Chloe Lang, sem fór með hlutverk Sollu Stirðu í sjónvarpsþáttunum um Latabæ, gerir það gott sem áhrifavaldur í dag og er með um hálfa milljón fylgjenda á Instagram, TikTok og Youtube. Hún leyfir fylgjendum sínum að fylgjast með daglegu lífi sínu í stórborginni New York og birtir reglulega minningarbrot frá árum sínum í Latabæ og segist sakna tímans þar. Þetta kemur fram í umfjöllun The Sun um Lang og þættina heimsfrægu.
Alls voru framleiddir 78 þættir af Latabæ, eða LazyTown, á árunum 2004 – 2014. Fjórar þáttaraðir framleiddar af Lazytown, fyrstu tvær þáttaraðirnar árið 2004 og 2007, alls 52 þættir. Turner Europe keypti síðan réttinn af þáttunum og í framhaldinu voru tvær þáttaraðir framleiddar á árunum 2013 til 2014 og var mikið lagt í verkefnið.
Þættirnir voru dýrasta barnaefni heims á þessum árum, framleiddir hérlendis, en hver þáttur,kostaði 1 milljón dollara. Vinsældirnar voru líka miklar, ekki síst í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Tvær leikkonur léku Sollu Stirðu, í fyrstu tveimur þáttaröðunum fór Julianne Rose Mauriello með hlutverkið en síðan tók Chloe Lang við en þá var hún aðeins 9 ára gömul.
Í umfjöllun The Sun kemur fram að Lang sé í dag 20 ára gömul. Hún hefur ekki landað neinum stórum hlutverkum síðan en tekið að sér einhver aukahlutverk í kvikmyndum og stuttmyndum. Hún nýtur þó, eins og áður segir, mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum og eru það ekki síst gamlir aðdáendur Latabæjar sem að fylgja Lang eftir.