„Ég fattað það fyrst eftir að ég átti barn sjálf hvað það var margt ekki eðlilegt í mínu uppeldi,” segir Kara Kristel Signýjardóttir, áhrifavaldur og förðunarfræðingur. Kara hefur þúsundir fylgjenda á samfélagsmiðlum enda afar opin með sitt líf.
Hún segir að samt sé ekki allt sem sýnist. „Ég held að æskan hafi veitt mér ákveðið forskot í að halda því prívat sem ég vil halda prívat. Fólk heldur oft að ég deili öllu mínu lífi en það er ekki þannig, ég er bara mjög góð í að láta líta út eins og ég geri það. Ég lærði á æskuárunum að halda því þétt upp að mér sem ég vildi ekki að neinn vissi um.”
Erfið æska
Foreldrar Köru skildu þegar að hún var sjö ára eftir 16 ára samband. Sú ákvörðun var tekin að hún fylgdi pabba sínum en eins árs gömul systir hennar yrði hjá móður. Kara bjó í fjögur ár ein með föður sínum sem oft var henni erfitt, meðal annars vegna neyslu áfengis- og fíkniefnaneyslu á heimilinu.
„Einn góðan veðurdag hringdi pabbi okkur bæði veik í vinnu og skóla. Og um kvöldið hringdi mamma og sagðist vera á leiðinni að sækja mig. Pabbi hafði verið tekinn við að keyra undir áhrifum.”
Kara fékk aldrei að fara aftur í skólann til að kveðja vini sína heldur fór þetta sama kvöld á Bifröst, þar sem móðir hennar var í námi.
„En auðvitað var mjög gott að mamma sótti mig. Pabbi hafði unnið kerfisbundið að því að byggja vegg á milli okkar mömmu, hann sagði að hún vildi mig ekki og elskaði mig ekki því hún hefði bara tekið systur mína og skilið mig eftir. Við áttum því miður eiginlega aldrei það sem má kalla eðlileg mæðgnatengsl fyrr en ég varð ólétt þegar ég var 18 ára.”
Þegar Kara var 13 ára sagði hún mömmu sinni frá ofbeldi sem hún hafði verið beitt á heimili föður síns og í dag eru mál er hana varða á borðum yfirvalda.
Á mömmu mikið að þakka
Kara segir unglingsárin að mestu hafa gengið vel, hún glímdi þó við þunglyndi og var með annars lögð inn á BUGL15 ára gömul.
„Ég á mömmu mjög mikið að þakka því hún fór strax með mig til sálfræðings og ég er búin að vera í sálfræðimeðferð síðan. Hún var dugleg í að hvetja mig og ég held að ég hafi verið orðin tvítug þegar ég byrjaði að greiða sjálf fyrir sálfræðitímana mína. Hún vildi alltaf allt fyrir mig gera og ég held að ég hefði ekki komið þetta vel út úr þessu nema vegna þess að mamma er toppmanneskja. Hún er geðveikt heilsteypt kona og mér mikil fyrirmynd í lífinu. Ég veit ekki hvernig ég væri ef hún hefði verið sambærileg pabba. “
Hún segir sína stærstu blessun í lífinu að hafa átt að gott fólk. Vísar hún þar með til ömmu sinnar og afa, mömmu, bestu vinkonu, barnsföður og nú seinni árin lögfræðings, sem starfar fyrir Köru frítt í hennar málum.
„Það hefði verið svo auðvelt fyrir mig að enda sem algjört hrak en ég hef alltaf haft svo gott stuðningsnet. Ég hef verið mjög heppin með fólkið í kringum mig.”
Hlutir sem engir krakkar eiga að sjá
Kara nefnir einnig sína bestu vinkonu. „Ég kynntist henni þegar ég var átta ára og hún bjó næstu blokk við mig. Enginn þekkir mig betur en hún og hennar heimili var engu betra en mitt. Við sáum hluti sem engir krakkar eiga að sjá. Við höfum farið saman í gegnum svo margt saman og þótt við höfum tekið örstutt tímabil á unglingsárum sem einhverjir vitleysingar, þá erum við báðar mjög heilsteyptar í dag. Við fórum frá því að vera litlar stelpur í að vera unglingar að þurrka blóðið hvor af annarri eftir heimilisofbeldi, í að fikta við eiturlyf og þaðan yfir að klára skóla og ala börnin okkar upp sem ábyrgar mæður.
Við höfum leitt hvor aðra í gegnum allt.”
Kara á sjö ára son. Barnsfaðir hennar var góður vinur til nokkurra ára en þau voru aldrei í ástarsambandi né bjuggu þau saman. Hún segir þau afar samstíga í uppeldinu og heldur að það hafi hjálpað að það var enginn tilfinningalegur farangur í spilinu. „Daginn sem sonur okkar fæddist sagði ég við hann að hann að næstu 18 árin mættum við aldrei tala illa hvort um annað fyrir framan barnið og halda samskiptunum góðum.”
Hún segir að það hafi aldrei komið upp neinir árekstrar og þau hafi alltaf verið á sömu blaðsíðu.
„Hann byrjaði með stelpu þegar að sonur okkar var þriggja mánaða og þau er enn saman í dag. Með mínu barni á hún nú von á þeirra fjórða barni. Við erum stórfjölskylda, ég hef farið með þeirra elsta í sumarbústað til að gefa þeim smá pásu og sonur okkar er viku og viku hjá mér og þeim.”
Afi var öryggið
Kara dvaldi mikið hjá föðurömmu sinni og afa þegar hún var yngri og ljóst að fáir hafa staðið henni nærri. „Afi var öryggið. Ef ég hefði ekki haft afa þá veit ég ekki hvar ég væri. Hann klikkaði aldrei á neinu og ég get aldrei þakkað honum nóg fyrir allt sem hann gerði fyrir mig.
Hann lést skyndilega í maí 2019. Það var mér mikið áfall,” segir Kara.
„Sonur minn er skírður eftir honum,” bætir hún við.
Afi hennar var einn heima þegar hann féll frá. „Ég hef alltaf trúað að það séu verndarenglar yfir mér. Ég kvaddi afa á þriðjudegi og sagðist koma aftur á laugardegi. Amma var í sumarbústað og á föstudeginum langaði mig að gefa stráknum mínum frí á leikskóla svo litli Jói gæti heimsótt stóra Jóa. Þeir voru svo miklir vinir og við gerðum þetta oft. Nema að þennan dag var vorferð í leikskólanum sem litla Jóa langaði að fara í. Svo ég ákvað að fresta. Amma kom síðan heim á laugardeginum og fann þá afa, hann hafði látist á fimmtudeginum.
Ef að ég hefði farið á föstudeginum, eins og ég ætlaði, hefði ég fundið hann dáinn á gólfinu með fjögurra ára barninu sem elskaði afa sinn.. Ég veit ekki hvað ég hefði gert í þeim aðstæðum. Það var eitthvað gott sem stoppaði okkur að fara þennan dag.”
Áföllin komu aftur
Kara tók ekki frí frá vinnu og fór smám saman að líða verr og verr. „Áföllin komu öll aftur til baka við að missa afa. Ég hafði staðið í þeirri trú að vera búin að vinna úr þeim en ég var greinilega ekki búin að gera það. Afi lést í maí og í lok sumars var ég greind með mjög alvarlega áfallastreituröskun. Það er notast við skala frá 0 og upp í 80 og telst allt yfir 30 vera áfallastreituröskun. Ég mældist með 67.”
Á þessum tíma leigði Kara íbúð í vesturbæ Reykjavíkur og vann á Þingvöllum. „Ég var hætt að sofa.. Ég var að vinna frá hálf átta á morgnana til sex og komin heim um sjöleytið. Þá lagðist ég á gólfið og grét í tvö tíma, sofnaði um klukkan níu og vaknaði á miðnætti. Svo vakti ég þangað til ég átti að mæta í vinnu daginn eftir.” Henni leið heldur ekki vel í vinnunni, þar var alls kyns vinnustaðadrama, og yfirmaður hennar spurði hvort hún gæti virkilega unnið úr sínum áföllum ef henni liði illa í vinnunni. Hún sagði Köru að gefa sínum bata tíma.
Kara sagði því upp íbúð og vinnu og flutti inn til mömmu sinnar. Og svo kom Covid með sínum samkomutakmörkunum, sem Kara segist hafa tekið fagnandi. „Ég var sjálf að stoppa og anda, halda mig til hlés og ná að vinna úr öllu. Og þarna var allt þjóðfélagið að halda sig til hlés, sem hentaði mér mjög vel á þessum tíma. Það gerði mér mjög gott að vera heima í samkomubanninu, kynnast stórfjölskyldunni upp á nýtt, vera í sálfræðimeðferð og koma lífinu í rútínu.”
Köru líður vel í dag. „Auðvitað koma dagar og ég á mörg ár eftir í bataferli en ég sofna á hverju kvöldi og martraðirnar sem sóttu alltaf á mig hafa ekki komið í meira en ár. Þú berð ekki á ábyrgð á áföllunum þínum en þú berð ábyrgð á hvernig þú vinnur úr þeim. Og ég er búin að leggja á mig mikla vinnu við að vinna úr mínum áföllum og ná bata. Það er líka svo mikið af góðu fólki í kringum mig sem gefur mér allan þann tíma sem ég þarf.”
Ólíkir hópar á samfélagsmiðlum
Hvernig komu samfélagsmiðlarnir til?
„Ég held að það hafi byrjað þegar ég var í fæðingarorlofi árið 2015 þegar ég varð partur af svona mömmubloggi. Þetta var aldrei planað og ég er bara ég og pósta bara því sem ég vil. Það hefur safnast til mín fólk í gegnum árin en þetta bara gerðist einhvern vegin.”
Aðspurð af því hvernig hennar fylgjendur séu segir Kara þá skiptast í þrennt. „Á Instagram er ég með um sex þúsund fylgjendur og á Twitter er það um þrjú þúsund. Og það er allt annað fólk en á Instagram og það vill öðruvísi efni. Svo eru um fimm þúsund á TikTok og það er enn annar hópurinn sem vill enn annað efni.
Sem er afar forvitnilegt. Hvað einkennir þessa hópa?
„Á Instagram held ég að um 80% fylgjenda séu konur á mill sirka 18 og 30 ára. Þar fæ ég mikið af skilaboðum frá stelpum sem eru svipuð og þú myndir senda á stóru systir þína, leita ráða og annað slíkt. Þar er ég alveg hreinskilin og „real”, alveg ég.
Ég byrjaði bara á Twitter í fyrra og það voru að koma inn hundrað fylgjendur á dag fyrstu dagana. Og það var mjög upp og ofan hverjir það voru, Katrín Jakobsdóttir var til dæmis ein af þeim, líka einhverjir aðrir pólitíkusar, og ég er sem er annaðhvort að tvíta um ömmu mína eða einhverja gaura sem að ég fór heim með,” Kara skellihlær. „Twitter er meira eins og dagbók, eins og ég myndi senda á vinkonur mínar. „Random” hugsanir,” bætir hún við.
„Á TikTok eru síðan yngri krakkar og ég nota það minnst í dag. En ég set samt inn stutt videó, eins og til dæmis hvað er í töskunni minni.”
Kara byrjar að taka upp úr töskunni og blaðamaður getur vottað að það er tvímælalaust skemmtiefni að sjá hvað þar er að finna.
Komið út í rugl
Aðspurð um hvort hún finni fyrir áreiti segir hún lítið um það. „Það er helst á djamminu en ég man ekki eftir neinni neikvæðri athygli. Stelpur vilja spjalla og strákarnir vilja taka selfie með mér til að senda vinum sínum. En mér finnst líka bara mjög gott að vera heima og fá vini í heimsókn og hafa það notalegt.”
Samfélagsmiðlar bjóða upp á aðra tegund áreitis.
Allt var vitlaust á Twitter um síðustu áramót vegna ummæla sem Kara lét falla eftir að einn fylgjenda hennar uppljóstraði að hún svæfi hjá kennaranum sínum. Einhverjir vildi meina að hún væri að hvetja unglingsstúlkur til að sofa hjá eldri karlmönnum sem hún segir af og frá.
„Þetta var komið út algjört rugl, eins og ég væri að hvetja 13 ára stelpur til að sofa hjá fertugum mönnum. Allt var tekið úr samhengi og ég eyddi Twitter úr símanum hjá mér og hélt áfram mínu lífi. Ef að ég veit að það er eitthvað skrifað sem getur haft áhrif á mitt bataferli og geðheilsu þá er ég ekki að lesa það.”
Fannst engum þetta komið úr böndunum?
Kara rataði einnig í umræðuna í fyrra þegar hún tjáði sig í fyrsta skipti um myndband sem sýnt var á þorrablóti á Akranesi þremur árum fyrr. Myndbandið var afar kynferðislegt og í því var gert grín að Köru sem hvergi kom nálægt gerð myndbandsins. Móðir hennar var meðal þeirra sem í salnum voru.
Kara segir þetta hafa verið andstyggilegt en fólkið sem að þessu stóð hafi á endanum allt hringt í hana til að biðjast afsökunar, það er að segja nema einn „Þetta er fullorðið fólk sem hagar sér svona og sá eini sem ekki hringdi er sá sami og sagði að þetta væri með mínu samþykki. Fólkið var miður sín, það stóð í þeirri trú að ég hefði gefið leyfi fyrir þessu. En samt. Var virkilega enginn í ferlinu, upptökum, klippingu og öllu sem datt í hug að spyrja sig að því hvort þetta væri ekki of gróft? Fannst engum þetta verið komið út böndunum? Harðfullorðið fólk?”
Kara hristir bara höfuðið. „En þetta myndband er mér ekkert stórmál. Það lendir ekki einu sinni á topp 50 yfir erfiðustu hluti sem ég hef þurft að ganga í gegnum.”
Kara er óhrædd við að sýna líkama sinn á samfélagsmiðlum. Sumir hafa haft á orði að hún sé talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar. En Kara segist aldrei hafa haft einhver sérstök skilaboð fram að færa. „Ég hef alltaf verið sátt við mig og ég hef verið í öllum stærðum og formum. Ég er nákvæmlega eins og ég er á myndum og finn enga þörf til að fótósjoppa mig óþekkjanlega. Ég hef aldrei haft tíma til að hafa einhverjar áhyggjur af líkama mínum því það var alltaf eitthvað dýpra í gangi í lífinu mínu.”
Missti gleðina
Kara er afar listræn, er sjálfmenntuð, og hélt sýningu á verkum sínum í febrúar á síðasta ári. Voru það myndir gerðar með blýöntum og kolum. Sýningin hét „Muna að passa hjartað” og fór allur ágóði til Hjartaheillar.
„Þetta voru allt hjörtu. Sýningin var innblásinn af öllum dauðsföllunum í fjölskyldunni árið 2019, hjartasjúkdómar eru mjög ættgengir í minni fjölskyldu.” Auk afa hennar dó móðir hans, langamma Köru, á afmælisdegi hennar.
„Hjörtun voru mín leið til að vinna úr þessum áföllum, ég lokaði mig bara af og teiknaði hjörtu í heilan mánuð. Hvert verk var með sitt nafn, annars vegar með vísan til fólks sem er mér kært og hins vegar fólks sem er rótin að mörgum mínum áföllum. Svo ákvað ég að sýna verkin og sýningin gekk rosalega vel.”
Kara er með aðra sýningu í undirbúningi. Hún segist hafa verið teiknandi nánast frá frumbernsku. „Ég hætti alveg að teikna eftir að ég flutti til pabba, það veitti mér enga gleði lengur að taka upp pensil eða blýant. Ég hvorki teiknaði né málaði í fimmtán ár og það var ekki fyrr en í desember 2020 sem ég byrjaði aftur. Hjartasýningin var einum og hálfum mánuði seinna. Ég var fljót að komast á skrið aftur.”
Fékk Körunar til baka
Listin er partur af vegferð Köru til að vinna úr sínum áföllum. „Ég spurði mig hvað fimm ára Kara hefði notið þess að gera og það var að teikna og mála. Svo ég fór að gera það aftur fyrir fimm ára Köru. Og þegar ég var búin að gefa fimm ára mér næga athygli fór ég að skoða hvað kæmi næst. Og annað sem ég elskaði sem barn var að tína steina í fjörunni og var að gera mömmu vitlausa með öllu þessu grjóti sem ég kom með heim. Svo ég fór á Djúpavog og tíndi fullt af steinum sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við svo ég bjó til skartgripi úr þeim.”
Til að vinna úr þeim kynferðisbrotum sem Kara hefur orðið að þola seldi hún hettupeysur með mynd af sér á netinu og færði Kvennaathvarfinu ágóðann, eitt hundrað þúsund krónur.
„Það er ekki hægt að vinna úr öllum áföllum í einu og því ákvað ég að vinna í einu í senn og gefa hverju áfalli tíma. Ég handskrifaði 86 blaðsíður á sex vikum um mína líðan og það var virkilega heilandi. Ég skrifaði líka bréf til Köru fimm ára, Köru ellefu ára, fimmtán ára og svo framvegis. Ég þakkaði þeim öllum fyrir að hafa komið mér á fullorðinsár en nú tæki ég við.
Það var mín leið til að vinna úr því. Og þannig náði ég gefa öllum fyrri Körunum sinn stað og fá þær til baka,” segir Kara Kristel Signýjardóttir, áhrifavaldur, förðunarfræðingur, listamaður og móðir.