„Það er fátt yndislegra en að finna samheldni og vináttu í okkar góða samfélagi.“ Á þessum orðum hefst færsla Magnúsar Karls Magnússonar, læknis sem vakið hefur talsverða athygli enda ljós í myrkri nöturlegra tíðinda.
Fyrir fjórum dögum var Magnús Karl, sem veitti DV góðfúslegt leyfi til að birta frásögnina, að sigla skútu frá Færeyjum ásamt ferðafélögu sínum. Blessunarlega var enn símasamband við skútuna en þá barst hringing frá hjúkrunarheimilinu Roðasölum þar sem eiginkona Magnúsar Karls, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, dvelur. Ellý Katrín hefur glímt við Alzheimer-sjúkdóminn undanfarin sex ár og hafa hjónin verið opinská með þá baráttu og meðal annars stigið fram í eftirtektarverðu viðtali í Íslandi í dag.
Erindi símtalsins var að greina frá því að Ellý Katrín hefði slasað sig og væri mögulega úlnliðsbrotin. Magnúsi Karli tókst að virkja stuðningsnet fjölskyldunnar og rétt áður en skútan missti símasamband fékk hann fregnir af því eiginkonu hans hafi verið komið undir læknishendur.
„Síðustu fréttir voru að Ellý fengi gifs og ég var rórri. Síðan tóku við tveir og hálfur sólarhringur og ekkert samband. Ég var rólegur, hugsaði hlýlega til Ellýjar og var viss um að hún væri í góðum höndum þó ég væri fjarri,“ skrifar Magnús Karl.
Hann komst síðan loks í samband við umheiminn, þótt slitrótt væri til að byrja með, á sunnudaginn.
„Ellý leið vel en til stóð hún ætti að fara í aðgerð strax eftir helgi. Fréttir voru þó óljósar. Það er óhætt að segja að þyrmt hafi yfir mig. Samviskubit að vera á þessum þvælingi í stað þess að vera hjá Ellý. Ég gat ekki hugsað mér að hún færi aðgerð með mig fjarri. Enn var margra klukkustunda sigling í næstu höfn, Heimaey. Síðasta ferð Herjólfs til Landeyjarhafnar var klukkan tíu á sunnudagskvöldi og útséð að við myndum ná í tæka tíð,“ skrifar Magnús Karl.
Í örvæntingu sinni hafi hann haft samband við kunningja sinn og Ellýjar, Pál Magnússon fyrrum alþingismann, og leitað ráða.
„Spurði hann hvort einhver gæti aðstoðað miðaldra mann í sálarangist. Auðvitað stóð ekki á Eyjamönnum, innan nokkurra mínútna var kominn þaulvanur sjómaður með öfluga tuðru og til stóð að ná í mig á skútunni og skutla í höfn í tæka tíð fyrir Herjólf. Í millitíðinni jókst mótvindur að norðvestan og því var ljóst að þetta yrði mikið hark og vart ráðlegt. Eyjamenn voru þó tilbúnir að skutla mér til lands um leið og við kæmum í höfn ef á þyrfti að halda. Við að finna þessa hjálpsemi bráði svolítið af mér. Einnig var ljóst að Ellý væri ekki að fara snemma í morgunsárið í aðgerð, hún var á biðlista. Ákvörðun var þá tekin að ég færi með fyrsta Herjólfi klukkan sjö í morgun. Ein stöðuuppfærsla á Facebook og tveim mínútum síðar var Jón Gunnar æskuvinur boðinn og búinn að mæta eldsnemma í Landeyjarhöfn. Klukkan tíu á mánudagsmorgni var ég svo kominn til Ellýjar minnar. Það voru fagnaðarfundir. Eftir hlýtt, innilegt og langt faðmlag sagði Ellý: “Nú er Maggi minn kominn heim og þá er Ellý alsæl”. Það var allt sem ég þurfti að heyra,“ skrifar Magnús Karl og bætir við:
„Óskaplega er yndislegt að finna hjálpsemi allra til að miðaldra maður geti setið við rúmstokk konu sinnar.“
Hér má lesa færslu Magnúsar Karls í heild sinni: