fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Þau eru álitin meðal stórmenna sögunnar – En þau áttu sér einnig mun dekkri hliðar sem fæstir vissu af

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 10. ágúst 2022 19:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mahatma Gandhi

Mahatma Gandhi er af mörgum álitinn einn heimsins fremsti friðarsinni. En hann var ekki gallalaus frekar en nokkurt okkar. Gandhi mun hafa haft afar mikla kynhvöt, svo mikla að hann vildi frekar stunda kynlíf með konunni sinni en að sitja við dánarbeð föður síns. Ganhdi til afsökunar var hann aðeins 15 ára og nýgiftur sinni 16 ára frú.

Mynd/Getty

Þegar Gandhi var 38 ára gamall sór hann eið um skírlífi. En hann fór aftur á móti óhefðbundnar leiðir að því, eða svo eru flestar af ævisögum um hann sammála um. Hann svaf til dæmis alla sína ævi nakinn og aldrei einn, það var alltaf nakin kona með honum í rúmi og oft nokkrar. Allar voru þær töluvert yngri en hann eða allt niður í 18 ára gamlar.

Ekki voru þó allir hans fylgjendur sammála túlkun Gandhi sem sífellt predikaði skírlífi, jafnvel innan hjónabands. Hann krafðist þess að giftir fylgismenn hans byggju í aðskildum rýmum og ef að löngunin til kynlífsathafna yrði of mikil skyldi fara í kalda sturtu.

Gandhi fullyrti aftur á móti að ekkert væri óeðlilegt við þennan vana sinn að sofa með nöktum konum, þar sem enginn losti væri til staðar og því ætti engin snerting sér stað.

Walt Disney

Þegar við heyrum orðið Disney hugsum við til Mikka mús, Öskubusku, Elsu eða Simba. Hetjur teiknimyndanna.

En Walt Disney var margslungin maður. Hann var yfirlýstur kynþáttahatari sem fór ekki í felur með andúð sína á lituðu fólki. Hann var einnig annálaður kvenhatari, leit niður á konur og sagði þeim aldrei treystandi auk þess sem greind þeirra væri langum minni en karlmanna.

Mynd/Getty

Disney hafnaði öllum atvinnuumsóknum frá konum án þess svo mikið sem líta á teikningar þeirra og ferilskrár og sagði að konur væru ekki færar um frumlega hugsun, það væri einungis á færi ungra karlmanna. Honum virðist líka hafa verið í nöp við eldri karlmenn.

Og reyndar flesta, ef út í það er farið.

Móðir Teresa

Það er vart að þorandi að gagnrýna Móður Teresa, hún er jú dýrlingur innan kaþólsku kirkjunnar. Allir vita af þrotlausu starfi hennar í þágu veikra og fátækra en með árunum hafa raddir orðið háværari um að annað og meira hafi legið að baki. Og það var einlæg ást Teresu á kaþólska kirkjunni, einna helst íhaldssamari armi kirkjunnar.

Hún trúði að leiðin til guðs væri þyrnum stráð og því meiri erfiðleikar sem þjáðu fólk, því líklegra væri að því væri tryggð vist meðal hinna réttlátu í himnaríki.

Eftir því sem frægð hennar jókst fékk móðir Teresa svimandi háar upphæðir í framlög, alls staðar að úr heiminum. Samt sem áður var lítið um lyf og þjálfað starfsfólk á þeim sjúkrastofnunum sem regla hennar rak. Aðbúnaður var lélegur og hreinlæti ábótavant. Fagfólk innan heilbrigðiskerfisins hafði litla trú á þessum stofnunum og leit frekar á þá sem staði til að gefa upp öndina frekar að komast aftur til heilsu.

En Móðir Teresa leit ekki á það sem neikvætt, nema síður væri. Þjáning var að hennar mati falleg og að sumu leiti heilög. Þjáning var leið að betri heimi, heimi sem væri guði þóknanlegur. Þjáðist ekki Kristur í nafni guðs? Af hverju ættu ekki allir að fylgja í fótspor sonar guðs og þjást?

Mynd/Getty

En það má Móðir Teresa eiga að ekkert af þessum gríðarlegu fjármunum fóru til hennar persónulega. Langmest fór til trúboðsreglu sem hún stofnaði, reglu yfir 5000 trúboða sem fóru um heim allan að predika kenningar hennar og draga fólk að kaþólsku kirkjunni.

Því má við bæta að þegar að Móðirin veiktist sjálf fór hún ávallt til Bandaríkjanna þar sem hún hlaut aðhlynningu á bestu sjúkrastofnunum landsins.

Steve Jobs

Enginn getur neitað að Steve Jobs, stofnandi Apple, var snillingur. En Jobs var í raun tilfinningalegur kaldur maður sem sjaldan sem aldrei tók tillit til annarra en sjálfs síns. Hann eignaðist dóttur sem hann afneitaði og hitti fyrst þegar hún var komin á fullorðinsaldur. Hann lét stofna Apple verksmiðjur í Kína þar sem aðstæður starfsmanna voru það slæmar að fólk átti það til að deyja við iPhone framleiðslu sökum skelfilegra aðstæðna og langra vinnudaga. Þá voru dæmi um að starfsmenn tóku eigið líf.

Mynd/Getty

Jobs var margsinnis sagt hversu slæmt ástandið væri en hann lét það sem vind um eyru þjóta og fór jafnvel fram á enn meiri framleiðslu. Kannski var harðneskjan óaðskiljanlegur hluti af snilld hans?

Um það er enn deilt.

Charlie Chaplin

Charlie Chaplin, litli fyndni karlinn með kúluhattinn og stafinn, hefur glatt okkur í heila öld og sér ekki fyrir endann á.

En Chaplin hafði mikinn á áhuga á ungum konum. Og þá verulega ungum. Hann kvæntist fjórum sinnum og voru tvær eiginkvenna hans 16 ára aldri þegar þau gengu upp að altarinu. Sú þriðja var 21 árs gömul en laug að Chaplin að hún væri 17 ára. Þegar hann var 53 ára giftist Chaplin  hinni 18 ára gömlu Oona O’Neill og voru þau hamingjusamlega gift fram að andláti Chaplins, 88 ára að aldri. Hann sagði alltaf að Oona væri sinn sálufélagi.

Mynd/Getty

En það var ekki aðeins áhugi Chaplin á ungum stúlkum sem kemur einkennilega fyrir sjónir. Hann stjórnaði eiginkonum sínum með harðri hendi, gerði lítið úr þeim og hélt stöðugt framhjá þeim. Þó ekki Oona, að því er best er vitað. Chaplin eignaðist alls 11 börn sem flestöll báru honum vonda söguna, sögðu hann grimman en að öðru leyti afskiptalítinn föður.

Chaplin montaði sig á gamals aldri yfir að hafa sofið hjá meira 2000 konum og engri yfir tvítugt.

Viktoría drottning

Viktoría Bretadrottning er talin ein magnaðasta drottning sögunnar. Hún var þjóðhöfðingi á þeim tíma sem breska heimsveldið svo að segja drottnaði heiminum. Viktoría giftist frænda sínum, Albert, og frá upphafi var hjónabandið ástríkt. Og líflegt innan veggja svefnherbergisins, ef marka má heimildir. Viktoría og Albert eignuðust níu börn og 42 barnabörn.

Viktoría er oft kölluð amma Evrópu því afkomendur hennar giftust inn í flestallar konungsfjölskyldur álfunnar.

Bæði Elísabet, núverandi drottning Breta og Filippus sálugi maður hennar eru beinir afkomendur hennar.

En Viktoría hafði ekki snitti af móðurlegu eðli í sér. Hún hataði að vera ófrísk og sagði ungabörn bæði ljót og leiðinleg. Hún krafðist þess að vera svæfð meðan á fæðingum barnanna stóð og leit á ólétturnar sem fremur þreytandi fylgifisk líflegs kynlífs með Albert sínum.

Viktoría skipti sér lítið sem ekkert af börnum sínum. Hún gerði lítið úr frumburð sínum, Eðvarð VII, og sagðist hreinlega skammast sín fyrir hann. Hún gerði grín að útliti hans og greind og kenndi honum meira að segja um dauða föður síns, Alberts, sem enginn fótur er fyrir.  Þrátt fyrir að Eðvarður væri erfingi hennar neitaði hún honum að koma að málefnum ríkisins.

Hún kom ekki betur fram við önnur börn sín. Annaðhvort skipti hún sér ekki af þeim eða setti þeim óbærilega strangar reglur um hegðun, talsmáta og jafnvel fataval. Hún krafðist þess að velja maka þeirra og hafði jafnvel á launaskrá njósnara sem reglulega skiluðu inn skýrslum um börn hennar eftir að þau uxu úr grasi.

Ástandið jafnvel versnaði eftir að barnabörnin komu til sögunnar þar sem Viktoría krafðist að uppeldi þeirra yrði hagað nákvæmlega eftir hennar reglum.

Það er kannski ekki furðulegt að börn hennar hafi verið guðslifandi fegin að vera gift úr landi og flest forðuðust þau eins og heitan eldinn að fara heim í heimsókn til mömmu gömlu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín
Fókus
Í gær

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars