fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fókus

Kennari sagði Herdísi of lata og vitlausa til að verða eitthvað – Útskrifaðist með fyrstu einkunn í lögfræði um helgina

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 20. júní 2022 19:00

Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir fékk að heyra frá kennurum sem barn og unglingur að hún væri löt, heimsk og að ekkert yrði úr henni. Um helgina útskrifaðist hún með fyrstu einkunn á BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún segir að hún hafi hvorki verið löt né vitlaus heldur hefði hún einfaldlega þurft hjálp og réttu tólin til að læra – þar sem hún er bæði með lesblindu og ADHD.

Herdís er 29 ára einstæð tveggja barna móðir og hefur sinnt náminu samhliða uppeldi barnanna.

Fékk að finna fyrir því hjá kennurum

„Ég átti alltaf ótrúlega erfitt með nám, sérstaklega lestur. Ég er rosalega lesblind. Ég var aldrei með einhverjar góðar einkunnir og fékk alveg að finna fyrir því hjá kennurum,“ segir Herdís og bætir við að hún fékk hvorki lesblindu- né ADHD-greiningu í gegnum skólann.

„Foreldrar mínir fóru með mig í greiningu eftir að frændi minn benti mömmu á að ég væri lesblind en hann er sjálfur lesblindur.  Svo átti ég að fá ADHD-greiningu en grunnskólinn minn skilaði aldrei sínum pappírum þannig ég fékk aldrei fullgilda greiningu,“ segir hún.

Hún segir að hún hafi ekki fallið undir þessa „klassísku“ birtingarmynd ADHD. „Ég var ekki mjög ofvirk, ég var meira inni í mér og meira svona dreymin. Það er oft talað um þetta sem „týpíska stelpu“ ADHD,“ segir hún.

Eitt af því sem Herdís gerði til að ná að einbeita sér í tímum og hlusta á kennarann var að krota á blað, en fékk skammir og var látin hætta því.

„Það var þá sem ég náði að hlusta best, en ég mátti ekki gera það,“ segir hún.

Herdís ásamt foreldrum sínum á útskriftardaginn.

Sögð löt og vitlaus

Þegar Herdís var í fjórða til fimmta bekk áttu nemendur að svara: „Hvað viltu verða þegar þú verður stór?“

„Á þeim tíma langaði mig til að verða barnalæknir. Kennari sagði við mig að ég myndi aldrei geta orðið barnalæknir eða neitt svona „mikilvægt“ því ég væri svo löt og vitlaus,“ segir hún.

Þetta var ekki í eina skiptið sem kennari við skólann lét slík ummæli falla. Þegar hún vildi fara á sjúkrahús í starfsnám í tíunda bekk mætti hún neikvæðu viðmóti frá kennara sem taldi hana hafa ekkert erindi þangað.

Herdís viðurkennir að hún hafi verið niðurbrotin þegar hún heyrði þessar athugasemdir og var farin að trúa þessu sjálf. „Ég sá engan tilgang í að reyna einu sinni að gera betur, því ég var hvort sem er vitlaus. Ég var ekki sú eina sem sá það heldur sáu það allir,“ segir Herdís og bætir við að hún hlustaði ekki á foreldra sína sem stóðu þétt við bak hennar og reyndu að hvetja hana áfram.

„Maður er ekkert að hlusta á foreldra sína sem barn. Ég hugsaði alltaf: „Mamma og pabbi eiga að segja þetta við mig,“ en tók ekkert mark á þeim,“ segir hún.

„Amma og afi hafa staðið þétt við bakið á mér frá fæðingu og sérstaklega í náminu. Ég missti ömmu í miðri prófatörn í fyrra og það var mér erfitt en ég trúi að amma hafi staðið með mér á sviðinu að taka við skírteininu mínu á laugardaginn.“

Fór í endurhæfingu

Herdís fór í framhaldskóla en flosnaði upp úr námi stuttu seinna. Hún varð ólétt sautján ára og var búin að gefa námsdrauminn upp á bátinn. Áföll og ofbeldissamband varð til þess að hún leitaði sér aðstoðar og byrjaði í endurhæfingu hjá Virk.

„Árið 2016 fór ég í endurhæfingu hjá Virk. Ég var föst í ofbeldissambandi á þeim tíma og var rosalega þunglynd og með mikinn kvíða. Ég fór þaðan í Samvinnu, endurhæfingastöð, og þar fékk ég tækifæri til að fara í grunnmenntastoðir, þar sem þér er í raun kennt að læra aftur. Ég hugsaði: „Af hverju ekki?“ Í gegnum Samvinnu fékk ég að fara í lesblinduleiðréttingu og byrjaði að læra á lesblinduna mína,“ segir hún.

„Í grunnmenntastoðum áttaði ég mig á því að ég gæti lært, bara með hjálp. Ég fór að fá tíur í fögum sem ég var að fá einn til þrjá í einkunn í grunnskóla. Þaðan fór ég í MSS – Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum – og ég ákvað að fyrst ég væri byrjuð þá ætlaði ég að halda áfram. Ég fór síðan yfir í Keili árið 2018 til að klára stúdentinn og þaðan í Háskólann í Reykjavík ári seinna.“

Herdís vill vera fyrirmynd fyrir syni sína tvo.

Barátta hennar við kerfið kveikti áhugann á lögfræðinni

Herdís hafði lengi dreymt um að fara í leiklist og stefndi þangað en valdi að lokum lögfræði. Áhugi hennar á faginu kviknaði í kjölfar margra ára baráttu hennar við íslenska réttarkerfið sem þolandi.

„Ég er búin að vera að berjast við kerfið svo lengi og ég vildi fara í lögfræði til að skilja lögin betur, af hverju þau eru eins og þau eru og sjá hvernig er hægt að betrumbæta kerfið,“ segir hún.

Vildi sýna að hún gæti þetta

Herdís fékk fullgilda ADHD greiningu í loks árs 2020 og fékk viðeigandi lyf sem auðvelduðu henni lærdóminn og hjálpuðu henni að halda sér við efnið í lengri tíma. Hún hefur einnig tileinkað sér ýmis tæki og tól til að hjálpa sér við lærdóminn. Árið 2019 fékk Herdís verðlaun frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir framúrskarandi námsárangur í námi fyrir fullorðna.

„Þegar ég áttaði mig á því að ég gæti víst lært, þá langaði mig að sýna þessum kennurum að ég gæti þetta.“

Aðspurð hvernig henni leið á sviðinu þegar hún fékk skírteinið loksins í hendurnar segir Herdís: „Ég get ekki einu sinni lýst því. Þetta var óraunverulegt einhvern veginn. Ég veit ekki hversu oft ég ætlaði að hætta í náminu. Ég er einstæð með tvö börn og þetta er búið að vera ótrúlega erfitt og ég hef gengið í gegnum ýmislegt samhliða. En ég hélt alltaf í þetta; að ég ætlaði að sýna þessum kennurum sem komu svona illa fram við mig, en líka að að ég gæti verið fyrirmynd fyrir börnin mín og kannski aðra líka. Það hélt mér við efnið.“

Formálinn fyrir BA-ritgerð Herdísar.

BA-ritgerð Herdísar ber titillinn Réttur barna til verndar gegn ofbeldi á heimilum sínum“ og má nálgast hana hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mummi fór hjá sér þegar svæsnustu prakkarastrikin voru borin undir hann – „Fokk þetta verður eitthvað“

Mummi fór hjá sér þegar svæsnustu prakkarastrikin voru borin undir hann – „Fokk þetta verður eitthvað“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Víðir um veikindin – „Ég varð þunglyndur og átti bara mjög erfitt“

Víðir um veikindin – „Ég varð þunglyndur og átti bara mjög erfitt“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona setur þú upp útiseríurnar að hætti Gulla byggis

Svona setur þú upp útiseríurnar að hætti Gulla byggis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – Klámstjörnuvandamál og feðradagurinn

Vikan á Instagram – Klámstjörnuvandamál og feðradagurinn