Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi, er nýjasti gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur. Í þættinum, sem er einnig fjallað um á vef Stundarinnar, ræða þær um niðurstöðuna í meiðyrðamáli leikarans Johnny Depp gegn fyrrverandi eiginkonu hans, leikkonunni Amber Heard.
Það tók kviðdóminn fjórtán klukkustundir til að komast að þeirri niðurstöðu að grein sem Heard birti hjá Washington Post árið 2018 hafi falið í sér meiðyrði. Heard sagðist vera þolandi heimilisofbeldis í greininni en nafngreindi ekki Depp.
Kviðdómurinn féllst á það með Depp að í greininni hafi falist meiðandi ásakanir í hans garð og hafi Heard verið grandvís þegar hún lét þau falla. Bætur voru dæmdar 15 milljónir Bandaríkjadala.
Sjá einnig: Johnny Depp hafði betur gegn Amber Heard
Þórdís Elva segir niðurstöðurnar vera áhyggjuefni fyrir þolendur ofbeldis. „Ég er mjög hissa á niðurstöðunni, að þarna skuli kviðdómur einhvern veginn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið einhliða. Mér finnst það furðulegt þér að segja, og það veldur mér áhyggjum að manneskja geti ekki, mörgum árum síðar, sagt „ég var í ofbeldissambandi“ án þess að nafngreina nokkurn mann og án þess að tilgreina nein sérstök atvik eða staðsetja þau í tíma eða neitt slíkt, það veldur mér áhyggjum,“ segir hún.
„Segjum að þú hafir átt tíu kærasta og ákveður eftir hálft ár að segja að þú hafir verið beitt ofbeldi í sambandi. Átt þú þá von á því núna að tíu manns mega bara kæra þig því þeim finnst eins og þetta mögulega kássist þetta upp á þeirra ímynd. Þá værum við farin að sjá held ég ansi mikla og kröftuga þöggun, það yrðu áhrifin sem þetta myndi hafa og þess væri óskandi að slíkt gerist ekki.“
View this post on Instagram
Þórdís Elva bendir á að fólki þyki oft erfitt að trúa einhverju slæmu upp á stjörnurnar sem maður lítur upp til, eins og Depp sem er einn frægasti leikari samtímans.
„Ef ég þarf að horfast í augu við að hjartaknúsarinn sem ég hef alltaf litið upp til og fundist frábær leikari sé ekki endilega allur þar sem hann er séður, eða ef fyrirliðinn minn í fótbolta sem ég hélt að væri mögulega besta fyrirmyndin fyrir börnin mín, eða uppáhaldsleikstjórinn minn eða Bill Cosby eða hver sem það er sem liggur undir grun, að hann sé mögulega manneskja sem er fær um að beita ofbeldi þá er það að sjálfsögðu mjög óþægilegt,“ segir Þórdís Elva og bætir við að auðvitað sé það notaleg tilhugsun að fólk skiptist bara í tvo flokka, góða menn og vonda menn.
„Ef það væri raunin væri auðveldara að lifa í þessum heimi. Þess vegna skil ég tilhneigingu fólks til að ríghalda í þetta, sakleysi, skulum við segja. En þetta er auðvitað ekki sakleysi, heldur ranghugmynd, því alls konar fólk beitir ofbeldi.“
Þórdís Elva segir að fólk sem beitir ofbeldi gerir marga aðra hluti, jafnvel hluti sem eru góðir fyrir samfélagið. „Það að þurfa að halda báðum þessum hugsunum í höfðinu samtímis er flókið, það er ekkert hlaupið að því þegar heimsmyndin þín hefur alltaf verið svarthvít. Þá er þægilegt að geta gripið í steríótýpurnar og geta haldið þeim á lofti. Það er held ég það sem hefur gerst í þessu máli.“
Málið vakti gríðarlega athygli á samfélagsmiðlum, enda var hægt að fylgjast með því í beinni útsendingu. Netverjar skiptust í fylkingar en voru stuðningsmenn Depp töluvert fleiri og háværari en þeir sem stóðu við bak Heard.
„Eflaust er það svo að það sem hefur knúið fólk áfram er að fólki þykir það hafa fundið sannleikann í málinu og þar af leiðandi megi það taka afstöðu sem er mjög hatrömm. Það kaldhæðna í málinu er að í grunninn er þetta ærumeiðingamál og heimsbyggðin nú er búin að ærumeiða Amber Heard í fimm til sex vikur,“ segir Þórdís Elva.
Sama hvaða afstöðu fólk tekur segir Þórdís Elva að það skipti máli hvernig fólk tjáir sig um málið. Hún segir að það sé afar ólíklegt að Heard og Depp muni einhvern tíma sjá það sem fólk skrifar um það á netinu, en hins vegar sé það mjög líklegt að fólk í þínu nærumhverfi, sem hefur einhverja reynslu af ofbeldi, muni sjá það.
„Og dragi þá ályktun að þér sé ekki treystandi fyrir þeirra sögu. Jafnvel þaggi þetta niður í þeim enn frekar, til langs tíma. Ég held að við þurfum þarna að stoppa og skoða og spyrja okkur sjálf: „Hvað erum við að gera með því að taka þátt í þessari tegund af persónuárásum.“ […] Segjum að þú sért að hæðast að Johnny Depp með þessum orðum: „Karlkyns þolandi heimilisofbeldis! Hefurðu séð Amber Heard? Hún er fimmtíu kíló með skólatösku.“ Þú heldur mögulega að með þessu sértu að iðka einhvern skaðlausan leik vegna þess að þetta muni Johnny Depp aldrei sjá eða taka til sín. En mögulega mun karlkyns þolandi heimilisofbeldis í þínu nærumhverfi sjá þetta og skríða enn lengra inn í sína skel.“
Hún bendir einnig á hvernig var hæðst að Heard, útliti hennar, hvernig hún talaði um ofbeldið og hvernig hún grét, og segir að það sé ekki til hinn „fullkomni þolandi.“
Þú getur horft á allt viðtalið í heild sinni hér að neðan.