Mörgum gestum á fimm stjörnu hótelinu Gran Costa Adeje Hotel á Tenerife, sem höfðu notað handklæði til að taka frá sólbekki, brá heldur betur í brún fyrir helgi þegar þeir sáu að búið var að fjarlægja handklæðin þeirra.
Amanda Proctor er gestur á hótelinu og á föstudag tók hún upp myndband og deildi á TikTok þar sem hótelstarfsmenn sjást fjarlægja handklæði, töskur og fleira sem var notað til að taka frá sólbekkina næst einni sundlauginni. Í staðinn skildu þeir eftir miða þar sem fram kom hvar hægt væri að sækja munina. MailOnline greinir frá þessu.
Amanda segir að á staðnum sé skilti þar sem fram komi að óheimilt sé að taka frá sólbekki fyrir klukkan tíu á morgnana.
Á myndbandinu sjást þrír starfsmenn fjarlægja handklæði af sólbekkjum, þar af einn sem heldur á yfir tíu handklæðum. Yfir 2,5 milljón manns hafa þegar horft á myndbandið.
Einn skrifar við myndbandið: „Þetta eru þeir sem taka frá sólbekk við sundlaugina en mæta svo ekki fyrr en klukkan fjögur síðdegis,“ og annar talar um þetta sem „stríðið um sólbekkina.“
Amanda svarar: „Nákvæmlega. Ég hugsaði bara: Áfram þið! Þeir tóku töskur, handklæði og allt, og skildu eftir miða á bekknum þar sem stóð hvar væri hægt að sækja þetta.“
Hún bætti við að það hefði verið „sprenghlægilegt“ að horfa á fólk koma aftur og sjá að það var búið að taka handklæðin, sumir hafi einmitt ekki komið aftur fyrr en síðdegis.
Þriðji skrifar við myndbandið: „Fleiri hótel þurfa að gera þetta. Reglan ætti bara að vera: Fyrstur kemur, fyrstur fær.“
Og sá fjórði, sem segist hafa unnið á Gran Costa Adeje Hotel, skrifar: „Þeir taka í burtu handklæði sem hafa verið á bekknum lengur en klukkustund án þess að neinn hafi notað bekkinn. Elska þetta.“
@mandsandrands #Granhoteltenerife #poolsunbeds #nosavingsunbedsbypool #GranhotelCosta Adeje #costaadeje #towels #hotelsecurity #Britsonholiday #germansonholday #dutchonholiday ♬ Unstoppable – Sia