Jæja þá er komið að því enn eitt árið. Lúsmýið er farið að hrella landsmenn sem hafa ekkert unnið sér til sakar nema að skella sér í sumarbústað, eða búa á óheppilegu svæði. Eins gaman og það nú er að njóta orlofsins fjarri heimahögum í fallegri sveit getur það verið hundfúlt að snúa aftur útbitinn og korter í geðrof vegna kláða.
Fókus tók því saman nokkur heilræði, bæði til að hafa í huga til að fyrirbyggja bitinn og svo til að meðhöndla bitinn ef allt fer á versta veg. Rétt er að minnast hér að Fókus ábyrgist ekki hvert og eitt einasta ráð virki fyrir þig. Svo virðist sem að það sem virki fyrir einn virki þó ekki fyrir þann næsta. Rauði þráðurinn sem blaðamaður fann í rannsókn sinni var sá að best sé að reyna að nýta flugnanet til að koma í veg fyrir að vágesturinn komist inn og svo viftur og þéttan fatnað til að fyrirbyggja að hann komist að manni til að bíta.
Sjálfur ætlar blaðamaður að nýta öll ráðin í einu. Þetta lúsmý mun ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið.
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að gefa út ráðleggingar árið 2019 um hvernig megi forðast bit og svo meðhöndla þau.
Fyrir þá sem lenda í bitum var bent á að gott sé að kæla bitið, ef það er bólgið í um 10 mínútur. Verkjalyf á borð við parasetamól getur slegið á óþægindi. Eins er gott að hafa hærra undir höndum og fótum ef bit eru þar – það geti dregið úr bólgumyndun.
Ekki er mælt með því að klóra í húðina þar sem það getur aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling ætti að draga úr kláða.
Ofnæmistöflur sem fást í apótekum hindra áhrif histamíns í líkamanum og geta minnkað kláða og útbrot. Sterakrem á borð við Mildison geti einnig dregið úr bólgu og kláða. Sterakrem ætti ávallt að bera á í þunnu lagi og í stuttan tíma í einu og forðast að bera það í andlit eða á sár. Steratöflur geti gagnast í tilvikum þar sem útbrot eru svæsin en til að fá þau þarf að leita á næstu heilsugæslustöð.
Eitt ráð sem hefur verið sagt duga gegn lúsmýinu er að nýta kolagrillið. Þá er kolunum raðað í hring í grillinu. Þó ekki í lokaðan hring, heldur í skeifu. Kolunum er raðað í tvöfalda röð, á tveimur hæðum. Síðan er kveikt í öðrum enda kolaskeifunnar, kolin svo kveikja hvert í öðru og halda grillinu heitu alla nóttina.
Síðan á að loka efra spjaldinu á grillinu, en hafa það neðra hálfopið. Lokið er svo smurt að utan með matarolíu. Lokið er svo lagt á grillið.
Mun vera best að nota þessa aðferð að næturlagi, í logni og þurrki.
Sjá einnig: Svona losnar þú við lúsmý
Á síðasta ári taldi kona ein sig hafa lausnina við þessum vágesti inn á Facebook-hópnum Lúsmý á Íslandi.
„Við fjölskyldan erum öll útbitin af lúsmýinu og hef prófað allskonar húsráð sem virka mis illa…,“ sagði konan og greindi svo frá að hún hafi prófað nýtt húsráð sem hafi virkað nokkuð vel. Húsráðið snýst um að setja hvítlauksolíu við opinn glugga.
„Í gær setti ég skál með hvítlauksolíu við opinn glugga (logn úti) og ekkert nýtt bit daginn eftir. Nokkrar höfðu drukknað í olíunni. Hafið þið prófað þetta?“ sagði konan. „Nei, þess virði að prófa. Mér skilst að edik í skál geri sama gagn en ekki búin að prófa,“ sagði önnur kona í athugasemd.
Sjá einnig: Nýtt húsráð sagt reynast vel í baráttunni gegn lúsmý – „Ekkert nýtt bit daginn eftir“
Margir hafa greint frá því að hafa náð ágætis árangri í baráttunni við lúsmý með ilmolíum, þá helst lavanderolíu, lemongrass– eða tee trea olíu. Þá er nokkrum dropum blandað við vatn og svo spreyjað í glugga, á rúmföt eða á húð til að fæla vágestinn frá.
Smidge flugnafælan er sögð veita allt að 8 klukkustunda vörn gegn lúsmý og mun fást í flestum apótekum. Meðlimir í hópnum Lúsmý á Íslandi segja sumir að fátt annað virki betur.
Aðrir hafa bent á MYGGA DEET flugnafæluna sem innihaldi fæliefnið DEET sem er talið hafa góð áhrif gegn Lúsmý og flugnabitum.
Sumir segja að flugnafælur með hljóðbylgjum geri gæfumuninn. Þeim er þá stungið í rafmagn, eða ganga fyrir rafhlöðum, og gefa frá sér hljóðbylgjur sem fara svo í taugarnar á flugunum að þær forða sér.
Þó nokkur húsráð hafa gengið manna milli varðandi þessi leiðinlegu bit sem lúsmýið gefur okkur landsmönnum í svo mikilli óþökk að flestir myndu taka því fagnandi að fá að setjast aftur yfir skattaskýrsluna sína í staðinn. Utan þeirra sem nefnd eru að ofan í ráðleggingum heilsugæslunnar má nefna eftirfarandi:
Hlaupabólusmyrsl – Þó nokkrir hafa náð að slá á kláða eftir bit með smyrslum og kremum sem notuð eru við hlaupabólu. Má þar nefna Kalamín áburðinn frá Gamla apótekinu.
Heit skeið – Sagt er að hægt sé að slá á kláða með heitri teskeið. Þá er teskeið stungið í heitt vatn þar til hún hitnar og skeiðarblaðið svo lagt á bitið og hitað eins lengi og maður þolir. Þetta er endurtekið um það bil þrisvar og þá er kláðinn sagður hverfa.
Eftirbitspennar – Fyrir þá sem nenna ekki að vesenast með heitar skeiðar er hægt að kaupa sérstaka eftirbitspenna sem eru gjarnan fáanlegir í apótekum landsins.