Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur notið lífsins á draumaeyjunni Tenerife undanfarna daga. Ráðherrann kom heim um helgina en lenti þá í því óláni að ferðataskan hennar skilaði sér ekki til Íslands. Slíkar uppákomur hafa verið að færast í vöxt undanfarið enda ástandið á morgun flugvellum heimsins bágborið vegna manneklu og ýmissa vandræða.
Áslaug Arna greinir frá þessu í færslu á Instagram-síðu sinni en til að bregðast við ferðatöskuleysinu þurfti hún að kaupa sér í hvelli brýnustu nauðsynjar eins og tannbursta, hárbursta og krem.
En það er ekki óheppni ráðherrans sem slík sem hefur vakið athygli heldur bráðsnjallt ráð sem hún deilir með fylgjendum sínum. Áslaug Arna merkti töskuna sína með svokölluðu airtagi, sem er lítið GPS-staðsetningartæki, sem gerði henni kleyft að fylgjast með því í símanum sínum hvar taskan var niður komin.
„Sá strax að taskan kom aldrei með og varð eftir á flugvellinum úti. Mæli með að hafa airtag á ferðatöskum,“ skrifar ráðherrann. Hún hefur því eflaust sparað sér tíma á Keflavíkurflugvelli með því að geta farið beint til starfsmanna vallarins og sagt þeim að taskan hafi ekki skilað sér.
Ljóst er að framundan er spennandi ferðalag töskunnar heim til Íslands. Áslaug Arna birti svo aðra færslu rétt í þessu þar sem sést að taskan er komin áleiðis til Lúxemborg og þá vonandi í framhaldinu til Íslands.