fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Sissi þótti ein fallegasta kona heims – Sorgarsaga keisaraynjunnar sem þjökuð var af átröskunum

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 17. júlí 2022 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 25. apríl 1854 þustu þúsundir íbúa Vínarborgar á götur út til að sjá hina nýju brúði Frans Jósefs keisara. Í gulli þaktum glervagni mátti sjá glitta í nýju keisarynjuna, hina 16 ára frænku keisarans, Elisabeth Amalie Eugenie.  

Hún var aðeins 16 ára, gekk aldrei undir öðru nafni en Sissi, og var skelfingu lostin yfir hvað framtíðin bæri í skauti sér. 

Líkt og Díana prinsessa löngu síðar átti Sissi eftir að vera hundelt af fjölmiðlum, talin með fegurstu konum álfunnar, dáð af almenningi en föst í gullbúri hirðar og hefða. Það er einnig morgunljóst að Sissi þjáðist af þunglyndi og alvarlegum átröskunum alla sína tíð.

Sissi á unglingsárum.

Óhefðbundið uppeldi

Sissi fæddist í München í Þýskalandi, ein átta barna Maximilian Jósefs hertoga og konu hans Ludoviku prinsessu. Foreldrar hennar þóttu sérvitrir, frá föður sínum erfði Sissi lýðræðisást og frá móður sinni andúð á hirðsiðum og reyndar flestum reglum. Hvorki MaximilianLudovika kipptu sér upp við það þótt Sissi skrópaði í tíma til að fara á hestbak eða labbaði berfætt um höllina eins og óbreyttur sveitadurgur. Bæði forðuðust þau opinberar skyldur sem heitan eldinn sem vafalaust hefur ekki hjálpað dóttur þeirra í að fóta sig sem keisaraynja.

Reyndar átti Sissi aldrei að giftast Frans frænda. Mæður þeirra voru systur og eins og gekk og gerðist hjá háaðli þess tíma voru afkvæmin gift hvort öðru þvers og kruss til að þynna ekki út bláa blóðið. Frans Jósef var ætlað að giftast eldri systur Sissi, hinni mun fágaðri og veraldarvanari Helenu. Við förina til Vínar var Sissi boðið að koma með systur sinni að hitta eiginmanninn tilvonandi en þegar hinn 23 ára gamli Frans leit Sissi fyrst augum var það ást við fyrstu sýn.

Helena fékk sparkið en Sissi kastaði aftur á móti upp af streitu við tilhugsunina um hjónabandið.

Vansæl og einmana

Frans Jósef var vænn maður sem tilbað Sissi sína. En hann þótti hugmyndasnauður, kaldlyndur og gjörsneyddur kímnigáfu. Keisarinn var skilgetið afkvæmi arfleifðar sinnar en Sissi var feimin, hafði alist í afar afslöppuðu umhverfi og átti svo að segja ekkert sameiginlegt með manni sínum. Strangir hirðsiðir austurrísku hirðarinnar, svo og ofríki Sophie tengdamóður hennar, urðu til þess að bæði andlegri og líkamlegri heilsu Sissi hrakaði hratt.

Sissi var bæði vansæl og einmana og eftir aðeins nokkrar vikur í stóli keisaraynju fór hún að kasta upp daglega, fékk langvinn höfuðverkjaköst og var þjökuð af lamandi kvíða.

Hertogahjónin Sissi og Frans Jósef

Hún tók sögum af framhjáhaldi manns síns með fögnuði, þess guðslifandi fegin að fá frið fyrir honum. Þeim hjónum kom ekki illa saman en Sissi kaus að hafa af honum sem minnst afskipti.

Börnin tekin

Samt sem áður eignuðust þau hjónakorn fjögur börn. Sophie þótt að sumu leyti vænt um tengdadóttur sína en hafði enga trú á getu hennar sem móður og tók af henni frumburðinn, litla telpu, við fæðinguna. Sissi tók því þegjandi en þegar að gera átti hið saman við næsta barn reyndi hún að mótmæla en hafði ekkert í frekju og yfirgang tengdamóður sinnar. Og þegar að fyrsta barn hennar lést skyndilega aðeins tveggja ára gömul virðist Sissi hafa gefist upp. Þjökuð af sorg gafst hún upp fyrir járnvilja Sophie og lét hana alfarið um uppeldi barna sinna. Líklegt er að Sissi hafi einnig þjáðst af alvarlegu fæðingarþunglyndi.

Aðeins tvö af börnum Sissi áttu eftir að lifa móður sína.

Sissi við krýningu sína sem keisarynja af Ungverjalandi árið 1867.

Dáð af almenningi

Sissi var dýrkuð og dáð af almenningi vegna fegurðar sinnar og þá ekki síst þykka rauðbrúnu hárinu sem náði henni í ökkla. En almenningur elskaði einnig Sissi vegna samkenndar hennar og alþýðlegrar framkomu. Hún fór reglulega á sjúkrahús án fylgdarliðs, hélt í hendur sjúklinga, gaf þeim gjafir, og sat með dauðvona fólk í faðminum. Hún gaf stórar fjárhæðir í góðgerðastarf og hafði mikinn áhuga á nýjum leiðum til hjálpar geðsjúkum sem hún taldi ekki fá þá athygli og umönnun sem nauðsynleg væri.

Geðheilsu hennar sjálfrar hrakaði aftur á móti frá ári til árs. Sissi hvarf sífellt meira inn í eigin heim og forðaðist mann sinn og börn. Að ekki sé nú talað um tengdamóður.

Sissi varð þess í stað heltekin að því að viðhalda æskufegurð sinni.

Sissi keisarynja.

Heltekin af útlitinu

Sissi borðaði sjaldan og lítið í einu. Hún átti það til að fasta svo dögum saman og það eina sem hún lét ofan í sig var þunnt soð, appelsínur, kúamjólk og egg. Það tók þrjá klukkutíma að þvo hár hennar upp úr blöndu eggja og koníaks, kemba það og snyrta á hverjum morgni. Á meðan á hárumhirðunni stóð sat Sissi með bók og lærði tungumál. Hún lærði ensku, grísku og ungversku með þessum hætti.

Sissi æfði svo klukkutímum saman hvern dag. Hún reið út og þótti með færustu reiðmönnum Evrópu. Hún æfði skylmingar eins og algengt var hjá aðlinum en auk þess stundaði hún tegundir þjálfunar sem þóttu nýlunda í þá daga en öllu algengari í dag. Þar má til dæmis nefna langhlaup, spretthlaup, kraftgöngu,notkun handlóða, æfingar með hringjum auk æfinga sem henni höfðu verið kenndar á sirkusfólki til að auka liðleika.

Hún viktaði sig þrisvar á dag og færi mittismál hennar yfir ótrúlega 50 sentimetra svelti hún sig.

Sissi borðaði ekki kjöt en svaf með maska út kálfakjöti og í fötum vættum úr ediki sem hún taldi viðhalda unglegu útliti sínu og grönnum líkama. Hún farðaði sig aftur á móti aldrei né notaði hún ilmvötn.

Sissi gekk svo langt að banna að myndir væru teknar af henni eða málverk máluð af henni eftir að hún náði 32 ára aldri.

Sissi þótti með glæsilegustu konum Evrópu.

Og ef að þessi hegðun hefði ekki þótt nógu furðuleg byrjaði keisarynjan að reykja í ofanálag. Slík og annað eins hafði aldrei áður sést og fór slúðrið um keisaraynjuna furðulegu í hæstu hæðir.

Fjölmiðlar fengu ekki nóg af því að færa almenningi sögur af Sissi.

Bugaðist endanlega

Sissi hafði alltaf notið þess að ferðast og gerði sífellt meira af því eftir því sem árin liðu. Svo fór að hún eyddi svo til öllum sínum tíma á ferðalögum. Hún sótti heim flest lönd Evrópu og norður-Afríku undir dulnefni með fámennu fylgdarliði, hafnaði lífvörðum og hunsaði flest heimboð þjóðhöfðingja. Hún lét meira að segja húðflúra á sig akkeri á upphandlegg að sið sjómanna.

Ódagsett ljósmynd af Sissi.

Samband hennar við eiginmanninn hafði þróast í fremur afskiptalausa en hlýja vináttu, Frans saknaði konu sinnar á stundum en Sissi hvatti hann til sambands við konu sem hún þekkti og taldi honum að skapi.

Árið 1889 fannst heittelskaður sonur hennar, Rúdólf krónprins, látinn ásamt 17 ástkonu sinni. Hann var þá 31 árs. Fátt er vitað um hvað gerðist en líklegast skaut annað þeirra hitt og framdi síðan sjálfsvíg.

Lát einkasonarins bugaði Sissi endanlega. Hún klæddist svörtu það sem eftir lifði og hrundi þyngd hennar niður í um 40 kíló. Sissi var 173 sentmetrar á hæð.

Morðið á Sissi

Síðar það sama ár var Sissi stödd við höfnina í Genf þegar að ítalskur stjórnleysingi að nafni Luigi Lucheni stakk hana með hníf sem fór í gegnum lunga. Lucheni hafði reyndar ekki ætlað að myrða keisaraynjuna hefur hertogann af Orléans en misst af honum. Hann heyrði út undan sér að svartklædda konan væri í raun keisaraynjan og ákvað því að myrða hana í staðinn enda partur af aðlinum sem hann hataði svo innilega. Lucheni flúði en var handtekinn næsta dag.

Ljósmynd af Sissi ásamt fylgdarkonu tekin viku fyrir morðið.

Sissi tókst fyrir eitthvað kraftaverk að standa upp, ganga upp í skipið og í káetu sína þar sem henni blæddi út um nóttina. Frans Jósef grét mjög missi konu sinnar og lét reisa fjölda minnisvarða henni til heiðurs.

Sissi, keisaraynja af Austurríki og Ungverjalandi, varð sextug að aldri. Hún lifir enn í fjölda bóka og kvikmynda sem gerðar hafa verið um makalausa ævi sorgmæddu konunnar með ógleymanlega hárið. Konunnar sem aldrei fékk þá hjálp sem hún svo nauðsynlega þurfti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár