fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fókus

Ólöf Tara um ofbeldið, veikindin, baráttuna og valdeflandi fjarþjálfun – „Ég hugsaði með mér, ég get ekki meira, ég ætla ekki að lifa svona“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. júlí 2022 08:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólöf Tara Harðardóttir er eitt af andlitum þeirrar bylgju #metoo byltingarinnar sem hófst vorið 2021. Hún getur þó ekki talist þjóðþekkt manneskja enda hefur baráttuhópurinn Öfgar, sem hún tilheyrir, komið fram sem ein heild og ekki lagt mikla áherslu á einstakar persónur innan sinna raða. DV falaðist eftir viðtali við Ólöfu Töru með hvorttveggja í huga, að fræðast um manneskjuna sjálfa og ekki síður um baráttuna gegn kynferðisofbeldi sem hún hefur að miklu leyti helgað líf sitt undanfarin misseri.

Ólöf Tara upplýsir blaðamann um að hún sé fædd árið 1990 og hafi alist upp í Hafnarfirði fram til 12 ára aldurs. „Við mamma bjuggum hjá afa og ömmu þegar ég var barn og ég á afskaplega góðar minningar frá þessum tíma. Við mamma og systur mín bjuggum svo í norðurbænum þar til ég var 12 ára, þá fluttum við í Grafarvog.“

Þrátt fyrir að vera skilnaðarbarn segist hún hafa átt mjög gott samband við föður sinn, rétt eins og við móður sína. „Hann flutti til Danmerkur þegar ég var fimm ára en við höfum alltaf haldið góðu sambandi. Þegar ég var 17 ára flutti ég út til hans og bjó hjá honum í Danmörku í rúmlega fimm ár.“

Starfsferill og menntun Ólafar Töru tengjast íþróttum og líkamsrækt. „Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á hreyfingu. Ég var í fimleikum í rúmlega 12 ár en þurfti að hætta vegna meiðsla.  Ég hreyfði mig ekki í nokkurn tíma eftir að ég hætti í fimleikum. Ég byrjaði að vinna í afgreiðslunni í World Class og þar kviknaði áhugi minn aftur á hreyfingu. Ég fór að kenna í hóptímum þar og samhliða því fór ég að þjálfa börn í fimleikum. Þetta var ótrúlega skemmtilegt en ég fann að ég þurfti að taka þetta skrefinu lengra og fór í IAK-námið í einkaþjálfun.“

Aðalstarf Ólafar Töru í dag er einkaþjálfun sem hún sinnir í fjarþjálfun og einbeitir hún sér að þjálfun kvenna. Hún segist hafa prófað ansi margt þegar hún var að þreifa fyrir sér á menntabrautinu og það vekur henni hlátur að hún hafi meðal annars skráð sig í nám í tannsmíði, sem virðist henni nokkuð fjarlægt í dag. Hún hafi hins vegar ekki fundið sig í neinu nema einkaþjálfaranáminu.

Ólöf Tara leggur áherslu á valdeflandi líkamsrækt og hugarfar sem er fjarlægt þeirri líkamsdýrkunarmenningu sem oft hefur einkennt stemninguna í líkamsræktarstöðvum. „Nálgunin í þessari fjarþjálfun er að búa til valdeflandi samfélag fyrir konur og það sprettur upp úr því að inni á líkamsræktarstöðvum er oft eitrað umhverfi. Ég upplifi að þar eigum við konur minna pláss, að við eigum bara að vera mjóar og halda okkur við brennslutækin. En ég hef engan áhuga á því. Ég hef lent í alls konar óþægilegum atvikum í ræktinni, eins og það að staðið sé yfir manni í tækjunum, verið að reka á eftir manni, svona vond karlaorka. Minn boðskapur er: Taktu plássið, þú átt heima þarna eins og allir aðrir. Við eigum öll pláss í ræktinni, sama hvert líkamlegt atgervi okkar er, ef við viljum hreyfa okkur, hvort sem það er fyrir betri líðan, til að verða sterkari, eða eitthvað annað, það skiptir ekki máli.“

Aðspurð hvort líkamsræktarmenningin hafi skánað segir hún að vissulega sé fjölbreyttari flóra af fólki í líkamsrækt, en: „Útlitsdýrkun er ekkert að minnka í samfélaginu og það er ennþá kvíði hjá ákveðnum hópi gagnvart því að fara í ræktina.“

„Þetta er fyrir allar konur sem vilja hreyfa sig, vilja bæta sig og vilja læra tækni í þessum stóru lyftingaæfingum, eins og hnébeygju og réttstöðulyftu. Æfingar sem við erum pínu hræddar við en við eigum að þora að fara í þetta, vera óhræddar við stöngina og óhræddar við að setja á stöngina og líka óhræddar við að mistakast. Það skiptir svo miklu máli. Þú þarft ekki að vera með markmið um að grennast eða eitthvert útlitslegt markmið til að fá að koma til mín. Einu markmiðin eru að vilja verða sterkari, líkamlega og andlega, og vilja líða vel. Ég vinn mikið með hugarfarið, hvernig þú getur nýtt hugarfarið til að bæta þig á æfingum. Ég er með lesefni og hverjum kafla fylgja verkefni um hugarfar, þar er farið yfir hvað styrkir hugarfarið og hvernig þú kemst út úr þægindarammanum.“

Ólöf Tara lýsir nálgun út frá hugtökunum „fixed mindset“ og „growth mindet“. – „Í „fixed mindset“ er einblínt á að þú hafir fæðst með ákveðna hæfileika en ég er að reyna að breyta því yfir í hugarfarið „growth mindset“ sem snýst um að þú getir þróað með þér alls konar nýja hæfileika ef þú leggur þig fram. Ef þú sinnir andlegu heilsunni þinni, grunnatriðum eins og jákvæðni og þakklæti, pínulítil atriði sem eru svo einföld geta haft ótrúlega mikil áhrif á líf okkar. Ég legg líka áherslu á að byggja upp sársaukaþröskuld. Lífið fokking skeður og það gerast alls konar hlutir og við hittum alls konar fólk, við særumst, við grátum og hlæjum og allur pakkinn. Hvernig tek ég við því og hvað ætla ég að gera í því? Ætla ég að sitja bara í sófanum eða ætla ég að taka þetta og læra af því og koma út sem sigurvegari?“

Tvö ofbeldissambönd að baki

Ólöf Tara, sem er 32 ára gömul, á að baki tvö ofbeldissambönd, sem samanlagt ná yfir nokkuð stóran hluta af fullorðinsárum hennar. Raunar hófst fyrra sambandið áður en hún varð fullorðin:

„Ég var 15 ára að verða 16 ára og hann var tveimur til þremur árum eldri. Í þessu sambandi var síendurtekið vegið að minni kynferðislegu friðhelgi, þegar ég lít til baka sé ég að hann nýtti sér aldursmuninn og sagði að ég vissi ekki betur, sagði að svona ættu kærustur að vera. Hann fór yfir öll mín mörk og var með þráhyggju fyrir mér í mörg ár, alveg fram til þess að ég var 22-23 ára var hann að adda mér á samfélagsmiðlum. Hann fer síðan að deita stelpu sem var ágæt vinkona mín, ég sagði henni að fara varlega en á þessum tíma hafði ég ekki orðaforðann yfir það sem hafði komið fyrir mig, ég gat ekki sett það í orð og sagði bara við hana að hann væri ekki góð manneskja. Hún, undir hans áhrifum, áttar sig ekki á stöðunni og segir honum frá því sem ég sagði. Þá hefst atburðarás sem stóð yfir í nokkra mánuði, þar sem hann var að stalka mig á samfélagsmiðlum, drulla yfir mig, segja að ég væri ennþá ástfangin af honum. Hann túlkaði aðvörunina sem afbrýðisemi, biturleika og særindi. Það flosnaði upp úr þessu sambandi þeirra og mörgum árum seinna hittumst við og hún segir að hún hefði átt að hlusta á mig. En ég óskaði þess að ég hefði haft þroska til að standa við hlið hennar, ég hugsaði að hún tryði bara því sem hún tryði og ég gæti ekkert gert í því, ég hafði ekki þroska til að skilja að hún væri í aðstæðunum sem ég var í áður.“

Vinkonan upplýsti Ólöfu Töru um allskonar ofbeldisfullar kynlífsfantasíur sem maðurinn hefði haft um þær báðar og virtist Ólöfu Töru að þráhyggja mannsins um hana væri ólæknandi.

Veikindin björguðu henni úr sambandinu

Síðara ofbeldissambandið hófst þegar Ólöf Tara var 23 ára og stóð í um sex ár. „Þetta samband einkenndist af andlegu ofbeldi, gaslýsingum og kynferðisofbeldi. Það sem gerði þetta ólíkt fyrra sambandinu var að við vorum í sambúð og því gat ég aldrei flúið, mér fannst ég aldrei geta komist burtu frá þessu. Í fyrra ofbeldissambandinu var ég svo ung að ég bjó bara hjá mömmu.“

Mjög alvarlegur og sjaldgæfur sjúkdómur reyndist lán í óláni og varð til þess að hún steig út úr þessu eitraða sambandi:

„Ég veiktist í lok árs 2017 og var veik í mjög langan tíma. Ég smitaðist af berklaskyldri bakteríu og var þetta fyrsta tilfellið á Íslandi. Ég var í mjög strangri lyfjameðferð í rúmlega eitt og hálft ár. Á þessum tíma minnkaði mjög umburðarlyndi mitt og þolinmæði gagnvart rugli enda var ég búin að lenda í allskonar bulli í heilbrigðiskerfinu. Fólkið í kringum mig var líka farið að klukka mig og benda á að hann væri ekki góður við mig, hann kæmi illa fram við mig. Ég var einhvern veginn alltaf tilbúin að túlka framkomu hans sem barnaskap og var alltaf tilbúin að sjá það góða í honum. En svo snarminnkar þessi tolerans þegar ég verð veik og ég hafði í rauninni ekki pláss fyrir þetta. Ég var í lyfjagjöfum 4-6 klukkutíma á dag og einu sinni fer ég að kvöldi til í lyfjagjöf og hann fer að djamma, hann kemur mökkölvaður heim undir morgun þegar ég er að fara í næstu lyfjagjöf. Ég hugsaði með mér, ég get ekki meira, ég ætla ekki að lifa svona.“

Á þessu augnabliki hófst ferli sem varði í um eitt ár og lauk með því að sambandinu var slitið fyrir fullt og allt.

En hvernig vann Ólöf Tara úr ofbeldinu? Hvernig náði hún andlegum styrk? Hún hefur greint frá því í nýlegri Facebook-færslu að áður hefði hún haldið að hún yrði aldrei heil aftur, yrði aldrei hún sjálf á ný. En nú sé hún samt orðin heil og hafi fundið sjálfa sig aftur. Aðspurð segir hún að virkni í baráttunni gegn kynferðisofheldi hafi hjálpað mikið.

„Baráttan er auðvitað ekki áfallameðferð en hún er mjög valdeflandi. Það er valdeflandi að losa sig við þyngslin af öxlunum, þyngslin af því að bera ofbeldið sem þú hefur verið beitt. Hins vegar byrjaði ég ung í sjálfsvinnu. Faðir minn er alkóhólisti en hann hætti að drekka og hvatti mig ákaft að fara í Al Anon. Ég var þar um tíma og flutti mig síðan yfir í Coda-samtökin. Ég hætti að sinna þessu þegar ég var í ofbeldissambandi en fer síðan til sálfræðings til að vinna úr þessum málum. Svo kemur þessi valdeflandi barátta ofan á það en ég hef verið í mikilli vinnu á þeim vettvangi síðasta eina og hálfa árið.“

Engin hætta á því að Öfgar taki fyrir allar ásakanir

 Ólöf Tara segir að hún hafi aldrei haft þörf fyrir að nafngreina sína gerendur, sem eru báðir lítt þekktir þó að annar þeirra reki fyrirtæki og njóti vissulega virðingar og vinsælda hjá sumum.  „En það er dálítið annað þegar í hlut eiga valdamiklir menn í samfélaginu sem eru vinsælir og hylltir og eru stöðugt að triggera þolendur sína, það er öðruvísi.“

Hún rifjar upp hvernig Öfgar urðu til í fyrra. „Öfgar urðu til upp úr #metoo byltingunni í fyrra. Hún var kveikjan. Við urðum formlega til í júlí þegar við tókum fyrir þessar 32 nafnverndaðar frásagnir, #metoo fól í sér hávært ákall á feminískan hóp og ég kem inn í það.“

Hópurinn er dáður og áhrifamikill þó að barátta hans hafi vissulega fengið gagnrýni líka og sé umdeild. Blaðamaður viðrar þá tilgátu sína að tortryggni margra í garð Öfga stafi af misskilningi. Mikið sé um alls konar ásakanir á samfélagsmiðlum, í einhverjum tilvikum ósannar ásakanir og líka einhver skrif þar sem tiltölulega saklaus atvik séu blásin upp. Fólk óttist að hópurinn sé tilbúinn að veita hvaða ásökunum sem er vægi. Ólöf Tara segir að slíkur ótti sé byggður á ranghugmyndum um starf Öfga.

„Við greinum aldrei frá neinum málum án þess að kanna þau vel og vinnum í nánu samráði við þolendur. Hins vegar höfum við alveg lent í því að fá tölvupósta frá nafnlausum aðilum þar sem verið er að selja okkur það að einhver alþingismaður sé predator, viðkomandi segist vera með pottþéttar sannanir. Við biðjum hann endilega um að leggja fram sannanirnar og lýsum okkur tilbúnar til að hitta hann. Við viljum nefnilega endilega hitta fólk og funda með því. En svo þegar er komið að fundinum þá mætir manneskjan ekki.“

Ólöf Tara leggur áherslu á það að sú skoðun, sem verður sífellt útbreiddari, að við eigum að trúa þolendum, feli ekki í sér að allt sem Öfgar fái á sitt borð sé ekki kannað.  Hún segir það mikinn misskilning ef fólk haldi að Öfgar sveiflist eftir uppákomum á samfélagsmiðlum:

„Fólk sér kannski 1% af vinnunni okkar. Það er svo margt sem gerist bak við tjöldin. Við erum ekki að hoppa úr einu máli í annað, þetta gerist allt í samráði við þolendur, þó að auðvitað grípum við stundum á lofti umræðu út frá fjölmiðlaumfjöllun. En allt sem við tökum fyrir út frá sjónarhóli þolenda er í samráði við viðkomandi þolanda.“

Ólöf Tara segir vissulega mikilvægt að fella ekki mismunandi birtingarmyndir ofbeldis undir sama hatt. Munur geti verið á kynferðislegri áreitni og nauðgun. Stundum sé kvartað undan rafrænum samskiptum sem ekki alltaf flokkast undir ofbeldi en hún vill samt frekar að fólk reyni alltaf að líta í eigin barm og læra af slíkum árekstrum fremur en að hvítþvo sig:

„Ég held að það sé ekki endilega skynsamlegt að alvarleikaflokka ofbeldi. Varðandi til dæmis samskipti fólks á samfélagsmiðlum sem hefur áhuga hvort á öðru þá byrjar þetta stundum á því sem kallað er microagression. Það er verið að testa mörkin, hversu dónalegur get ég verið. Þetta getur verið óþægilegt og ég lendi enn í því í dag sem feminísk kona að fá óþægileg skilaboð. Stundum hlæ ég þetta bara af mér af því ég nenni ekki að taka þennan slag. En normalíseringin sem verður við það að hlutgera manneskju sem þú talar við getur leitt af sér grófari ofbeldishegðun. Ég held að það sé mikilvægt að við tölum um mörk og þar fléttast ofbeldismenningin í samfélaginu inn í dæmið. En auðvitað þarf að vera aðgreining á því hvort við erum að tala um áreitni, markaleysi, microagression eða hreint ofbeldi. Við þurfum að færa umræðuna á þann stað að við séum tilbúin að líta inn á við, á okkar eigin fordóma, okkar eigin hlutdrægni og hagsmunatengingar því allt umhverfið mótar okkur, uppeldið, af hvaða kynslóð við erum, vinir okkar, vinnufélagar o.s.frv.“

Ólöf Tara segir að vissulega geti fólk gert heiðarleg mistök í svona samskiptum án þess að það sé að brjóta af sér. Hins vegar sé ekki alltaf nóg að hvetja konur til að passa upp á mörkin sín. Vísar hún til nýlegs atviks þar sem fulltrúi í aðgerðahópi Druslugöngunnar, sem er karlmaður, smánaði konu á Twitter fyrir að vilja ekki þýðast sig. Maðurinn sagði sig í kjölfarið frá hlutverki sínu hjá Druslugöngunni. „Þarna var kona sem setti mörk en var síðan smánuð fyrir það. Þegar við setjum mörk og segjum nei, erum hreinar og beinar varðandi það hvað við viljum og stöndum með okkur sjálfum, þá erum við oft skrímslavæddar og sagðar frekjur og þurrkuntur. Okkur er gerður upp ásetningur um að hafa ætlað að særa einhvern.“

Blaðamaður hefur orðið þess áskynja á samfélagsmiðlum að svo virðist sem Öfgakonur þurfi að þola mikið áreiti og jafnvel rafrænt ofbeldi. Aðspurð segist Ólöf Tara verða fyrir mjög grófum hótunum:

„Fólki þykir í lagi að hóta okkur fyrir að standa með þolendum, berjast gegn ofbeldis- og nauðgunarmenningu. Við fáum hótanir um barsmíðar, nauðganir og við höfum fengið morðhótanir líka. Fólk hatar konur svo mikið, sérstaklega konur sem eru ekki til í að vera undir hælnum á þessari menningu og leyfa þessu að þrífast áfram. Það er farið í fjölskylduna okkar líka og ráðist að henni. Það er svo sérstaklega áberandi að karlar ærumeiða okkur á netinu og gera það sem þeir eru að saka okkur um að gera í raun og veru. Það er auðvitað endurspeglun á eigin innræti og hversu sjálfsagt þeim þykir að beita konur ofbeldi. Segjast auðvitað allir vera á móti ofbeldi á sama tíma og þeir eru að ógna okkur. Þetta hatur á feminískum konum er auðvitað ekkert nýtt. Þetta hefur liðist í aldaraðir og markmiðið er alltaf að taka okkur eina og eina niður svo að karlar geti auðvitað haldið áfram að berja, nauðga og ógna lífi okkar. Það er einfaldlega ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo.“

Ekki viss um að slaufanir séu framtíðin

 Við höfum orðið vitni að því að margir þjóðþekktir menn hafa undanfarin misseri misst mannorð sitt og starf vegna ásakana um kynferðisofbeldi eða ámælisverða hegðun. Þegar blaðamaður spyr Ólöfu Töru hvenær hún telji að menn eigi að eiga afturkvæmt segir hún að réttari spurning sé hvernig menn eigi að geta átt afturkvæmt.

„Svo er líka eitt: Þegar þú misbeitir forréttindunum þínum, áttu þá tilkall til þeirra til baka?“

Blaðamaður viðrar óánægju sína með það að amast hafi verið við því að Ingó Veðurguð seldi hreinsiefnið X-Mist. Hún segir að andstaðan við það hafi ekki komið frá Öfgum. „Einstaklingar innan hópsins hafa mismunandi bakgrunn og mismunandi skoðanir líka, þó einhver í hópnum hafi viðrað gagnrýni á það þá höfum við lagt upp úr því að aðgreina hópinn og einstaklingana. Við berum alltaf virðingu fyrir því að við höfum mismunandi skoðanir.“ Hún segir að frá hennar sjónarhorni sé það engin lausn að koma í veg fyrir að gerendur geti unnið fyrir sér.

„Hins vegar er það nú svo að það er fullt af fólki í samfélaginu með dóma á bakinu sem kannski á af þeim sökum erfitt með að fóta sig í atvinnulífinu. En það er enginn með áhyggjur af því fólki, það er enginn að spá í hvenær það eigi afturkvæmt í vinnu. Allar slíkar áhyggjur takmarkast við þessa kynferðisbrotahlið.“

Greina má að hún hefur efasemdir um að slaufanir eigi að vera þungamiðjan í starfi Öfga í framtíðinni. Ljóst er að hópurinn hefur lagt aukna áherslu á fræðslustarf undanfarið. „Við erum að velta fyrir okkur næstu skrefum. Við getum auðvitað haldið áfram að bombardera internetið með alls konar frásögnum og ég hvet þolendur til að valdefla sig á þann hátt sem þeim finnst þau vera valdefld og nýta tjáningarfrelsið og skila skömminni á þann hátt sem þau kjósa. En svo er það spurningin: Hvað ætlum við að gera næst? Ætlum við bara að halda áfram í þessum fasa eða ætlum við að finna næstu skref? Að menn hætti í vinnunni finnst mér ekki endilega vera lausnin. Í flestum tilvikum er það bara tímabundið og svo fá þeir sinn stað aftur. Hver er lausnin við því að þolendur fá ekki réttlæti, hvernig ætlum við að bæta réttarkerfið, hvernig ætlum við að bæta samfélagsgerðina, hvernig ætlum við að draga úr ofbeldi sem samfélag? Þetta eru mikilvægar spurningar í stóra samhenginu. Ég get auðvitað ekki talað fyrir aðra þolendur en ég veit ekki hversu jákvætt það er að menn missi bara vinnuna tímabundið. Hvað gerir það fyrir þolendur? Það er kannski valdefling í smá tíma en hvað svo?“

Ólöf Tara segir að nauðgunarákvæði í hegningarlögum séu í sjálfu sér orðin fullnægjandi eftir breytingar því núna teljast samfarir nauðgun ef ekki liggur fyrir ótvírætt samþykki. En sönnunarbyrðin er ennþá gífurlega þung og þar liggur meginvandinn. „Í dómskerfinu er ekki hægt að dæma mann út frá orði gegn orði og í flestum tilvikum er þetta orð gegn orði þó að áverkavottorð liggi fyrir, lífsýni, jafnvel skjáskot af játningu. Í mörgum tilvikum dugar þetta ekki til.“

Hún segir hins vegar jákvætt að nú séu að verða til drög að lagafrumvarpi úr smiðju Pírata þar sem gert verður ólöglegt í sumum tilvikum að hafa samræði við manneskju undir lögaldri, þ.e. 18 ára aldri. Í dag er kynlíf með manneskju alveg niður í 15 ára löglegt. Í væntanlegu frumvarpi verður lögð áhersla á aldursmun:

„Við getum ekki bannað unglingum að stunda kynlíf, þau munu halda áfram að prófa sig áfram. En ég held að til standi að takmarka rammann við tveggja til þriggja ára aldursmun og koma þannig í veg fyrir að fullorðið fólk geti nýtt sér yfirburði sína gegn ungmennum undir 18 ára aldri.“

Forréttindaþolandi

 Ólöf Tara endar spjall sitt við blaðamann á því að árétta mikilvægi þess að við horfumst í augu við forréttindi okkar. „Ég er forréttindaþolandi því þó að ég hafi verið beitt ofbeldi þá er ég hvít gagnkynhneigð kona á Íslandi og með samfélagslega samþykktan líkama. Það eru jaðarhópar sem hafa þurft að þola hundraðfalt meiri þöggun um ofbeldi gegn sér heldur en fólk eins og ég hefur þurft að þola, til dæmis fatlaðir og konur af erlendum uppruna. Við þurfum öll að gera okkur grein fyrir forréttindum okkar og við þurfum að tékka forréttindin okkar. Það er líka mjög mikilvægt í því samfélagi sem við lifum í núna að karlar geri sér grein fyrir forréttindum sínum. Fólk verður oft móðgað ef því er bent á að það njóti forréttinda. En þó að fólk sé að ströggla þá getur það samt verið með forréttindi. Við fæðumst með forréttindi og það skiptir máli hvernig við beitum þeim, í þágu hvaða fólks við beitum þeim og hverjum við lyftum upp.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir of mörg okkar sek um þetta og ættum að hætta strax – Ræktin og kynlíf skárri kostur

Ragnhildur segir of mörg okkar sek um þetta og ættum að hætta strax – Ræktin og kynlíf skárri kostur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lýsir þungum áhyggjum af föður sínum – „Ég skrifa þetta til þín með tárin í augunum“

Lýsir þungum áhyggjum af föður sínum – „Ég skrifa þetta til þín með tárin í augunum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Harry Bretaprins fagnar sigri – Fær afsökunarbeiðni frá The Sun og 1,8 milljarð í miskabætur

Harry Bretaprins fagnar sigri – Fær afsökunarbeiðni frá The Sun og 1,8 milljarð í miskabætur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu