fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Hið dularfulla hvarf Tromp fjölskyldunnar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 26. júní 2022 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar lögreglu bar að heimili Tromp fjölskyldunnar í útjaðri smábæjarins Silvan í Ástralíu þann 30. ágúst árið 2016 var þar engan að finna. Útidyrahurð var ólæst en skutbíll fjölskyldunnar horfinn. Aðrir bílar í eigu fjölskyldumeðlima voru hins vegar á sínum stað og með lyklana í svissum. 

Tromp fjölskyldan samanstóð af Mark Tromp og Jacobu, ríflega fimmtugum hjónum sem ráku velmegandi rifsberjabú og jarðvinnslufyrirtæki, og þremur uppkomnum börnum. Þau voru Riana, 29 ára, Mitchell, 25 ára, og Ella, 22 ára, sem öll bjuggu enn í föðurhúsum og unnu hörðum höndum í fjölskyldufyrirtækinu. 

Daginn áður hafði öll fjölskyldan stigið inn í bíl og ekið í burtu með hraði, líkt og þau væru á flótta undan einhverju eða einhverjum. Fjölskylda og vinir náðu engu sambandi við þau, fylltust áhyggjum og leituðu til lögreglu. 

Sögunni púslað saman

Þegar inn var komið fundust vegabréf, farsímar og bankakort allra fimm fjölskyldumeðlimanna auk gríðarlegra stafla af fjárhagsyfirlitum.. Húsið var reyndar allt í óreiðu og svo virtist sem fjölskyldan hefði farið með hraði en skilið eftir allt sem unnt væri að nota til að finna þau.  

Tromp fjölskylda

Fimmmenninganna var aftur á móti hvergi að finna og enginn vissi hvar þau gætu verið niðurkomin. 

Hófst þá einhver sérkennilegasta leit sem um getur í Ástralíu. Fjölskyldumeðlimir fundust einn af öðrum næstu dagana og hægt og smám saman var farið að púsla saman hvað í ósköpunum hafði gerst. 

Mitchell var eini meðlimur fjölskyldunnar sem hafði tekið með sér farsíma en eftir 30 kílómetra akstur henti hann honum út um glugga, sannfærður um að verið væri að fylgjast með þeim. 

Fjölskyldan ók sem vindurinn og við dagslok fyrsta daginn voru 800 kílómetrar að baki. 

Mitchell var einnig sá fyrsti til að yfirgefa hópinn að kvöldi fyrsta dagsins og halda heim á leið með lest. Ekki löngu síðar yfirgáfu systurnar foreldra sína, stálu bíl og keyrðu aftur í átt heim en áður en þangað var komið ákváðu þær að skilja leiðir og varð Riana eftir en Ella hélt akstri áfram.

Ella var fyrst til að snúa heim þar sem lögregla beið hennar. Daginn eftir kom Mitchell og hófu systkinin að segja furðusögu sína.

Mæðgur á geðdeild

Svo virðist sem fjölskyldufaðirinn Mark hefði fengið einhvers konar andlegt áfall sem olli því að hann trúði því staðfastlega að einhver væri að reyna að skaða hann og fjölskylduna alla. Því skipulagði hann flóttann. Það sem stóð aftur á móti í fólki var af hverju í ósköpunum allir aðrir í fjölskyldunni hefðu tekið því trúanlega og tekið þátt í flóttanum.  

Mark og Ella virtust vera í þokkalegu jafnvægi, eins og sýndi sig á heimferð þeirra, mun meira en foreldrar þeirra og elsta Tromp barnið, Riana. 

Mark og Jacoba Tromp

Það var trukkabílstjóri sem tilkynnti lögreglu að hann hefði fundið Riönu. Honum hafði brugðið við að finna konuna sofandi í bíl sínum. Hún var sem haldin stjarfaklofa og gat ekki sagt til nafns né hvað hún væri að gera í bílnum. Riana var sótt og hún sett á geðdeild.

Aftur á móti bólaði ekkert á hjónunum Mark og Jacobu og var enn meiri kraftur færður í leitina og kallað eftir hjálp frá almenningi. 

Eftir um 1400 kílómetra akstur höfðu hjónin haldið í sitthvora áttina. Mark varð eftir í bænum Wangaratta en Jacoba steig upp í rútu og yfirgaf bæinn. Hún fannst daginn eftir og hafði þá notað almenningssamgöngur til að ferðast um 350 kílómetra. Kallað hafði verið til lögreglu þegar að Jacoba sást á gangi, talandi við sjálfa sig, og augljóslega í miklu uppnámi. Hún hafði einnig reynt að bóka hótelherbergi en hafði ekkert fé meðferðis. Hegðun hennar var afar svipuð hegðan Riönu og var Jacoba flutt á sömu geðdeild og dóttir hennar. 

Samsæriskenningar

Þá var aðeins eftir Mark Tromp.

Mitchell og Ella sögðust hafa gríðarlegar áhyggjur af velferð föður síns og báðu almenning að hafa augun opin. Það borgaði sig því Mark fannst þann 3. september á hlaupum við útjaðar Wangaratta. Hann hafði elt ungt par í bíl sínum og þegar að parið stöðvaði bílinn til að kanna hvernig á því stæði stöðvaði Mark einnig sinn bíl, starði á þau, og hljóp í burtu sem fætur toguðu. 

Sex dögum eftir brottförina voru allir meðlimir Tromp fjölskyldunnar fundnir. 

Mark Tromp var settur í umsjón bróður síns sem er lögregluþjónn, hann var afar æstur og sendi blaðamönnum fingurinn við brottför af lögreglustöð. Fljótlega voru mæðgurnar Jacoba og Rianna útskrifaðar af geðdeild og fjölskyldan sameinaðist aftur. Öll voru þau þá í fullkomnu jafnvægi.  

Enginn meðlima fjölskyldunnar gaf haldbæra skýringu á atvikinu. Mark kom stuttlega fram og baðst afsökunar á fingrinum og þakkaði almenningi fyrir sýndan hlýhug en gaf engar skýringar á hvarfinu. 

Lögregla kannaði hvort rétt væri að Mark Tromp eða aðrir fjölskyldumeðlimir væru í hættu, að raunverulega væri setið um líf þeirra, en ekkert fannst sem benti til þess. Internetið logaði af samsæriskenningum en Mark og Ella sögðust ekki almennilega skilja af hverju þau hafi flúið, það hafi einfaldlega myndast slíkt andrúmsloft á heimilinu að þeim fannst þau ekki annað geta en að fylgja foreldrum sínum og systur. Óttinn hafi verið yfirgengilegur. Jacoba Tromp orðað það svo við læknana á geðdeildinni að fjölskyldan hefði ekki verið ,,á góðum stað andlega” dagana fyrir hvarfið.

Ella og Mitchell ræða við fréttamenn

Enginn fjölskyldumeðlima reyndist vera undir áhrifum efna af nokkru tagi og hafði ekkert þeirra nokkurn tíma greinst með andlega kvilla af nokkru tagi. Þau skulduðu engum fé og voru ekki í sértrúarsöfnuði né öðru slíku.

Sumir töldu að skipulögð glæpasamtök hefðu komið að málinu vegna allra þeirra fjárhagspappíra sem í húsinu fundust. Aðrir segja að skordýraeitur sem notað var á rifsberjarunnana hafi valdið slíkri eitrun hjá fjölskyldumeðlimum að þeir hreinlega misstu vitið. En það er ekkert sem styður þær kenningar. 

Héldu heim

Í dag er almennt álitið að fjölskyldan hafi fengið sameiginlegt geðrof, almennt kallað ,,folie à deux”. Hugtakið þýðir orðrétt ,,brjálæði tveggja” og lýsir sér í því að tveir einstaklingar fá nákvæmlega sömu ranghugmyndirnar. Folie à deux er sjaldgæft en ekki óþekkt og er saga sænsku tvíburasystranna meðal þeirra þekktustu. 

Það sem gerir aftur á móti sameiginlega geðrof Tromp fjölskyldunnar svo merkilegt er að það greip heila fjölskyldu, síst þó Mitchell og Ellu. Það er svo að segja einsdæmi en er talið að vegna þess að fjölskyldan bjó nokkuð utan við bæjarmörk og hélt sig að mestu leyti alfarið saman, hafi spilað stóra rullu.

Riana tjáði sig um flóttann ári síðar

Riana sagði síðar ekki geta skýrt hvað olli skelfingu hennar. Smám saman hefði hún farið að hræðast sömu hluti og foreldrar hennar án þess að hafa nokkra rökrétta ástæðu til þess. Þetta hafi einfaldlega verið of furðulegt til að unnt sé að lýsa fyrir nokkrum manni á skiljanlegan hátt. 

Engin málatilbúnaður var gerður á hendi fjölskyldunnar, utan við að Ella var ákærð fyrir bílþjófnaðinn. Málið var aftur á móti látið niður falla að beiðni eiganda bílsins og sneri Tromp fjölskyldan heim á rifsberjabúgarðinn og hélt áfram lífi sínu eins og ekkert hefði í skorist. 

Ekkert hefur heyrst frá Tromp fjölskyldunni síðan þessir atburðir urðu en enn er að finna líflegar rökræður um hvarfið víða á internetinu. 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“