fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Sigurður vaknaði slappur og líf hans gjörbreyttist – ,,Þau ykkar sem halda að Covid sé bara eins og hver önnur flensa vil ég segja – Bítið í ykkur“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 6. ágúst 2022 09:00

Sigurður Arnarson. Mynd/Úr einkasafni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Eftir viku á ég merkilegt fimm mánaða afmæli. Fyrir fimm mánuðum fékk ég Covid, eins og svo margir aðrir. Þríbólusettur og fínn. Þá var fótunum kippt undan mínu daglega og ágæta lífi.

Síðan þá hafa athafnir daglegs lífs reynst mér erfiðar. Þær valda mér andþrengslum og háum púls. Sumir dagar samt skárri en aðrir,” segir Sigurður Arnarson, fyrrverandi framhaldsskólakennari og einhver mesti plöntuáhugamaður landsins í nýlegri Facebook færslu.

Sigurður er maður á besta aldri, aðeins 56 ára, virkur áhugamaður um tré og gróður, sem hann hefur meðal annars gert góð skil í fróðlegum og skemmtilegum pistlum.

Þreytist við allt

Það er augljóst hversu erfitt er fyrir Sigurð að tala við blaðamann, slík er andnauðin. Hann gefst aftur á móti ekki upp þótt augljóst sé að talið sé honum erfitt og þörf á einstaka hvíld inni á milli setninga.

 ,,Dagarnir eru misjafnlega góður en þetta er slæmur dagur í dag. Ég þreytist við allt. Ég fæ andnauð við að tala og er að uppgötva brekkur sem ég vissi ekki um. Smá halla, sem er þrekraun að labba upp þegar ég reyni að hreyfa mig. Tröppur og stigar eru alveg skelfilegir.”

Í eina prósentinu

Í fimm mánuði hefur súrefnismettun Sigurðar stundum verið helst til lítil en samt skánað. ,,Það er orðið mjög sjaldgæft að hún fari undir 90. Í fimm mánuði hefur hvíldarpúlsinn verið óvenju hár. Stundum um 80 slög per mínútu, sem í mínu tilfelli er mjög gott, og upp í liðlega 100 slög per mínútu,” segir Sigurður.

,,Hjartalæknir sem ég talaði við sagði að samkvæmt Íslenskri erfðagreiningu þá væru um það bil 1% sem lenda í þessu. Þetta var algengast eftir fyrstu bylgjuna, eða veiruna eins og hún var þá, en síðan hefur þetta minnkað. En þótt að nýir stofnar taki við, þá eru hinir ekki horfnir. Og kannski var ég bara svo óheppinn að fá veiru sem er ekki algeng.

En það vita menn ekki.”

Hann segir þessar kórónuveirur gera þetta við suma. ,,Þegar að SARS veiran var og hét fyrir nokkrum árum barst hún til Kanada. Og þá voru þeir sem þar veiktust ekki komnir i fulla vinnu ári síðar.”

Bara slæm flensa

Eins og fyrr segir var Sigurður var þríbólusettur þegar þegar hann smitaðist í mars og hafði ekki fengið Covid áður.

,,Ég veiktist 11. mars. Ég vaknaði og fann að ég var kominn með einhverja flensu og tilkynnti mig veikan. Ég tók heimapróf daginn eftir og það kom út jákvætt. Ég fékk það síðan staðfest hjá lækni tveimur dögum síðar en mér fannst þetta bara vera slæm flensa.”

Það liður nokkrir dagar og Sigurði fannst hann vera nokkuð skárri en afar þreklaus. ,,Ég reyndi að mæta í vinnu en ég hef ekki náð mér síðan.”

Of lítið vitað

Sigurður segir ekkert vitað hvað muni taka við. Hann er búinn að fara í alls kyns rannsóknir og er meira að segja með óvenjulega öflugt hjarta miðað við aldur. ,,Þetta ætti ekki að vera svona en er svona samt.”

Læknar hafa sagt Sigurði að þeir hreinlega viti ekki hvað taki við, sjúkdómurinn sé of nýr og of lítið vitað. Þetta eigi eftir að koma í ljós. ,,Einn læknir sagði að ég væri mjög áhugavert tilfelli. Það er eitthvað”

Daglegir hlutir eins og að taka úr uppþvottavél og setja í hana aftur eru Sigurði afar erfiðir. ,,Það er meira að segja erfitt að fara i sturtu. Ég þarf yfirleitt að leggja mig eftir það.” Hann segir það góða daga þegar hann geti farið í sturtu án þess að þurfa að leggja sig.

Rútínan hjálpar

Sigurður viðurkennir að þetta taki á andlega og í fimm mánuði hefur hann ekki getað unnið heilan dag. ,,En ég er heppinn með skilningsríka vinnuveitendur og reyni alltaf að fara í vinnu. En ég endist aldrei lengur en fjóra tíma og stundum bara tvo. En það hjálpar að hafa rútínu og gera eitthvað.”

Sigurður starfar á garðyrkjustöð og hefur skrifað töluvert um plöntur sem hann segir vera tölvuvinnu sem hann geti gert heiman að frá.  ,,Ég mæðist reyndar ekki við að sitja við tölvu en hef ekki mikið úthald í það. En ég get þó gert það.”

Sigurður er giftur og á tvær uppkomnar dætur. Hann segir ómetanlegt að eiga góða að. ,,Ég á stóran verðlaunagarð sem ég hef alltaf séð um en get það ekki núna. Það lendir því á konunni og dóttur minni.”

Svona er staðan

Hann segir ekkert annað að gera en að bíða og sjá til.

,,Það er mismunandi hvað er sagt. Einn hjúkrunarfræðingur sagði mér að þetta væri ekki ósvipað undirbúningi fyrir maraþonhlaup, maður þyrfti að æfa sig á hverjum degi og þreyta sig. En reynslan er sú er að ég geri of mikið hefnir það sín og ég er bara frá daginn eftir og sef og sef. Læknar hafa líka sagt mér að ofgera mér ekki en það er erfitt að finna sín mörk.”

Sigurður sefur mikið og dormir stóran hluta dagsins. Hann er með handskjálfta, stundum meiri og stundum minni.

Óvissan er algjör sem Sigurður segir alveg glatað.

,,En þetta er nýr sjúkdómur og svona er staðan. Ég verð bara að lifa með því. Fólk er mismunandi lengi að ná sér og sumir jafnvel ekki og beinlínis deyja.”

Allar bjargir bannaðar

Sigurður hefur verið virkur skákmaður til margra ára en telur ekki líklegt að hann tefli framar.

,,Ég hef ekki einbeitingu í það, maður er allur sljórri. Og þegar maður er búinn að vera með þetta svona lengi finn ég að ég þreytist enn meira því ég hef svo lítið getað hreyft mig.”

Hann tekur undir að honum séu allar bjargir bannaðar en aðspurður hvernig standi á yfirvegun Sigurðar segir hann ekki annað í boði.

,,Það er sama hvað maður gerir, þetta kemur allt í hausinn á manni. Það sem bjargar manni er að lesa og skrifa eitthvað svo maður drepist ekki úr leiðindum. Maður hefði ekki trúað þessu að óreyndu.”

Fjármálin partur af öllu

Aðspurður um hvort honum hafi verið boðin einhvers konar sálfræðiaðstoð segir Sigurður svo ekki vera.

,,Ég líka búinn með allan sjúkrarétt í vinnu og þegar ég leitaði til verkalýðsfélagsins um styrk var mér bent á viðtöl hjá VIRK. En ég veit svo sem ekki hvort það hjálpar. Fjármálin eru einnig partur af þessu öllu.”

Hann er greinilega afar þreyttur en vill allt til gera til að fólk átti sig á hættunni sem getur fylgt Covid.

Leyfum lokaorðunum í færslu Sigurðar að enda spjallið.

,,Þau gleðitíðindi hafa borist að ég fæ inni á Heilsuhælinu í Hveragerði. Fer þangað 17. október. Ef ég verð ekkert skárri eftir það verð ég að líkindum að setja húsið okkar á sölu. Ég get ekki lagt það á aðra fjölskyldumeðlimi að sjá um garðinn. Um það er ég algerlega ófær.

Þau ykkar sem halda að Covid sé bara eins og hver önnur flensa vil ég segja: Bítið í ykkur. Um 1% finna lengi fyrir allskonar áhrifum af þessari „venjulegu flensu“. Hjá þessu eina prósenti er staðan slæm. 

Mjög slæm.

Það er óþarfi að senda mér hamingjuóskir í tilefni afmælisins,” segir Sigurður Arnarson.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Kristín og Árni nýtt stjörnupar

Kristín og Árni nýtt stjörnupar
Fókus
Í gær

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þessar bækur eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Þessar bækur eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hafa miklar áhyggjur af heilsu Schwarzenegger

Hafa miklar áhyggjur af heilsu Schwarzenegger