. Ég vissi að þetta var hugmyndin sem ég var búinn að bíða eftir, en ég hélt henni alveg út af fyrir mig. En hugmyndin, hún lét mig ekki í friði.” 

Þríleikurinn hefur verið kallaður brautryðjendaverk og fjallar í stuttu máli um æsina sem lifðu afr Ragnarök. ,,Hinir minni æsir lifa af í heimi sem þeir áttu að taka við en endursköpunin fer úrskeiðis og fylkingar myndast. Við erum dæmd til að endurtaka sömu mistökin. Saga eftirlifendanna – enginn hafði sagt þá sögu.”

,,Ég vissi að þetta yrði erfitt en ég varð að gera þetta.

Var staðráðinn

Árið 2009 ákvað Emil að nú væri komið að þessu. Um haustið flutti hann ásamt konu sinni til Svíþjóðar. ,,Þar kom krafturinn og allt fór að smella saman. Ég var staðráðinn í að klára þríleikinn.” 

Hann segir þetta ekki hafa verið auðvelt í upphafi. ,,Þeir útgefendur sem ég talaði þá við álitu mig frekar ljóðskáld eða hefðbundnari íslenskan höfund og vissu því ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar ég birtist með þetta. Hver væri að fara að lesa fantasíubókmenntir á íslensku fyrir fullorðna?” 

Nokkrar af bókum Emils Mynd/Anton Brink

Emil segir markaðinn erlendis risastóran en hlutina öðruvísi hér heima. ,,Það þótti nýtt að koma fram með galdra og yfirnáttúrulega hluti fyrir fullorðna og ekki talinn markaður fyrir slíku hér á landi.”

Lagði allt í sölurnar

Emil segist hafa tvíelfst, hent því sem hann hafði þegar skrifað, haldið grunnhugmyndum en byrjað upp á nýtt. 

,,Ég ætlaði að sýna og sanna að þetta væri hægt og leyfði öllu því sem ég hef áhuga á að flæða í gegn. Áhrifin koma víða. Ég drekk í mig fagurbókmenntir, horfi á hryllingsmyndir og spila tölvuleiki.” 

Emil hafði þá lokið ritstjórnarnámi og verið í starfsnámi hjá bókaútgáfu hér heima og kunni töluvert vel inn á slíkt. Hann ákvað því að gefa út sjálfur, með því algjöra frelsi sem því fylgir. 

,,Ég vissi hvað þyrfti til, að ekki væri hægt að gera þetta með hálfkáki.  Vönduð kápa, vel uppsettur texti, en ég átti auðvitað engan pening. Eftir að ég fékk síðustu námslánagreiðsluna eyddi ég hverri krónu í verkið því ég hafði það mikla trú á því. Ég lagði allt í sölurnar. 

Emil Hjörvar Petersen rithöfundur

Þegar ég sótti bókina í prentsmiðjuna átti ég 2000 krónur eftir en fann leiðir til að markaðssetja svo til án þess að eyða neinu að ráði.” 

Emil náði samt að komast út á núlli sem hann kveðst bara nokkuð gott. 

18-90

Fyrsta bók þríleiksins fékk góðar viðtökur, bæði hjá gagnrýnendum og almenningi, og meðal annars bað menntaskóli um 200 eintök sem aukaefni í goðafræði. Hann var þá með næstu bók í huganum og boltinn fór að rúlla. 

Hann gaf allar þrjár út sjálfur með tveggja ára millibili eftir að hafa helgað sig hugmyndinni í átta ár. 

Aðspurður um lesendahóp segir Emil sig hafa fengið viðbrögð frá fólki átján ára til níræðs. 

,,Þá fór margt að breytast.  Ég fékk samning hjá Bjarti-Veröld og var svo lánsamur að fá listamannalaun, sem getur tekið mörg ár að fár. Þau breyttu miklu eftir að hafa verið að plægja akurinn lengi úr eigin vasa og ég hefði ekki getað haldið áfram án listamannalaunanna. Þau eru það sem heldur íslenskum bókmenntum á lífi.” 

Öfugt við útlönd

Emil segir fantasíuna vera gríðarlega stóran heim erlendis, með fjölda undirflokka. Hann nefnir nokkra sem blaðamaður verður að viðurkenna að hafa aldrei heyrt minnst á. 

,,Þegar þú ferð inn í bókabúðir erlendis þá er 90% af þessu efni miðað að fullorðnum lesendum. En hér heima hefur þessi verið öfugt farið.”

Hvaðan koma persónur Emils? ,,Persónurnar mínar eru byggðar á raunverulegu fólki og það er mikið af mér sjálfum í bókunum. Það er margt undirliggjandi en ég vil alls ekki vera með neinar beinar predikanir. Ég nota fantasíuna til segja sögur en nálgast samt líka málefni á borð við jafnréttismál og umhverfismál á margs konar hátt. Í fantasíum getur allt gerst og því hægt að ganga lengra en innan margra annarra bókmenntagreina. 

Botnlaus brunnur

Næsta bók Emils, Víghólar kom út 2016. Um er að ræða glæpafantasíu sem sækir mikið í íslenska þjóðtrú. Hún fjallar um miðil og dóttur hennar, sem vinna með lögreglunni. 

,,Ég var kominn nær raunveruleikanum og tókstá við samtímavandamál en sakamálin tengjast þó sagnaheimum þjóðtrúarinnar. Það kemur mér alltaf á óvart af hverju meira hefur ekki verið gert af því að nýta þetta efni fyrir fullorðna, ekki bara börn og unglinga. 

Við höfum þennan gríðarlega sagnaheim og skrítnu hjátrú. Þetta er botnlaus brunnur.” 

Á eftir Víghólum kom Sólhvörf árið 2017 og Nornasveimur 2018 og tengjast allar þrjár. 

Sem sýnir vel hversu afkastamikill Emil er. Hjónin voru meira að segja að eignast börn á sama tíma

,,Í dag er þetta mín vinna, ég er búinn klukkan fjögur eða fimm, við sækjum börnin, og komi hugmynd skrifa ég hana bara snögglega niður og hefst aftur handa klukkan átta morguninn eftir.  

Hrollvekjur og sálfræðiþrillerar

Emil er fullur hugmynda og nú farinn að færa sig nær hrollvekjum og sálfræðiþrillerum. 

Síðustu tvær bækur Emils,  Ó, Karítas og Hælið komu út sem Storytel Original í fyrra, enda Storytel farið að bjóða upp á frumunnið efni. 

,,Þar á undan hafði fyrirtækið haft samband með áhuga Víghólum, Sólhvörum og Nornasveimi. Ég tók vel í það og þær komu út í samvinnu við útgefanda. Hælið var aftur á móti fyrsta prentaða bók Storytel á Íslandi.”

Emil Hjörvar Petersen rithöfundur Mynd/Anton Brink

Ó, Karítas og Hælinu var gríðarlega vel tekið. Sjálfur er Emil úr Kópavogi og hefur nýtt sinn heimabæ sem sögusvið, til dæmis í Hælinu, samblandi af hrollvekju og tímaflakkssögu sem tengist gamla Kópavogshælinu. 

,,Þar sem þessi tegund bókmennta hefur ekki verið algeng á Íslandi er oft bæði snúið og gaman að finna íslensk orð og orðasambönd yfir alls kyns hugtök sem lítil hefð hefur verið fyrir á Íslandi.”

Í næsta mánuði kemur út ný bók eftir Emil hjá Storytel, glæpahryllingssaga sem nefnist Dauðaleit; saga sem hann hefur lengi gengið með í maganum. Meginsögusviðið er Hamraborg í Kópavogi.

Hitti höfund Sandman

Emil fer mikið á erlendar ráðstefnur um fantasíubókmenntir þar sem hann kynnir hinar íslensku bókmenntir innan þessa risastóra geira. 

,,Þetta var lengi vel bundið við Bandaríkin en er að breytast hratt og núna er miklu meiri alþjóðlegur áhugi og bækur að koma alls staðar að úr heiminum. Það er mikilvægt að vera í sambandi við það sem er að gerast erlendis og færa áhrifin hingað heim. Maður fær tækifæri til að kynnast alls kyns höfundum og ég spjallaði til dæmis mikið við Neil Gaiman, höfund Sandman, á einni ráðstefnunni, en þættir eftir bókunum eru nú á Netflix. 

Ég las bækurnar þegar ég var 17 ára og þá urðu ákveðin straumhvörf í lífi mínu; ég sá hvað fantasían bauð upp á.”

Emil segir það jafn skemmtilegt að skrifa fyrir prent- og hljóðbækur og er núna að skrifa sjónvarpsþáttahandrit fyrir Sagafilm, sem honum finnst afar spennandi ferli. Samstarfið hófst þegar Sagafilm tryggði sér sjónvarpsþáttaréttinn af Víghólum. 

Hægt eða ógnarhratt

Varðandi þetta nýja verkefni getur hann lítið talað en að um hans eigin sögu sé að ræða. 

,,Það er töluverður munur á þessum miðlum. Handritsgerð er mun minni texti en hvert orð vegur mjög þungt. En þetta hentar mér vel því sjálfur nota ég mikla klippitækni í mínum sögum og ég held ég eigi auðvelt með að hugsa myndrænt.” 

Hvenær megum við eiga von á að sjá afraksturinn? ,

,,Hlutirnir gerast hægt í bókmenntunum og jafnvel enn hægar í sjónvarpsþáttagerð. En svo geta hlutirnir farið af stað á ógnarhraða upp úr þurru.”  

Emil hefur vakið athygli erlendis og farinn að huga að næstu skrefum. ,,Það er ýmislegt í gangi sem ég get ekki enn rætt. Það er svo margt sem getur gerst. En ég get sagt að Ó, Karítas kemur út á ensku á næsta ári, sem er alveg frábært!”

Ég er með fjölda hugmynda hugmynda að fleiri sögum í kollinum. Ritstörfin eru krefjandi en í grunninn er þetta einfalt, ég elska að skrifa,” segir Emil Hjörvar Petersen, rithöfundur. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna
Fókus
Í gær

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín
Fókus
Fyrir 2 dögum

Var Demi Moore að hunsa Kylie Jenner? – Sannleikurinn um atvikið sem allir eru að tala um

Var Demi Moore að hunsa Kylie Jenner? – Sannleikurinn um atvikið sem allir eru að tala um
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aubrey Plaza tjáir sig eftir sviplegan dauða eiginmannsins

Aubrey Plaza tjáir sig eftir sviplegan dauða eiginmannsins